15.11.1971
Neðri deild: 13. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 2350 í B-deild Alþingistíðinda. (2514)

Launa og kaupgjaldsmál

Lárus Jónsson:

Herra forseti. Ég þakka hæstv. forsrh. svörin. Það var ánægjulegt að fá það upplýst hér, að þetta er ríkisstj. mat á því, hvað hægt sé að hækka og bæta kjörin á næstu tveimur árum, þannig að ekki verði úr verðbólga og að hér sé um raunhæfar kjarabætur að ræða. En ég held nú samt, að einmitt í þessu svari hæstv. ráðh. komi fram, svo fremi sem menn eru samkvæmir sjálfum sér, að þessi yfirlýsing hljóti að binda hendur beggja aðila í samningum. En það er eitt atriði í sambandi við þetta mál sem er mjög stórt og sem hafa ekki fengizt nein svör við þrátt fyrir ítrekaðar fsp., eftir því sem ég hef vitað um a. m. k. Og það er, hvort ríkisstj. hefur gert ráð fyrir því, þegar hún framkvæmdi þetta mat, — gerði hún þá ráð fyrir því, að til framkvæmda kæmi lækkun vaxta, lenging lánstíma og lækkun á ýmsum kostnaðarliðum atvinnuveganna? Og hvenær á þetta að koma í framkvæmd og hversu mikil á lækkun vaxta að verða og hvernig á að framkvæma þessa lækkun á rekstrarkostnaði ýmissa atvinnuvega, eins og t. d. útgerðar?