17.12.1971
Neðri deild: 29. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 171 í B-deild Alþingistíðinda. (252)

121. mál, vörugjald

Frsm. (Vilhjálmur Hjálmarsson):

Herra forseti. Fjhn. flytur nú við 3. umr. þessa máls þrjár brtt., sem liggja hér fyrir á þskj. 224. Fyrsta brtt. er nánast leiðrétting á skakkri tilvísun í lög. Um hinar tvær brtt. vil ég taka þetta fram: Eftir að málið hafði verið afgr. við 2. umr. hér í d., kom fram ábending frá Félagi ísl. stórkaupmanna og Sambandi ísl. samvinnufélaga um það, að erfitt kynni að reynast að fullnægja þeim ákvæðum, sem felast í 7. og 9. gr. frv. um merkingar á smásöluumbúðum sumra þeirra vörutegunda, sem hér er um að ræða. Þetta á við sælgæti, t.d. karamellur og annað slíkt sælgæti, sem er selt þannig, að smásöluumbúðirnar eru raunar aðeins á smæstu einingum vörunnar. Fjhn. tók þessar ábendingar til athugunar, ráðgaðist um málið við deildarstjóra í fjmrn., Björn Hermannsson, og varð sammála um það að taka þessar ábendingar til greina á þann hátt að gefa ráðuneytinu nokkru rýmri hendur varðandi merkingu smásöluumbúðanna en í frv. felst, eins og það liggur hér fyrir nú. Að því lúta þær brtt. fjhn., sem ég áðan nefndi, þ.e. 2. og 3. brtt. á þskj. 224.