15.11.1971
Neðri deild: 13. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 2357 í B-deild Alþingistíðinda. (2523)

Launa og kaupgjaldsmál

Lúðvík Jósepsson:

Herra forseti. Það eru nú orðnar alleinkennilegar umr. hér utan dagskrár, sem nálgast að vera svona almennar pólitískar umr., en ekki aðeins í tilefni af tilteknu, þröngu málefni, sem hér var fitjað upp á í upphafi, ekki sízt þegar á málum er haldið eins og hv. síðasti ræðumaður gerði, hv. 4. þm. Austf. Hann kemur hér æ ofan í æ upp í ræðustól og fullyrðir, að ákveðinn þm., sem ekki er staddur hér í salnum, hafi sagt það, sem hann hefur ekki sagt. Ég vil gjarnan biðja þennan hv. þm. að sanna mér, að Eðvarð Sigurðsson hafi sagt, að þeir hefðu rétt til þess að krefjast 37% kauphækkunar í krafti stjórnarsáttmálans. Það, sem Eðvarð Sigurðsson hefur sagt í þessum efnum, var fullkomlega rétt, vegna þess að þær kröfur, sem verkalýðshreyfingin setti fram í sambandi við væntanlega samninga, voru byggðar upp í meginatriðum á þeim grundvelli, sem ríkisstj. hafði hreinlega gert ráð fyrir í sínum stjórnarsáttmála. Í stjórnarsáttmálanum var gert ráð fyrir því, að vinnuvikan yrði stytt, og kröfur verkalýðsfélaganna voru um það í stjórnarsáttmálanum var gengið út frá því, að orlof yrði lengt úr þrem vikum í fjórar. Í kröfum verkalýðsfélaganna var gengið út frá því og í stjórnarsáttmálanum var gengið út frá því, að kaupmáttaraukning hjá láglaunafólki í landinu yrði 20% á næstu tveimur árum. Og í kröfum verkalýðsfélaganna var gengið út frá þessu. Til viðbótar við þessar kröfur komu svo fram kröfur frá verkalýðshreyfingunni um sérstaka leiðréttingu á launum hinna allra lægst launuðu.

Hér koma fram ræðumenn og spyrja um það í sífellu, hvað ríkisstj. meti styttingu vinnuvikunnar sem mikla kauphækkun, og jafnvel þeir, eins og hv. 4. þm. Austf., sem telja sig vera forsvarsmenn verkalýðshreyfingarinnar í landinu, auðvitað með vafasömum rétti, koma og spyrja um þetta. En vitanlega ættu þessir menn að þekkja, að stytting vinnuvikunnar kemur mjög mismunandi út sem kjarabætur hjá hinum einstöku aðilum. Sumir í stéttarfélögum hafa þegar samið um, að þeirra vinnuvika skuli aðeins vera 40 stundir, og þeir fá vitanlega ekki miklar kjarabætur út úr þessu ákvæði. Aðrir hafa samið um að smástytta vinnuvikuna í framkvæmd og eru komnir þarna nokkuð langt áleiðis og hafa nú vinnuviku, sem mun vera í kringum 41½ eða 42 stundir á viku. Einnig er vitað, að stytting vinnuvikunnar getur auðvitað í vissum tilvikum þýtt, ef unninn verður jafnlangur tími, eftir að styttingin hefur verið gerð, og áður var, beinar launabætur, en vitanlega getur stytting vinnuvikunnar líka í mörgum tilvikum þýtt, að ekki verður um neina beina launahækkun að ræða, af því að vinnuvikan styttist, eins og um hefur verið samið, í reynd.

Það, sem sérstaklega vekur athygli mína í sambandi við þær umr., sem hér hafa farið fram, er að heyra m. a. þann hv. þm., sem hér hefur getið þess sérstaklega, að hann standi í forsvari fyrir verzlunarmenn, og hann þakkar auðvitað hæstv. forsrh. fyrir að viðurkenna, að það væri ósköp eðlilegt, að verzlunarmenn bæru sín kjör saman við kjör opinberra starfsmanna, enda hefur verzlunarfólk í landinu ekkert dregið af sér í því að halda fram, að það ætti nú rétt á því að fá jafnvel meiri launahækkun en margir aðrir. En svo kemur þessi hv. þm. og talar um þá stefnuyfirlýsingu ríkisstj. að viðurkenna, að réttmætt sé, að stjórnarvöld beiti afli sínu til þess að koma fram tiltekinni launahækkun á næstu tveimur árum fyrir þá, sem teljast til láglaunafólks í landinu, og það telur hann vera dæmalaust plagg. Og hann telur enn fremur, að þetta frumkvæði ríkisstj. hafi orðið til þess að torvelda samninga. Hvar eru heilindi þeirra, sem þannig tala? Þeir gera kröfu fyrir sína umbjóðendur um enn þá meiri launahækkun en ríkisstj. hefur fjallað gagngert um í sínum samningum, en hneykslast svo á því, að ríkisstj. skuli hafa þó tekið undir þessar launakröfur hjá láglaunafólki í landinu. Þessi hv. forsvarsmaður verzlunarmanna í landinu sagði: Hafði ríkisstj. ekki gert sér grein fyrir því, að stytting vinnuvikunnar úr 44 stundum í 40 mundi kosta fiskiðnaðinn í landinu 14.8% í auknum útgjöldum og 14.2% aukin útgjöld hjá iðnaðinum í landinu? Hvaðan skyldi hann hafa þessa útreikninga? Atvinnurekendur í landinu hafa verið að birta þá að undanförnu. (SvH: Þú hefðir ekki gert þetta.) Ég, jú, ég get gert það núna, ef þú vilt, af því að þeir eru staðlaus vitleysa að mínum dómi. Og hver sá, sem eitthvað þekkir til framkvæmda í þessum málum, veit, að útkoman getur ekki orðið þessi. En sem sagt, þó að það hafi hingað til verið yfirlýst stefnumál verkalýðshreyfingarinnar í landinu og enginn hafi talað meira um það en t. d. Eðvarð Sigurðsson, sem þessi hv. þm. sá ástæðu til að ráðast hér sérstaklega á og afflutti hans mál, er hann var ekki viðstaddur, hann hefur haldið því fram æ ofan í æ hér á Alþ., að ekki væri hægt að telja til beinnar launahækkunar umsamda styttingu á vinnutíma, enda hefur þetta verið yfirlýst stefna í verkalýðshreyfingunni að vilja ekki fallast á, að samningar um styttingu á vinnutíma þýði jafnframt tiltekna kauphækkun. Slík kauphækkun verður ekki nema í einstaka tilvikum, og það er vitanlega ekki hægt að slá neinu föstu um það, hversu mikil hún verður í hverri atvinnugrein fyrir sig. Það fer vitanlega alveg eftir því, hvernig ástatt er um verkefni. En þessar umr. hafa endurspeglað þetta að mínum dómi, sem nú er að gerast í þessum málum í okkar landi; annars vegar eru menn, sem vilja berjast fyrir því, að a. m. k. tilteknir aðilar í landinu fái eins mikla kauphækkun og mögulegt er, og ætla að ásaka bæði stjórnarvöld og aðra fyrir að standa í vegi fyrir því, að þessi mikla kauphækkun nái fram að ganga og hafa ekkert dregið af sér í þeim efnum, en hins vegar reyna þeir á sama tíma að halda því fram, að ekki sé hægt fyrir atvinnuvegina að bera eðlilegar kauphækkanir.

Ég held, að enginn vafi sé á því, að það atriði í stefnuyfirlýsingu ríkisstj., sem hér hefur verið gert að umtalsefni, sú viðurkenning á því, að réttmætt sé, að þeir lægst launuðu í landinu fái tilteknar launabætur eða unnið verði að því að koma þeim fram, þær hafi fyllilega átt rétt á sér. Það var eðlilegt að vinna að því að stytta vinnuvikuna hjá þeim, sem vinna yfirleitt þyngstu verkin, sem unnin eru í landinu, en búa nú við lengstan vinnutíma. Og það var eðlilegt, að við ynnum að því að lengja orlof hér á landi til samræmis við það, sem við þekkjum í nálægum löndum. Og það var fyllilega eðlilegt að ætla að koma því fram að hækka nokkuð laun frá því, sem verið hafði hjá hinum lægst launuðu í landinu eða láglaunafólki almennt, þegar það lá fyrir, að atvinnuvegir okkar bjuggu við einstaklega hagstæð ytri skilyrði. Verðlag hafði hækkað mikið á útflutningsafurðum okkar og undir slíkum kringumstæðum voru auðvitað skilyrði til þess að rétta hag þessa launafólks. Umsetning öll í landinu hafði stórkostlega vaxið, og það vitanlega bætti afkomu iðnaðarins í landinu og verzlunarinnar mjög verulega frá því, sem áður var, enda viðurkennt af forustumönnum þessara atvinnugreina. Það var því ofureðlilegt, að ríkisstj. lýsti yfir því sem sínu stefnumáli, að hún vildi vinna að því, að slíkar launabætur næðu fram að ganga. Slík yfirlýsing var eðlileg, og það er hart að heyra það, að þeir, sem kalla sig forsvarsmenn í verkalýðshreyfingunni, skuli kalla slíkar yfirlýsingar til þess fallnar að torvelda samninga. Það geta vitanlega þeir ekki sagt, sem eru raunverulegir forsvarsmenn verkalýðshreyfingarinnar í landinu. Mín skoðun er sú, að þau ummæli, sem hér var vitnað til hjá Eðvarð Sigurðssyni, hafi verið rétt að því leyti til, að kröfur verkalýðshreyfingarinnar voru í samræmi við yfirlýsta stefnu ríkisstj. En hitt kannast ég ekki við, að Eðvarð Sigurðsson hafi sagt, að verkalýðshreyfingin ætti rétt á 37% launahækkun vegna stefnuyfirlýsingar ríkisstj. Það hefði auðvitað verið full ástæða til þess, eins og þessi mál öll standa nú, að reynt hefði verið hér af hv. alþm. að stuðla að því, að samningar næðust í þeim vinnudeilum. sem nú standa yfir, sem vitanlega geta þróazt upp í það, áður en langt um líður, að leiða til stöðvunar á framleiðslu í landinu, ef ekki næst samkomulag. Það hefði verið ástæða til þess að vænta þess, að þm. reyndu að leggja fram sitt lið til þess að leysa deiluna, en ekki að þeir ynnu á þann hátt, sem ég fyrir mitt leyti get ekki annað en lesið út úr því, sem hér hefur komið fram frá nokkrum af fulltrúum Sjálfstfl., að þeir reyndu að gera allt, sem þeir gætu, til þess að reyna að trufla það, að menn gætu staðið eðlilega að þessari samningagerð.

En það gefst að sjálfsögðu tími til þess, áður en langt um líður, að ræða þessi mál hér á breiðari grundvelli en nú er utan dagskrár. En ég tel, að þeir fulltrúar Sjálfstfl., sem lagt hafa orð í belg í þessum umr., hafi ekki bætt málstað sinn að mati neinna þeirra, sem hér hafa á hlustað.