15.11.1971
Neðri deild: 13. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 2360 í B-deild Alþingistíðinda. (2524)

Launa og kaupgjaldsmál

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Ég skal ekki lengja þessar umr. mikið, en mér finnst athyglisvert, að hv. þm. Sjálfstfl. skuli finna sig til þess knúna að koma hér upp hver á fætur öðrum og tjá óróleika sinn yfir þeim seinagangi, sem þeir telja, að sé á viðræðunum, sem nú standa yfir milli verkalýðshreyfingar og atvinnurekenda um samningamálin. Ég skil þetta svo, að þarna séu þeir að láta skína í umhyggju sína fyrir verkalýðshreyfingunni, og ég met það, ef svo er. Þeir leiðrétta það væntanlega á eftir, ef ég met þetta skakkt. En mér finnst þetta athyglisvert, þegar þeir tala um, að ríkisstj. sé völd að þessum seinagangi. Þetta er athyglisvert, þegar það er haft í huga, sem ég fullyrði, að aldrei hefur verkalýðshreyfingin þurft að þola aðra eins áþján af hálfu ríkisvaldsins og hún varð að þola undir viðreisnarstjórninni, stjórn þess flokks þessara hv. þm., sem veitti þeirri stjórn forustu. Ég vona, að þetta tal þeirra hér sé merki þess, að batnandi mönnum sé bezt að lifa, og það er vel, ef svo er.