15.11.1971
Neðri deild: 13. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 2362 í B-deild Alþingistíðinda. (2528)

Launa og kaupgjaldsmál

Jóhann Hafstein:

Herra forseti. Ég ætla ekki að blanda mér í þessar umr. að öðru leyti en því, að hér kom áðan fram ungur þingmaður, hv. 7. landsk. þm., og tók svo til orða, að hann átaldi það, að þm. Sjálfstfl. væru hér að ræða um kjör launafólksins í landinu, aðra eins áþján og launafólkið hefði þurft að líða í tíð fyrrv. ríkisstj. Þessi orð krefjast nú frekari skýringar og þessi þm., sem hefur stuttan tíma setið á þingi og kemur hér inn nú fyrst, þegar þing kemur saman, verður að gera sér grein fyrir því, að menn geta sagt svona á götum og gatnamótum og kannske á fundum einhvers staðar úti á landi, en menn geta ekki sagt svona í þingsölunum án þess að finna sínum orðum stað.

Í tíð fyrrv. ríkisstj. batnaði hagur alls almennings í þessu landi stórkostlega. Tekjur þjóðarbúsins jukust og framleiðsla þjóðarbúsins jókst. En ætíð jukust tekjur launþeganna í samræmi við auknar þjóðartekjur allan tímann og meira. Verkalýðsstéttin fékk meiri laun, lægst launuðu stéttirnar og minna launuðu stéttirnar fengu meiri kjarabætur á þessu tímabili en tekjuaukningin og framleiðsluaukningin var í þjóðarbúinu á síðasta áratug. Ef ég man rétt, — ég hef ekki þau gögn hér við höndina, — þá held ég, að það séu um 64%, sem hafi orðið aukningin til kjarabóta hjá launastéttunum á þessu tímabili, sem er meira en var tekjuaukning þjóðarbúsins og framleiðsluaukning þjóðarbúsins.

Á þessu tímabili gerðist einnig það, að 1964 beitti þáv. forsrh., Bjarni heitinn Benediktsson, sér fyrir víðtækara samkomulagi og friðsamlegra en áður hafði tíðkazt að gert væri milli aðila vinnumarkaðarins, vinnuveitenda og launþeganna, og var hann frumkvöðull að því, júní-samkomulaginu 1964.

Þegar verulega bjátaði á og hallaði undan fæti fyrir þjóðarbúi okkar 1967 og 1968, þegar framleiðsluverðmætin minnkuðu á tveimur árum um 50% að útflutningsverðmæti, þá beitti þáv. ríkisstj. sér enn fyrir geysilega víðtæku samstarfi og samkomulagi aðila vinnumarkaðarins og ríkisstj. Þá voru settar upp atvinnumálanefndir, atvinnumálanefnd ríkisins og atvinnumálanefndir í öllum kjördæmum landsins, og gerður sáttmáli við Alþýðusamband Íslands og Vinnuveitendasamband Íslands um, að þessir aðilar skyldu taka höndum saman ásamt með ríkisstj. til þess að berjast gegn þeirri vofu atvinnuleysis, sem þá hafði haldið innreið sína sem afleiðing af þeim áföllum, sem þjóðarbúið hafði orðið fyrir. Með þessum samstilltu tökum tókst að verjast áföllunum og gera ráðstafanir til þess að útrýma atvinnuleysinu.

Hvað á þessi ungi hv. þm. við, þegar hann talar um áþján fyrrv. ríkisstj. á launafólkinu í landinu? Hvað á hann við með því? Launafólkið í landinu fékk fullkomlega sinn hlut af auknum þjóðartekjum og aukinni þjóðarframleiðslu, og þetta á hv. þm. að vita.