24.11.1971
Neðri deild: 17. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 2364 í B-deild Alþingistíðinda. (2532)

Launa og kaupgjaldsmál

Forsrh. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Efnahagsstofnunin hefur gert ýmsa útreikninga varðandi stöðu atvinnuveganna vegna þeirra kjarasamninga, sem standa yfir. Þau gögn hafa þeir aðilar, sem vinna að lausn deilunnar, samningsaðilarnir og sáttanefnd, fengið í hendur. Hins vegar hefur ekki verið talið rétt að birta þessi gögn opinberlega. Það hefur ekki verið gert áður, að ég hygg. Það er rétt, sem hv. fyrirspyrjandi sagði, að hér er um viðkvæm mál að ræða. Þessir útreikningar, sem um er að tefla, eru vandasamir. Þeir hljóta í mörgum atriðum að byggjast á forsendum, sem þeir gefa sér eða verða að ákveða, sem út eiga að reikna. Og ég hygg satt að segja, að það sé nokkuð erfitt fyrir þá, sem eru ekki inni í þessum málum, að skilja þessa reikninga, og áreiðanlega er auðvelt að misskilja þá og jafnvel mistúlka.

Það hafa engum sérstökum alþm. verið sendir þessir útreikningar,—en orð hjá hv. fyrirspyrjanda gátu gefið slíkt í skyn. En að gefnu þessu tilefni frá honum mun ég taka það til athugunar í samráði við þá, sem útreikningana hafa gert, hvort ekki sé rétt að leggja þá fyrir þær nefndir Alþ., sem fjalla um þau frv., sem hann nefndi.