24.11.1971
Neðri deild: 17. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 2366 í B-deild Alþingistíðinda. (2537)

Launa og kaupgjaldsmál

Guðlaugur Gíslason:

Herra forseti. Ég held, að þegar hæstv. forseti leyfir fsp. utan dagskrár — og án efa hefur verið borið undir hæstv. forsrh., hvort hann mundi svara henni, — þá verði hann að reikna með, þegar slíkt mál ber að, að umr. verði um það.

Það, sem gaf mér tilefni til að koma hér upp í ræðustól, voru þau orð, sem hæstv. forsrh. sagði, að ekki hefði verið venja áður að veita upplýsingar eins og hér var um beðið. Ég vil benda á, að í málefnasamningi ríkisstj. er á einum stað fyrirsögnin: „Ríkisstj. mun m. a. beita sér fyrir eftirtöldum ráðstöfunum í efnahagsmálum“, og síðan talin í 8 töluliðum ýmis atriði, sem beinlínis snerta atvinnuvegina. Ég tel alveg útilokað annað en fyrir verði að liggja fullar upplýsingar um, hvernig þessi atriði öll verka, áður en atvinnurekendur geta gengið til samninga. Og ég tel það alveg sjálfsagða skyldu, að Alþingi Íslendinga fái að vita um þessi atriði öll, áður en kannske kemur til verkfalla, vegna þess að ekki nást samningar um atvinnu- og kaupgjaldsmálin: Og þó að ekki hafi áður, eins og hæstv. forsrh. sagði, verið venja að veita þessar upplýsingar, þá tel ég, að málefnasamningur ríkisstj. gefi alveg fullt tilefni til fsp., og ég tel, að málefnasamningurinn leggi þá kvöð á hæstv. forsrh. að svara þeim fsp., sem hér koma fram varðandi efnahagsmálin, sem vissulega snerta þau mál sem nú eru efst á baugi, en það eru kaupgjaldsmálin og samningarnir.