31.01.1972
Neðri deild: 36. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 2366 í B-deild Alþingistíðinda. (2538)

Launa og kaupgjaldsmál

Gylfi Þ. Gíslason:

Herra forseti. Um þessar mundir er mjög óvenjulegt ástand á ríkisheimilinu. Ríkisvaldið, sem er langstærsti atvinnurekandi í landinu, á í harðri kjaradeilu við starfsmenn sína. Í s. l. viku héldu opinberir starfsmenn sérstakt þing til þess að fjalla um þessi mál og var þar alger einhugur um, að þeir ættu rétt á nokkurri kauphækkun til jafns við þá launþega, sem nýlega hafa samið um kaup og kjör í frjálsum samningum. Ég hef í höndum ítarlega skýrslu um samanburð á frjálsum vinnumarkaði og kaupi ríkisstarfsmanna fyrir hliðstæð störf. Sem dæmi má nefna, að byrjunarlaun samkv. I. flokki hjá Iðju eru 17 599 kr., en byrjunarlaun ríkisstarfsmanns við Iðjustörf eru 15 749 kr. Munurinn er 1850 kr. Byrjunarlaun járnsmiðs verða 1. marz 1973 27 199 kr. eftir þriggja ára starf. Iðnaðarmaður í hliðstæðu starfi hjá ríkinu hefur á sama tíma 23 603 kr. eftir eins árs starf, og eftir að hafa starfað í 12 ár hefur hann 26 317 kr. Munurinn er frá 882 kr. upp í 3 596 kr.

Ég læt þessi dæmi nægja til þess að sýna fram á, að ríkisstarfsmenn hafa sannarlega lægri laun en nýbúið er að semja um á frjálsum vinnumarkaði. Eðlilegt er, að Alþ. fái vitneskju um, hvernig ríkisstj. hugsar sér framvindu þessara mála. Er það endanleg afstaða ríkisstj. að verða ekki við einróma óskum þings Bandalags starfsmanna ríkis og bæja? Ætlar hún að láta málið ganga til Kjaradóms? Ef svo er, hver verður þá stefna ríkisstj. í málflutningi fyrir Kjaradómi?

Hér er um að ræða mikla og víðtæka kjaradeilu. Þing opinberra starfsmanna gaf ótvírætt í skyn, að gripið kynni að verða til sérstakra ráðstafana, ef samkomulag næðist ekki. Er augljóst, að þá yrði komið í mikið óefni. Hér er því alvörumál á ferð og nauðsynlegt, að Alþ. fái sem gleggsta vitneskju um, hvert stefnir í þessum málum.