31.01.1972
Neðri deild: 36. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 2367 í B-deild Alþingistíðinda. (2539)

Launa og kaupgjaldsmál

Fjmrh. (Halldór E. Sigurðsson):

Herra forseti. Fsp. hv. 7. þm. Reykv. vil ég svara því, út af þeim tölum, sem hann nefndi hér, að því miður hef ég ekki við höndina tölur þær, sem voru gerðar af BSRB og starfsmönnum fjmrn. til samanburðar á þessum launaflokkum, sem hann vitnaði til, af því að ég vissi ekki um þetta, fyrr en ég var kominn langleiðina hingað niður eftir, og hafði því ekki tíma til að nálgast þessi gögn. En ég vil segja, að það er rétt hjá hv. 7. þm. Reykv., ef miðað er við byrjunarlaun í lægstu launaflokkunum, að mismunur er þar á. Hins vegar er framkvæmdin þannig hjá ríkinu, að komi þrítugur maður í þjónustu þess, fer hann strax á hæstu laun, vegna þess að honum er þá reiknað til, að þau 12 ár, sem hann er búinn að vera á vinnumarkaðinum, gildi einnig, þó að hann hafi ekki unnið hjá ríkinu. Það, sem ríkisstj. hins vegar bauð fram, var að breyta þessu nú þegar, svo að þeir, sem þetta aldursskeið þyrftu að ganga í gegnum, gætu fengið það undir eins leiðrétt, og þá voru launin orðin sambærileg. Þessu hafnaði BSRB, að taka þessu tilboði ríkisstj., og þess vegna hefur ekki verið um málið samið út frá því tilboði, sem ríkisstj. gerði bandalaginu skriflega nú í s. l. viku, en hafði áður látið koma fram á fundi hjá sáttasemjara, að hún væri til viðræðu um að leiðrétta lægstu launin. Það var hins vegar mat ríkisstj. og þeir útreikningar, sem gerðir voru, að ef inn í þetta dæmi ættu að koma þær hækkanir, sem gerðar voru nú fyrir jólin hjá Alþýðusambandinu, þá mundi þetta reka sig upp fyrir og fara fram úr á vinnumarkaðinum.

Um framhald málsins er það að segja, að það er hjá sáttasemjara enn og ríkisstj. hefur gert þetta tilboð, sem ég gat hér um áðan, og ekki hefur verið haldinn fundur síðan það var gert. Hvort eitthvað kann að koma fram í málinu síðar, sem breytir afstöðu til þess, kann ég ekki skil á, en það er sem sagt í höndum sáttasemjara eins og er. Fari málið til Kjaradóms, mun ríkisstj. að sjálfsögðu leggja fram þau rök í málinu, sem hún telur sig hafa. Það er ekki hennar ósk, að með málið verði farið neitt öðruvísi en lög segja fyrir um, og það munu af hennar hendi verða lögð fram þau gögn, sem rökstyðja þá ákvörðun hennar, að enn þá hefur ekki komið fram á vinnumarkaðinum sú launahækkun, sem gefur ástæðu til þess að fara að breyta kjarasamningum opinberra starfsmanna. Því hefur ríkisstj. haldið fram í þeim umr., sem um þetta mál hafa farið fram, og samanburðurinn, sem gerður var, var að okkar hyggju á þann veg, að hann staðfesti þetta.

Ég ætla svo hins vegar engu að spá um það, hvernig málið kann að fara hjá Kjaradómi. Það er ekkert nýtt, að slíkt mál gangi þangað, og samkv. lögum ber því að gera það, ef ekki semst, og í Kjaradómi eru valinkunnir menn, sem ég veit, að allir treysta til þess að taka á málinu þannig, að þeir meti rétt rök í því.