31.01.1972
Neðri deild: 36. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 2373 í B-deild Alþingistíðinda. (2541)

Launa og kaupgjaldsmál

Gylfi Þ. Gíslason:

Herra forseti. Ég skal ekki blanda mér í þá lögfræðilegu deilu hæstv. ríkisstj. og BSRB, hvort skylt hafi verið að hefja viðræður við fulltrúa bandalagsins, þegar þeir óskuðu eftir því. Ég skal engan dóm fella um þetta atriði, en hitt vildi ég segja, að mér finnst það í raun og veru engu máli skipta, hvort það hafi verið skylt eða ekki skylt að ræða við opinbera starfsmenn um launamál þeirra á sínum tíma. Mér fannst það vera sjálfsögð kurteisi, sjálfsögð kurteisi af hálfu stærsta atvinnurekanda landsins í garð starfsmanna sinna að hefja við þá samningaviðræður um launamál þegar þeir óskuðu eftir því, og í því sambandi ekki skipta neinu máli, hvort það hafi verið lagalega skylt eða ekki. Það er m. a. þessi stirfni hæstv. ríkisstj., sem gert hefur það að verkum, að formaður BSRB, grandvar og orðvar embættismaður, hefur séð sig tilknúinn til þess að lýsa afstöðu ríkisstj. til starfsmanna sinna með því að bera hana saman við ruddalega framkomu fræga að endemum af hálfu erlends vinnuveitanda í garð sjómanna og verkamanna í Hafnarfirði fyrir næstum hálfri öld. Þegar það gerist, að oddviti hinna fjölmennustu launþegasamtaka í landinu telur sig knúinn til þess að viðhafa slík ummæli um sjálft ríkisvaldið eða forsvarsmenn þess, þá má geta nærri, að ýmsir fleiri líta mál þetta alvarlegum augum. Hæstv. forsrh. sagði, að ástæðan til þess, að ríkisstj. hefði í upphafi ekki fallizt á samningaviðræðurnar, hafi verið sú, að með því móti hefði hún viðurkennt, að ástæða væri til endurskoðunar á samningunum. Þetta tekur af öll tvímæli um það, að í upphafi var stefna ríkisstj. í málinu sú að bjóða ekki neitt, bókstaflega ekki neitt. Þessi afstaða er nú sem betur fer breytt, þannig að þessi rök hæstv. ráðh. standast ekki lengur. Nú hefur ríkisstj. gert bandalagi opinberra starfsmanna nokkurt boð, sem að vísu er svo lítilfjörlegt að dómi forsvarsmanna samtakanna, að þau telja það ekki vera samningsgrundvöll. En þessari upphaflegu stefnu hefur þó ríkisstj. nú þegar breytt, og því ber að sjálfsögðu að fagna. Ég vildi óska þess, að frekari breyting yrði á afstöðu ríkisstj. í þessu máli en þegar hefur komið fram.

Ég hlýt að láta í ljós vonbrigði með ummæli hæstv. fjmrh. Mér fannst ekkert í þeim geta bent til þess, að von sé á breytingu á afstöðu hæstv. ríkisstj., því miður, og það harma ég mjög. Hann játaði hins vegar, að það væri verulegur munur, sérstaklega í lægri launaflokkunum, á kjörum opinberra starfsmanna og því kaupi, sem nú hefur nýlega verið ákveðið í almennum kjarasamningum við launþega í landinu. Hæstv. forsrh. vildi hins vegar gera lítið úr þessum mun. Það gerði hæstv. fjmrh. ekki. Þau dæmi, sem ég nefndi í fsp. minni áðan, eru sótt beint í kjarasamningana sjálfa og ég hef sjálfur reiknað þau út, sem hefur verið mjög einfalt reikningsdæmi, og því verður auðvitað ekki á móti mælt, að að því er snertir iðjustörfin er munurinn á Iðjuverkamanni og kaupi opinbers starfsmanns við hliðstæð störf 1850 kr. á mánuði. Þetta er ómótmælanlegt, og að því er hitt dæmið snertir, sem er heldur enginn vandi að reikna, um járnsmiðinn, þá er munurinn frá 882 kr. og upp í 3596 kr. Ég get með engu móti fallizt á það, að hér sé um óverulegan mun að ræða. Hér er þvert á móti um mjög verulegan mun að ræða, enda gerði hæstv. fjmrh. sér áreiðanlega grein fyrir því, sem þessum málum er nákunnugur.

Ég taldi rétt að vekja athygli hér á þessu máli, vegna þess að ég vil endurtaka, að hér er um mikið alvörumál að ræða. Ef þessi mjög svo víðtæka vinnudeila fær ekki skjótan og góðan enda, þá má búast við miklum vandræðum í íslenzku þjóðfélagi. Einhugur opinberra starfsmanna í þessu máli er svo alger, að búast má við því, að þeir láti verða af því, sem þeir hafa gefið í skyn, að gripa til einhverra sérstakra aðgerða. Hverjar þær kunna að verða, veit ég að sjálfsögðu ekki. En það væri auðvitað til mikils tjóns fyrir þjóðfélagið í heild, ef þessi deila harðnaði mjög mikið úr því, sem nú á sér stað. Þess vegna vildi ég beina þeirri mjög eindregnu og alvarlegu áskorun til hæstv. ríkisstj., að endurskoða sem fyrst afstöðu sína í þessu máli til þess að firra vandræðum. En meðan hún hefur óbreytta afstöðu í þessu máli finnst mér það vera lágmark, að hún kalli sig ekki sjálf „ríkisstjórn vinnandi stétta“.