31.01.1972
Neðri deild: 36. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 2374 í B-deild Alþingistíðinda. (2542)

Launa og kaupgjaldsmál

Fjmrh. (Halldór E. Sigurðsson):

Herra forseti. Út af því, sem fram kom í ræðu hv. 7. þm. Reykv. nú áðan, og vegna þess að ég hafði ekki hjá mér þau gögn, sem máli skipta, þegar ég talaði hér áðan, þá bað ég um orðið á nýjan leik. Mér fannst það nokkuð skrýtið hjá hv. 7. þm. Reykv., að hann taldi, að ekki skipti máli, hvort ríkisstj. liti svo á, að ástæða væri til samninga eða ekki, hún ætti einnig að ganga til samninga, þó að hún hefði þá skoðun, að grundvöllurinn til samningagerðarinnar væri ekki fyrir hendi. Ég hefði talið, að til þess að hægt væri að fara út í samninga yrði að vera grundvöllur fyrir þeim, og það hygg ég, að við séum nú sammála um, ég og hv. 7. þm. Reykv., þegar betur er að gáð. En út af þeim samanburði, sem ég vitnaði hér til áðan, þá vil ég, með leyfi hæstv. forseta, lesa hér upp úr álitsgerð, sem hefur verið gerð í fjmrn. og var svo sameiginlega farið yfir af tveimur starfsmönnum fjmrn. og tveimur mönnum frá BSRB. Þar segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Samkv. ákvæðum kjarasamninga er starfsaldur verkamanna og Iðjumanna viðurkenndur til launa, hvar svo sem hans hefur verið aflað. Í reynd þýðir þetta, að starfsmaður, sem kominn er að þrítugu, tekur laun eftir 12 ár, jafnvel þó að hann sé rétt að byrja í þjónustu ríkisins. Framangreint er sérregla, sem gildir aðeins um verkamenn og Iðjustörf. Sé miðað við 30 ára gamlan mann, verða laun ríkisstarfsmanna 1.2% hærri en starfsmanna á almenna markaðinum þann 1. júlí 1972. Hins vegar verða laun þess síðar nefnda komin 4.8% upp fyrir laun ríkisstarfsmannsins 1. marz 1973.“

Þetta kom fram í ræðu minni áðan, og vildi ég undirstrika það, að þegar þessi samanburður er gerður, er það ekki fyrr en á síðasta stigi, sem verkamenn fara fram úr ríkisstarfsmönnunum samkv. þeim samningum, sem þeir gerðu í haust. Svo heldur áfram:

„Sé miðað við 30 ára mann, verða laun ríkisstarfsmanna 4.3% hærri 1. júlí 1972 en hjá Dagsbrúnarmanni, en Dagsbrúnarmaðurinn kemst hins vegar 1.6% fram yfir 1. marz 1973. Aftur ef miðað er við matráðskonur, þá eru þær hærra launaðar hjá ríkinu heldur en á vinnumarkaðinum eftir samningum Alþýðusambandsins í haust. Sama er að segja um bifreiðarstjóra á þungavinnuvélum. Þar er sá aðili heldur hærri eða sambærilegur, eftir að allar hækkanir eru komnar til. Verkstjórar og verkamenn eftir tvö ár eru 0.9% hærri hjá ríkinu en á almenna markaðinum samkv. samningunum í haust, þegar báðir hafa komizt í fulla hækkun samkv. áfangahækkunum, og iðnaðarmenn eftir þrjú ár eru 3.8% lægri hjá ríkinu heldur en þeir eru samkv. þeim samningum, sem gerðir voru í haust, þegar þeir hafa komið til skila.“

Þess vegna er það svo, að þegar litið er á þessa flokka í flestum tilfellum eru ríkisstarfsmennirnir yfirleitt hærra launaðir en er á vinnumarkaðinum. Þetta getur breytzt, þegar kemur á síðasta áfangastig á hinum frjálsa markaði, enda hefur það verið tekið fram af hálfu ríkisstj., að það, sem um er deilt nú, er, hvort ástæða er til þess að breyta þessu eins og það er.

Þá má geta þess, að í sambandi við ríkisstarfsmennina segir svo hér, með leyfi hæstv. forseta: „Tvímælalaust verður að telja hag ríkisstarfsmanna að hafa verðtryggðan lífeyrissjóð. Hitt er svo annað mál, að sá lífeyrissjóður er í reynd sjóður allra starfandi manna hjá ríkinu, svo framarlega sem þeir eru ráðnir með þriggja mánaða uppsagnarfresti, en óháð því kaupi, sem þeir taka.“

Þannig eru allir yfirmenn á skipum ríkisins í sjóði þessum og lyfjafræðingar lyfjaverzlana ríkisins. Án þess að rökstyðja það nánar er hér talið, að kaup ríkisstarfsmanna megi a. m. k. vera 6% lægra en almenni markaðurinn tilgreinir hverju sinni, vegna atvinnuöryggis og verðtryggingar á lífeyrissjóði. Og ég hygg, að það hafi komið fram í kjarasamningunum, sem gerðir voru í des. 1970, að meta bæri þetta til tekna.

Ég vil svo undirstrika það, sem hæstv. forsrh. tók hér fram áðan, að það er ekki vilji hæstv. ríkisstj. að ganga á rétt ríkisstarfsmanna. Síður en svo. En henni er það einnig ljóst, að ekki er hægt að verða við óskum allra. Slíkt er lítt framkvæmanlegt, og þarf ekki að segja hv. 7. þm. Reykv. þá sögu. Þess vegna verður að meta það, sem um er deilt hverju sinni, og ríkisstj. mun ekki á neinn hátt koma í veg fyrir, að ríkisstarfsmenn njóti réttar síns, en hún er líka reiðubúin að gera þær leiðréttingar strax., sem þarf til þess, að um sambærileg launakjör sé að ræða hjá þeim lægst launuðu, en hún er hins vegar ekki reiðubúin til þess að brjótast út úr því kerfi, sem lagður var grunnur að með samningum Alþýðusambandsins í haust.