31.01.1972
Neðri deild: 36. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 2385 í B-deild Alþingistíðinda. (2549)

Launa og kaupgjaldsmál

Ellert B. Schram:

Herra forseti. Það er aðeins ein stutt aths. Ég skildi ummæli forsrh. svo hér áðan, að það væri umdeilanlegt, hvernig beri að túlka það orðalag ákvæðisins, hvort átt hafi sér stað verulegar og almennar kaupbreytingar. Og það mætti, ef ágreiningur kæmi upp, vísa þeim ágreiningi til úrskurðar félagsdóms. Þetta var mér ljóst. En um leið segi ég, að það getur verið . . . (ÓlJ: Því verður ekki vísað til félagsdóms.) Ef ágreiningur kemur upp um skýringar á ákvæðum laganna, þá lít ég svo á, að vísa eigi þeim ágreiningi til úrskurðar félagsdóms. Og þessar umr. eru farnar að missa að einhverju leyti marks, þegar verið er að karpa um það hér, hvernig beri að túlka orðin „verulegar kaupbreytingar“, og það er svo, að hæstv. forsrh. er að halda því fram og byggir sinn málstað á því, að kaupbreytingar hafi ekki verið verulegar. En ég vildi þá bara koma þeirri aths. hér á framfæri, að það út af fyrir sig væri fróðlegt að fá úrskurð þessa dóms um, hvernig bæri að túlka þessi orð. Ef úrskurður dómstólsins eða dómsins er á þá leið, að kaupbreytingar hafi verið verulegar, þá lít ég svo á, að málstaður ríkisstj. í þessu ákveðna máli, sem hér er á dagskrá, hafi ekki við rök að styðjast. Ef hins vegar úrskurður dómsins er sá, að kaupbreytingar hafi ekki verið verulegar, þá getur það verið fróðlegt fyrir launþegasamtökin í þessu landi.