14.02.1972
Neðri deild: 41. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 2387 í B-deild Alþingistíðinda. (2552)

Launa og kaupgjaldsmál

Fjmrh. (Halldór E. Sigurðsson):

Herra forseti. Út af fsp. hv. 5. þm. Reykv. í sambandi við kjaradeilu þá, sem opinberir starfsmenn eiga í við ríkisvaldið, og beiðni þeirra um, að sett yrðu sérstök lög eða lögum yrði breytt til þess að framlengja frestinn, þá vil ég segja það, að þessi beiðni barst ekki ríkisstj. fyrr en kl. 10 árdegis þann sama dag sem þetta mál þurfti að ganga fram. Þá komu þeir frá BSRB á fund hæstv. forsrh. og fluttu þessa beiðni. Áður hafði ekki verið vikið að því, að slíkt gæti komið til, enda hafði ekki heldur komið fram í umr. eða samningaviðræðum neitt, sem benti til þess, að meiri líkur væru fyrir því, að samningar tækjust, en áður hafði verið. Eins og fram kemur í yfirlýsingu ríkisstj., hefði þetta verið gert, ef ekki hefði verið um lagasetningu að ræða.

Það er ljóst, að þegar lögum var breytt hér haustið 1970, voru málsatvik allt önnur en þau eru nú. Í fyrsta lagi stóðu þá yfir samningar og voru þá orðnar meiri líkur til þess, að þeir mundu takast, og þar af leiðandi var aðeins um að ræða, að fresturinn væri of stuttur, en eins og nú stóð á, var hins vegar ekki um það að ræða, að neitt hefði komið fram, sem benti til þess að saman gengi. Það var líka þá, þegar frv. var lagt fram hér á hv. Alþ., búið að undirbúa það, en sá tími, sem var til þess að gera það að þessu sinni, voru þeir 3–4 klukkutímar, sem voru frá því, að beiðnin kom fram, þangað til þingfundur átti að hefjast. Ég vil benda á, að í aths. við lagafrv. það, sem hv. 5. þm. Reykv. vitnaði til, segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Samningaviðræður standa yfir milli fjmrh. og Bandalags starfsmanna ríkis og bæja um laun starfsmanna ríkisins. Samkv. kjarasamningalögunum á málið að ganga til Kjaradóms 1. nóv. n. k., ef samningar hafa ekki tekizt. Þar sem samkomulag hefur þegar orðið um nokkur höfuðatriði í væntanlegum kjarasamningi, standa vonir til, að samningar takist, en tími mun ekki vinnast til að ljúka samningaviðræðum fyrir 1. nóv. n. k. Samningsaðilar eru því sammála um, að æskilegt sé að fá frestum breytt, þannig að málið gangi til Kjaradóms 1. jan. n. k., hafi samningar ekki tekizt, og Kjaradómur hafi þá kveðið upp úrskurð sinn fyrir 1. febr. 1971.“

Hér var því til að dreifa, að líkur voru fyrir því, að samningar mundu takast, en í þessu tilfelli hefði ekkert breytzt í þeim samningaviðræðum, sem fram hefðu farið. Hins vegar bauð ríkisstj., eins og fram er tekið í þessari tilkynningu, að leita sátta fyrir Kjaradómi, og þess eru fordæmi, svo að ef hægt er að semja um þetta mál, er eins hægt að semja um það á því stigi eins og fara að breyta lögum, sem ekki var óskað eftir fyrr en nokkrum klukkutímum áður en það hefði þurft að ná fram að ganga.