14.02.1972
Neðri deild: 41. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 2388 í B-deild Alþingistíðinda. (2553)

Launa og kaupgjaldsmál

Gunnar Thoroddsen:

Herra forseti. Í ræðu hæstv. fjmrh. kemur ekki fram nein fullnægjandi skýring á því, hvers vegna ríkisstj. hafði talið þetta óframkvæmanlegt. Hæstv. ráðh. kemur hér inn á allt aðrar ástæður, m. a. þær, að ekki hafi verið líkur til þess, að samningar mundu takast, og í öðru lagi, að vel sé hægt að leita samninga meðan málið er fyrir dómi. Það, sem ég ræddi um, var þetta: Hvers vegna telur ríkisstj., að þetta hafi verið óframkvæmanlegt? Það var kl. 10 árdegis, sem þessi málaleitun kom fram, og ef vilji hefði verið fyrir hendi hjá ríkisstj., þá væri hægt að semja slíkt frv. á nokkrum mínútum. Það er svo einfalt mál. Og það væri í lófa lagið að koma þessu máli samdægurs í gegnum þingið og lögfesta það. Þetta liggur fyrir og þess vegna vil ég slá því föstu, að það er ekki rétt, sem segir í yfirlýsingu ríkisstj., að þetta hafi verið óframkvæmanlegt. Ástæðurnar eru aðrar, og náttúrlega má lesa það í gegnum það sem hæstv. ráðh. sagði. Hjá ríkisstj. hefur ekki verið vilji til þess að framlengja þennan frest, og í rauninni hefur það margsinnis komið fram af hálfu ríkisstj., að hún óskaði ekki eftir samningum, heldur að Kjaradómur skæri úr í málinu. Ég vil að þetta liggi alveg ljóst fyrir, að tilgangslaust er fyrir hæstv. ríkisstj. að ætla sér að skjóta sér á bak við það, að synjað hafi verið, vegna þess að tími hafi ekki verið nægur. Það var vel framkvæmanlegt, eins og dæmin sanna.