14.02.1972
Neðri deild: 41. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 2389 í B-deild Alþingistíðinda. (2555)

Launa og kaupgjaldsmál

Forsrh. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Það má vera, að afreksmönnum og afkastamönnum eins og hv. 7. þm. Reykv. og hv. 5. þm. Reykv. hefði tekizt að verða við þessum tilmælum fyrirsvarsmanna BSRB, semja lagafrv., fá það samþ. í ríkisstj., fá til þess samþykki forseta og fá það síðan afgreitt á einum degi. Ég held, að það sé ekkert ofsagt, sem sagt hefur verið, að það hafi verið óframkvæmanlegt og sé óframkvæmanlegt. Og a. m. k. er það svo, að ef þeir voru þess sinnis, þá hefði verið eðlilegra, að þeir hefðu þegar í stað s. l. fimmtudag kl. 2 staðið hér upp á þingi og lýst yfir þessum vilja sínum, og þá hefði eftir þeirra kenningu kannske mátt athuga þetta. En það gerðu þeir ekki, heldur biðu til dagsins í dag. Ég held, að ef það hefði verið svo ákaflega mikill áhugi á því hjá fyrirsvarsmönnum opinberra starfsmanna að fá framlengdan þennan frest, þá hefði verið útlátalaust fyrir þá að setja þessa ósk fram við ríkisstj. fyrr. Málið hafði verið til meðferðar hjá sáttasemjara í mánaðartíma. Það hafði af hálfu fyrirsvarsmanna opinberra starfsmanna ekki verið óskað eftir tíðari fundum þar, svo að mér sé kunnugt um. Af ríkisstj. hálfu hafði verið sett fram till. þar og borin fram til sátta og vitaskuld hefði verið eðlilegt, að komið hefði fram eitthvert gagntilboð frá opinberum starfsmönnum þá. Og í öllu falli hefði verið eðlilegra, að þeir hefðu sett fram þessa ósk um frestun á því, að málið gengi til Kjaradóms, ég vil nú segja a. m. k. svona þremur dögum áður en honum lauk, og þá fyrst hefði hv. 5. þm. Reykv. getað farið að vitna í fordæmi í þessu sambandi, vegna þess að það, sem gerðist 1970, var þó það, sem hann réttilega sagði, að frv. var lagt fram 29. nóv., degi áður en samningarnir runnu út, og það er þó nokkuð annað. Og væntanlega hefur þá verið búið áður að setja fram óskina um það og semja frv.

Ég held, að hv. þm., þessir báðir tveir, hefðu alveg getað sparað sér þessar aths. Ef þeir höfðu áhuga á því, að samið hefði verið við opinbera starfsmenn og ef þeir höfðu áhuga á því, að gengið hefði verið að kröfum þeirra, þá hefðu þeir átt að hafa manndóm og ættu að hafa manndóm í sér til þess að koma hér fram og segja það berum orðum. Mér voru afhentar 5400–5500 undirskriftir. Ég hef ekki talið þær, en eitt sá ég strax af undirskriftum þeim, að í þeim hópi voru ekki aðeins ríkisstarfsmenn, heldur fjölmargir borgarstarfsmenn og starfsmenn sveitarfélaga. Við því er út af fyrir sig ekkert að segja. Þeir eru í BSRB. En þeir semja ekki við ríkið og þeir eiga ekki út af fyrir sig í neinum samningum við ríkið. Borgarstarfsmenn Reykjavíkur eru að semja við og eiga að vera að semja við og hafa átt að vera að semja við borgarstjórn Reykjavíkur. Og ef það væri svo mikill áhugi í þessum herbúðum, sem þeir vilja annað slagið vera láta, á því að samningar hefðu tekizt, þá hefði nú verið í lófa lagið fyrir borgarstjórn Reykjavíkur að brjóta ísinn og semja við opinbera starfsmenn og ganga að þeirra kröfum, ef þeir telja það fært fyrir Reykjavíkurborg. Ég verð að segja það, að þá hefði ég skilið frekar það, sem alltaf annað slagið er verið að láta liggja að hjá hv. stjórnarandstæðingum og í þeirra málgögnum, án þess þó að það sé nokkurn tíma dirfska til þess að segja það hreint og beint, hvað þeir meina. Það er þetta, sem ég vil átelja.

En að lokum vil ég endurtaka, að það er alveg gefið ákveðið svar við þessari aths., sem hv. 5. þm. Reykv. setti hér fram, og það stendur fast, að það var vitaskuld ógerlegt að koma lögum um þetta efni í gegnum þingið á sama degi og þessi beiðni var sett fram. Og það er rétt, að þessir uppáskriftarlistar voru mér fengnir kl. 10 og þeir afhentir í mínar hendur þá. En það hafði þó ekkert skilyrði verið, að ég veitti þeim viðtöku kl. 10, því að fyrirsvarsmenn opinberra starfsmanna höfðu aðeins óskað eftir viðtali þennan dag, og það var ég, sem tiltók þennan tíma að deginum, kl. 10. Ég býst við því, að ef ég hefði sagt kl. 4, þá hefðu þeir ekki gert neina aths. við það og væntanlega þá sett fram sína kröfu þá. Nei, það skorti alvöru á bak við þessa málaleitan, og þess vegna var hún fram sett á þessum tíma.