14.02.1972
Neðri deild: 41. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 2392 í B-deild Alþingistíðinda. (2557)

Launa og kaupgjaldsmál

Gunnar Thoroddsen:

Herra forseti. Ég hafði ekki ætlað mér að kveðja mér oftar hljóðs í þessu máli, en það er að gefnu tilefni. Hæstv. forsrh. dró nefnilega annað mál hér inn í þessar umr., hvers vegna borgarstjórn Reykjavíkur hefði ekki samið við starfsmenn sína. Út af því vil ég taka það fram, að alltaf hefur verið föst venja varðandi launakjör starfsmanna sveitarfélaga og þar á meðal Reykjavíkurborgar, að beðið hefur verið eftir því, að samningar tækjust á milli ríkisvaldsins og starfsmanna ríkisins. Þannig hefur þetta alla stund verið, og er fullt samkomulag um það milli borgaryfirvalda í Reykjavík og starfsmanna Reykjavíkurborgar, að sá háttur sé hafður á nú eins og áður og ekki eðlilegt, að sveitarfélögin séu þannig að ganga fram fyrir skjöldu.

Ég hafði ekki hugsað mér í þessum umr. að ræða efnislega um kröfur bandalags opinberra starfsmanna, og er alveg furðulegt innlegg frá hæstv. sjútvrh. í þessu máli. Hann krefst skýrra svara, og það er eðlilegt, að hann vilji hafa hreinar línur. Þær hafa verið svo hreinar af hans hendi í þessu máli! Maður minnist þess nú af hinum fræga fundi, þegar hann reis upp í fundarlok og afneitaði fjmrh., áður en fjmrh. hafði talað tvisvar. En það, sem hér er um að ræða, er náttúrlega í fyrsta lagi, að skilyrði eru fyrir hendi, sem lögin setja, kjarasamningalögin, til að krefjast endurskoðunar. En þar segir beinlínis, að ef verulegar og almennar kauphækkanir verða á samningstímabilinu, þá á BSRB rétt á því að krefjast endurskoðunar, og það er það, sem þeir hafa gert. Ríkisstj. svarar með því, að þessar kauphækkanir, sem nú hafa orðið á hinum almenna markaði, séu ekki verulegar. Nú er það að vísu þannig, að ég ætla, að forseti Alþýðusambands Íslands hafi nú lýst því yfir í útvarpi og sjónvarpi, eftir að samningar tókust við ASÍ-félögin, að þarna hefðu meðlimir Alþýðusambands Íslands fengið verulegar kjarabætur og kauphækkanir. En ríkisstj. er á öðru máli. Hún segir: Þetta eru ekki verulegar kauphækkanir. Þetta, sem verkalýðsfélögin fengu í des., hefur bara verið óvera.

Þegar var náttúrlega af þessari ástæðu fullkomin ástæða til þess fyrir ríkisstj. að taka upp viðræður við BSRB, en ekki aðeins bíða eftir því 2–3 vikur frá því að krafa þeirra kom fram um endurskoðun, svara þá þannig, að það sé engin ástæða til þess að taka neitt til greina. Vitanlega var t. d. ástæða til þess að ræða um það, hvort þetta eru verulegar kauphækkanir eða ekki. Í öðru lagi er ástæða til þess að ræða um þá staðhæfingu ríkisstj., að þessir kjarasamningar við opinbera starfsmenn, sem gerðir voru fyrir rösku ári, hafi kostað miklu meira og fært opinberum starfsmönnum miklu meiri kjarabætur en gert hafði verið ráð fyrir. Þannig voru bæði þessi tvö atriði og ýmis önnur, sem var fullkomin ástæða til þess að ræða. Og ég verð að segja, þó að ég skuli ekkert blanda mér í þær deilur, hvort hér hafi verið framið lagabrot eða ekki lagabrot, þá er hitt tvímælalaust, að það er algert brot á tilgangi og anda kjarasamningalaganna frá 1962, þegar ríkisstj. neitar að eiga viðræður við hina opinberu starfsmenn út af þeirra óskum um endurskoðun.

Ég skal ekki hafa fleiri orð um þetta önnur en þau, að nú birtist í ræðu hæstv. forsrh. ein ný röksemd fyrir því, hvers vegna stjórnin hefði neitað um þennan frest, sem farið var fram á núna á fimmtudaginn var. Hún er sú, að það hafi bara skort alvöru af hálfu forráðamanna BSRB í þessu efni. Nú er það þannig, að sá maðurinn, sem bar fram þessa kröfu við hæstv. forsrh., hefur setið á þingi öðru hverju sem þm. Framsfl. Hann er formaður BSRB, og mér finnst nú dálítið undarlegt að heyra það hér á Alþ., að þennan fyrrv. þm. eða varaþm. Framsfl. skorti algerlega alvöru í þessari baráttu sinni eða þessari kröfugerð. Þetta er að vísu mál, sem þeir geta rætt innan síns flokks og ég ætla ekki að fara að blanda mér inn í.

Ég held, að það standi alveg óhrakið eftir þessar umr., að ekki er rétt, sem segir í yfirlýsingu hæstv. ríkisstj., að óframkvæmanlegt hafi verið að fá lagabreytingu á einum degi, eins og BSRB fór fram á. Og í rauninni kom það nú óbeint fram hjá hæstv. forsrh. Hann sagði, að krafan hefði borizt sér kl. 10 um morguninn, og það hafi ekki verið nokkur leið tímans vegna að verða við þessu. Hins vegar ef við úr stjórnarandstöðunni hefðum hreyft þessu á þingi sama dag, þegar það kom saman kl. 2., þá hefði nú mátt athuga málið. Þá hefði kannske verið nægur tími til að semja frv. og fá það samþykkt eftir kl. 2, þó að ekki væri tími til þess frá kl. 10. Annars er það nú þannig, — ég hef hér frv. frá því 1970. Ein gr. er um það, að frestir, sem ákveðnir eru í 14. og 16. gr. kjarasamningalaganna, framlengist fram að þessum degi, málið fari ekki fyrir Kjaradóm fyrr en á þessum degi. Ég sagði áðan, að tekið hefði nokkrar mínútur að semja svona frv., og ég stend við það. Það hefði verið í lófa lagið. Hefði ríkisstj. viljað verða við þessari kröfu, þá væri í lófa lagið að hafa samið frv. og leggja það fyrir prentað kl. 2, þegar Alþ. kom saman. Sem sagt, það er alveg ljóst mál og líka eftir yfirlýsingar frá báðum stjórnarandstöðuflokkunum, að það væri í lófa lagið að verða við þessari ósk BSRB og lögfesta þessa breytingu á einum degi, og ástæðan til þess að það var ekki gert er viljaskortur ríkisstj.