14.02.1972
Neðri deild: 41. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 2394 í B-deild Alþingistíðinda. (2558)

Launa og kaupgjaldsmál

Gylfi Þ. Gíslason:

Herra forseti. Atriði þau, sem hér hafa verið rædd, liggja svo ljóst fyrir, að mér duga aðeins örfá orð. Það er öllum hv. þm. fullvel kunnugt, að gildandi lög gera ráð fyrir því, að launamál opinberra starfsmanna við sinn vinnuveitanda séu rædd í þrem stigum; í fyrsta lagi viðræðum, ef samkomulag er um það, í öðru lagi með sáttameðferð fyrir dómi og í þriðja lagi með úrskurði Kjaradóms. Á þessu getur ekki nokkur minnsti vafi leikið. Bæði hæstv. fjmrh. og hæstv. forsrh. hafa margsagt hér á Alþ.,ríkisstj. hafi ekki talið rétt að eiga viðræður lögum samkv. við BSRB, vegna þess að í því hefði falizt viss viðurkenning á réttmæti krafna þeirra. Þetta er ómótmælanlegt. Hins vegar vill hæstv. viðskrh. nú túlka ummæli sín frá Háskólabíósfundinum þannig, að hann sé þessu í sjálfu sér sammála, — ég gat ekki skilið hann öðruvísi, — að það hafi ekki verið rétt að taka upp formlegar viðræður við bandalag opinberra starfsmanna, en hins vegar hefði mátt taka upp einhvers konar viðræður annars eðlis við þá. Það hefði mátt tala við þá, þó að ekki væri um að ræða viðræður lögum samkv. En það eina, sem á dagskrá var, var að taka upp viðræður lögum samkv. Spurningin var ekki um einhvers konar samtöl yfir kaffibollum, heldur viðræður lögum samkv., eins og lög gerðu ráð fyrir. Og það var afstaða mín, þegar ég gerði málið að umtalsefni hér um daginn, að alveg burtséð frá, hver væri lagaskylda í þessum efnum, þá hafi það verið ósanngjarnt, nánast móðgandi við opinbera starfsmenn að neita um viðræður lögum samkv. Og þá komu enn skýringar af hálfu tveggja hæstv. ráðh. um það, að í því hefði falizt viss viðurkenning á kröfum opinberra starfsmanna. Í raun og veru hefur hæstv. viðskrh. enn aukið á ósamræmið í afstöðu sinni með því að lýsa hér yfir því, að hann hefði í sjálfu sér getað fallizt á þá afstöðu ríkisstj., neitun um viðræður lögum samkv., en hefði gjarnan viljað tala við þá t. d. yfir kaffibollum, sem engan veginn hefði verið nægilegt fyrir opinbera starfsmenn, enda ekki einu sinni boðið upp á það, að því er mér skilst. Það stendur því, sem er mjög algeng skoðun meðal þjóðarinnar, að hæstv. viðskrh. hafi ekki komið drengilega fram í garð starfsbróður síns, hæstv. fjmrh., á fundinum í Háskólabíói. Það er þeirra mál, og ég sé enga ástæðu til þess að fjölyrða um það hér.

Hæstv. viðskrh. spurði, hvort við í Alþfl. vildum fallast á kröfur opinberra starfsmanna. Við viljum, að samið verði við opinbera starfsmenn. Í þeirra eigin málflutningi hefur komið fram, að þeir séu til viðræðu um kröfur sínar. Í því felst auðvitað það, þegar tveir aðilar semja, að upphafssjónarmið hvorugs aðila er endanlegt sjónarmið í málinu, til þess arna fóru þeir fram á viðræður um sínar kröfur. Og okkar meginafstaða er sú, að þær viðræður hefði átt að taka upp og reyna til hins ýtrasta að ná samkomulagi.