14.02.1972
Neðri deild: 41. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 2396 í B-deild Alþingistíðinda. (2560)

Launa og kaupgjaldsmál

Forsrh. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Þessar umr. fara nú að verða dálítið einkennilegar að ýmsu leyti, en það er þó rétt að bæta nokkrum orðum hér við. Það er nú áreiðanlega gott og hollt fyrir hv. 9. landsk. þm. að gera meira af því að lesa Tímann og leggja sér það á minni, sem þar stendur, en það er misskilningur hjá honum, að nokkurs ósamræmis gæti í því, sem ég sagði þar, og því, sem hér hefur komið fram. Ég held, að ég geti tekið mér í munn orð hv. 7. þm. Reykv. og sagt, að þetta mál liggi ósköp ljóst fyrir, og ég skal reyna að skýra það með nokkrum orðum, sem ég gerði reyndar, þegar rætt var um þessi mál hér síðast.

Það er rétt, sem hv. 7. þm. Reykv. sagði, að það er gert ráð fyrir því sem venjulegu og eðlilegu, þegar um er að ræða kjarasamninga eftir uppsögn, að það geti verið um þrjú stig að tefla í málsmeðferðinni, í fyrsta lagi viðræður á milli samningsaðila, í öðru lagi sáttaumleitun fyrir sáttasemjara og í þriðja lagi meðferð hjá Kjaradómi. En hins vegar verður að greina á milli þess, hvort um er að ræða samninga, eftir að þeim hefur verið sagt upp eða þeir eru út runnir og kröfu um endurskoðun samkv. 7. gr. Það er rétt, að skilyrðin, sem sett eru fram í 7. gr. fyrir því, að setja megi fram kröfu um endurskoðun, eru þau, að verulegar og almennar kaupbreytingar hafi átt sér stað, því að vitaskuld getur það fræðilega verið á hinn veginn, og þá getur hvor aðili sem er sett fram þessa kröfu. En ég held, að það liggi alveg ljóst fyrir, og ég held, að það geti ekki nokkur maður farið að halda öðru fram en það sé hvor aðili fyrir sig, sem metur það á fyrsta stigi, hvort þessi skilyrði eru fyrir hendi. Öðrum aðilanum er ekki fengið neitt sjálfdæmi um það. Ekki er nóg að gera kröfu um það. Hinn aðilinn verður líka að meta það og svara því, hvort grundvöllur sé fyrir hendi til endurskoðunar. Og hans álit um það er alveg fullgilt, þangað til því hefur verið haggað af réttum aðila á sínum tíma, Kjaradómi. Hann hefur leyfi til þess, hvor aðili sem er, að hafa á þessu sína skoðun og leggja á þetta sitt mat, því mati verður ekki haggað af hinum aðilanum. Þetta mat hans stendur. Og þegar annar hvor aðilinn lítur svo á, þá er ekki grundvöllur fyrir hendi til samningsviðræðna á milli aðilanna, og þetta er skýrt og það reyndi ég að benda á, þegar þetta var rætt hér síðast, einmitt að lagagreinin sjálf, 7. gr., vísar aðeins til III. og IV. kafla laganna, kaflanna, sem fjalla um sáttameðferð fyrir sáttasemjara og málsmeðferð fyrir Kjaradómi, en vísar ekki til 10. gr., sem er í II. kafla laganna og fjallar um samningsviðræður á milli aðilanna. Vegna þess að hamrað hefur verið á því, að ríkisstj. hafi framið lagabrot í þessu sambandi, þá taldi ég rétt að víkja að þessu síðast og gera grein fyrir þessu. Og ég held, að nauðsynlegt hafi verið að endurtaka þetta hér nú, vegna þess að menn eru alltaf óbeint að klifa á þessu, þannig að sú málsmeðferð, sem hv. 5. þm. Reykv. minntist á, þessi þrjú stig í málsmeðferðinni, áttu ekki við í þessu tilfelli. Og þegar um þetta er að ræða, þá verða menn að gera sér grein fyrir því, hvaða kröfur voru gerðar við þessa endurskoðun. En það er eins og hér hefur komið fram, þær kröfur voru um algerlega sams konar kaupbreytingar, kauphækkanir, eins og samið hafði verið um í samningunum frá því í des. s. l. Þess vegna var það, að ef átt hefði — eftir að búið var að segja, að grundvöllur væri ekki fyrir hendi til endurskoðunar samkv. 7. gr., þá að setjast að samningaborði með gagnaðila, þá hefði í því falizt óbein viðurkenning á því, að það væri ástæða til þess einmitt að ræða um þessi atriði. Og það hefði að mínum dómi verið rangt og villandi, eins og á stóð. Það voru þessar kröfur, sem lágu fyrir í öndverðu, að opinberir starfsmenn fengju allar þær sömu kauphækkanir og samið hafði verið um í desembersamningunum. Þessar kröfur voru settar fram við ríkisstj. 10. des. s. l., þegar ekki var búið að ganga frá í raun og veru til fullnaðar neinum samningum þeim, sem samið hafði verið um 4. des. Og því miður er jafnvel enn eftir að ganga frá nokkrum samningum að fullu og öllu. En þetta voru þær kröfur sem settar voru fram. Og þegar á að meta það, hvort grundvöllur sé fyrir hendi samkv. 7. gr. kjarasamningalaganna, þá lít ég svo á, að meta verði allar aðstæður. Og mat ríkisstj. í þessum efnum byggist á því, að í 1. áfanga var aðeins samið um 4% almenna kauphækkun. Það var því sú kauphækkun ein, sem átti að koma til álita nú og í þessu sambandi, og annað atriði, sem hlaut að verða litið á í þessu sambandi, var það, að um áramótin átti að koma til framkvæmda og kom til framkvæmda áfangahækkun til opinberra starfsmanna. Það var með þessar aðstæður í huga, sem svar ríkisstj. var á þá lund, sem lýst hefur verið, að grundvöllur væri ekki til heildarendurskoðunar samkv. 7. gr. laga um kjarasamninga. En jafnframt var tekið fram, hefur alltaf verið tekið fram, bæði fyrr og síðar, að ríkisstj. væri reiðubúin til þess að ræða um lagfæringar á launum, hún væri reiðubúin að lagfæra hin lægstu laun og gera lagfæringar á launum þeirra manna, sem sambærilegir væru við þá, sem samið hefði verið um 4. des. Og þetta hefur í raun og veru alltaf legið fyrir og var endurtekið og nánar útfært einmitt fyrir sáttasemjara. Og fyrir sáttasemjara var fullkomið tækifæri til þess að ræða þessi mál á þann hátt, sem hv. 7. þm. Reykv. sagði, að menn gætu þá fært sig eitthvað til frá sínum kröfum og tilboðum. Og það hefði vitaskuld verið æskilegt. Ríkisstj. lagði beinlínis fram tilboð fyrir sáttasemjara og það var lagt fram þar í tæka tíð, þannig að alveg hefði verið tækifæri og tími til þess að taka þau mál til nánari athugunar. Það stendur svo alveg skýrt eftir þessar umr., að ekkert dæmi er sambærilegt við það, sem hér er um að ræða. Það þýðir ekkert fyrir hv. 5. þm. Reykv. að vitna til þess, sem gerðist 1970, vegna þess að það er ólíkt. Það var meira svigrúm þá en nú. Ég verð að hafa þá skoðun, að þegar þeir starfshættir eru viðhafðir, sem hér voru, að það er fyrst komið á síðasta degi og sett fram þessi krafa um framlengingu, þá búi ekki mikil alvara á bak við það. Og opinberir starfsmenn voru ekki dregnir á svari um það. Ég svaraði þeim þegar, að ég mundi leggja þetta fyrir ríkisstj., en ég teldi ekki tæknilega möguleika á því að koma lagafrv. um þetta efni fram á þessum síðasta degi. Þá hefði vitaskuld, ef alvaran samt sem áður hefði verið afskaplega rík hjá þeim, verið hægt fyrir þá að ganga á fund hv. 5. þm. Reykv. og hv. 7. þm. Reykv. og leita eftir stuðningi þeirra við þessa málsmeðferð, og þá hefðu þessir tveir ágætu þm., ef þeir þá hefðu verið sama sinnis og þeir eru nú, getað staðið hér upp á fimmtudag og lýst því yfir, að hægt væri að koma þessu í gegn. En ekki var nú þessi háttur á hafður.

Hv. 5. þm. Reykv. sagði, að ekki þýddi að vera að tala um borgarstarfsmenn í þessu efni. Það vissu allir, að föst venja væri, að þeir hefðu bara komið á eftir og fylgt í kjölfarið á samningum ríkisstarfsmanna. Engin lög þekki ég nú fyrir því, að þetta þurfi að vera svona. Þeim er alveg fullheimilt að fara á undan og brjóta ísinn, ef vilji er til. En sá kostur hefur hér ekki verið upp tekinn, og það þýðir í því sambandi ekkert að vera að vitna til þess, hver venja hafi verið í þessu efni. Hún er á engan hátt bindandi. Það liggur alveg ljóst fyrir, að ef vilji er hjá meiri hluta borgarstjórnar Reykjavíkur til þess að verða við kröfum opinberra starfsmanna, kröfum þeirra starfsmanna, sem eru í þjónustu Reykjavíkurborgar, eða að semja við þá um annað, þá hefur það verið hægt, þá hefur borgarstjórnin getað gert þetta. Hún hefur ekki gert það.

Það fór svo eins og vænta mátti, að þegar skýrar spurningar voru lagðar fyrir þessa hv. þm. um það, hver væri afstaða þeirra, þá fékkst ekki svar, — ekki einu sinni um það, hver væri afstaða þeirra flokka, því að ég ætlast nú ekki til þess, að þeir geti svarað því, heldur hver væri afstaða þeirra persónulega til þessa máls, þá gátu þeir ekki svarað því, hvort þeir vildu, hvort þeir teldu réttmætt miðað við aðstæður að ganga að öllum kröfum opinberra starfsmanna eða ekki. Þeir gátu ekki svarað því. Og enn skal sú spurning endurtekin: Vilja þeir, að gengið sé að kröfum opinberra starfsmanna, eins og þær voru settar fram í öndverðu og eins og þær hafa verið settar fram? Bara semja, segir hv. 5. þm. Reykv., og ef það er ekki þetta, sem hann vill semja um, þá bæti ég við spurningu: Um hvað vill hann semja? Hvar vill hann t. d., ef hann telur, að þeir, sem hæstu launin hafa, eigi ekki að fá bæturnar, hvar vill hann þá draga markalínurnar? Hvers vegna er ekki hægt að segja þetta hreint og beint, í stað þess að vera að reyna að blása að ófriðarglæðum í sambandi við þetta mál? En það sýnist mér alveg augljóslega vera þeirra iðja. Það kalla ég slæma iðju, því að vitanlega er þetta mjög mikið alvörumál, að slíkur ágreiningur skuli vera á milli BSRB og viðsemjenda þess, eins og raun ber vitni um. Og það ættu allir góðviljaðir menn að reyna að vinna að því að fá lausn á þeim vanda. En það er áreiðanlegt, að ekkert er stuðlað að þeirri lausn með því að hafa þann hátt á, sem þessir hv. þm. hafa haft og með þeim málflutningi, sem um þetta hefur tíðkazt í þeirra málgögnum.