14.02.1972
Neðri deild: 41. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 2404 í B-deild Alþingistíðinda. (2565)

Launa og kaupgjaldsmál

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Ég ætlaði nú ekki að taka þátt í þeim umr., sem hér hafa farið fram, en tilefni þess, að ég kom hér upp, voru ummæli 9. landsk. þm., þegar hann sagði, að hann væri víst eini þm. hér, sem mætt hefði á fundinum í Háskólabíói hjá opinberum starfsmönnum. Ég get nú fyrirgefið þessum hv. þm., þó að hann hafi ekki tekið eftir mér, enda fer lítið fyrir mér, en ég varð nú var við fleiri þm. þarna, ég sá a. m. k. hv. þm. Lárus Jónsson, sem þarna var, og ég vildi aðeins, að það kæmi fram, að ummæli 9. landsk. þm. voru ekki rétt. Þarna voru fleiri þm. mættir.

En af því að ég er kominn hér upp í ræðustól, vil ég aðeins bæta örfáum orðum við. Það er staðreynd í þessu máli, sem hér er um rætt, að ríkisstj. hefur boðið BSRB hliðstæðar leiðréttingar á kjörum þeirra lægst launuðu innan vébanda BSRB og Alþýðusamband Íslands fékk fyrir þá lægst launuðu í sínum samningum í des. s. l. Þetta er staðreynd. Hitt er líka staðreynd, að forusta BSRB hefur neitað þessu sem ófullnægjandi lausn á málinu og krefst þess, að hækkanir gangi í gegnum allt launakerfi BSRB og allt upp í topp. Ég heyri ekki betur en afstaða þeirra hv. stjórnarandstæðinga, sem hér hafa talað í þessu máli og áður, sé slík hin sama og BSRB, að þær hækkanir, sem um hefur verið samið hjá Alþýðusambandinu, eigi að ganga upp í gegnum allt launakerfi BSRB. Og ég hef ekkert út af fyrir sig við þessa skoðun að athuga, ef menn hafa hana á annað borð. En þá er lágmark, að hún sé viðurkennd af þessum sömu aðilum sem þeirra skoðun. Ég hef ekki getað heyrt betur en þetta væri skoðun þeirra hv. stjórnarandstæðinga, sem hér hafa talað um þessi mál, og það er í sjálfu sér í lagi. En þá eiga þeir að vera menn til þess að viðurkenna það.

Ég vil svo að síðustu beina því til þingheims, að hann hugleiði, hvaða aðilar sátu í ráðherrastólum árið 1964, þegar BSRB var neitað um þá 15% kauphækkun, sem þá átti að eiga sér stað. Það skyldi ekki vera, að einhverjir þeir sömu, sem hér hafa talað í dag af hálfu stjórnarandstæðinga, hafi þá verið í ráðherrastólum og neitað? Það skyldi ekki vera?