14.02.1972
Neðri deild: 41. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 2405 í B-deild Alþingistíðinda. (2568)

Launa og kaupgjaldsmál

Forsrh. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Út af þeim ummælum, sem hv. þm. Lárus Jónsson lét falla, vil ég taka það fram, að í þeim ummælum, sem hann las eftir mér, stóð skýrum stöfum, að ég talaði um, að grundvöllur endurskoðunar væri ekki fyrir hendi. Hv. þm. las þessi orð. Og það var það, sem ég var auðvitað um að tala, — grundvöllur væri ekki til endurskoðunar og því ekki ástæða til þess að vera að tala um það efni. (LárJ: Og vera að halda ríkisstarfsmönnunum uppi á snakki.) Já, líka má orða það þannig, um það, að grundvöllur væri ekki til endurskoðunar, sem ríkisstj. var búin að láta uppi álit sitt um. Það er nú dálítið einkennilegt, hvað menn geta látið eftir löngun sinni til þess að snúa út úr, þegar farið er í svona sparðatíning.

Hv. þm. Lárus Jónsson upplýsti, að fram hefðu farið viðræður á milli starfsmanna Reykjavíkurborgar og Reykjavíkurborgar, og hann upplýsti, að þær viðræður hefðu ekki borið árangur, þær hefðu bara ekki borið árangur. Þeir hefðu báðir orðið sammála um það að lokum að vísa deilunni til Kjaradóms. Það er gott að vita þetta. Það liggur þá ljóst fyrir, að Reykjavíkurborg hefur ekki viljað ganga að þeim kröfum eða verða við þeim óskum, sem starfsmenn borgarinnar settu fram. (LárJ: Að tilmælum hæstv. ríkisstj.) Já, ég efa nú ekkert, að tillitssemin á þeim bæ er mikil í garð hæstv. ríkisstj. Ég hef orðið var við hana á ýmsum stigum. Það þýðir ekki fyrir hv. þm. að bera svona öfugmæli á borð hér á hv. Alþ.

Ég skal enn undirstrika, að það fordæmi, sem hv. 5. þm. Reykv. vildi bera hér fram, 1970, stenzt engan veginn af þeim ástæðum, sem ég þegar hef minnzt á, en skal þó enn bæta því við, að árið 1970 var ekki um að ræða það tilvik, sem hér er um að tefla, endurskoðun, spurningu um endurskoðun. Nei, það var um nýja kjarasamninga að ræða. Og ég get líka bætt því við, að þá var annar háttur hafður á. Þá kom t. d. formaður BSRB til mín sem formanns stjórnarandstöðuflokks, áður en þetta frv. væri lagt fram, og leitaði eftir því, hvort ég mundi gera aths. við það, að þessi háttur væri á hafður. Það hefði mátt hafa eitthvað þvílík vinnubrögð nú, ef mönnum hefði verið alvara. Og svo voru menn að segja áðan, að ekki þýddi að vitna til 1964! Þá varð nú 15% kauphækkun, og ég held, að það blandist engum hugur um, að 15% kauphækkun er veruleg, og þess vegna hefðu skilyrði átt að vera fyrir hendi til endurskoðunar samkv. 7. gr. Ég skal ekki fullyrða um það, hvað ríkisstj. hefur rætt mikið við opinbera starfsmenn þá. Mig minnir nú, að hún hafi verið heldur treg til viðræðna. En hvað sem um það er, þá vildi hún ekki fallast á þær kröfur, sem opinberir starfsmenn settu þá fram, alveg eins og nú. Og hver varð niðurstaðan? Málið fór til Kjaradóms alveg eins og nú. Og niðurstaða hans varð sú, að hann tók ekki til greina kröfur opinberra starfsmanna, ekki af því að skilyrði væru ekki fyrir hendi til endurskoðunar, ekki vegna þess að verulegar kauphækkanir hefðu ekki átt sér stað. Nei, heldur af hinu, að það þurfa samkv. annarri gr. í þessum lögum að vera ákveðin skilyrði fyrir hendi til þess að það megi taka til greina og gera leiðréttingar. Það verður nefnilega að líta á afkomuhorfur þjóðarbúsins og það, hver laun sambærilegar starfsstéttir hafa. Þess vegna er það, að þó að Kjaradómur geti jafnvel komizt að þeirri niðurstöðu, að skilyrði séu til endurskoðunar samkv. 7. gr., þá er alls ekki þar með sagt, að hann fallist á þær kröfur, sem settar eru fram. Og það er dálítið einkennilegt, að þeir, sem viðhöfðu þessar starfsaðferðir 1964, þegar 15% almenn kauphækkun átti sér stað, skuli hneykslast á því, að ekki skuli nú í einu og öllu hafa verið orðið við kröfum opinberra starfsmanna, þegar það liggur þó fyrir, að kauphækkun sú almenna, sem við er miðað, hefur ekki enn náð nema 4% og svo sérstökum hækkunum til handa hinum lægst launuðu, sem alltaf hafa verið boðnar fram. Og þegar svo þar við bætist, að enn eru að koma til framkvæmda áfangahækkanir hjá opinberum starfsmönnum. Já, ég segi það, að ekki er furða, þó að þeir hneykslist á slíku, þeir, sem stóðu að vinnubrögðunum 1964.