08.05.1972
Neðri deild: 72. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 2410 í B-deild Alþingistíðinda. (2571)

Launa og kaupgjaldsmál

Bjarni Guðnason:

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. fjmrh. fyrir greinargóð svör. Þar kom fram það helzta, sem ég hafði óskað eftir. Þannig er mál með vexti, að mér hefur löngum þótt furðulegt, hvernig unnt sé að halda með öllu leyndri samningagerð milli ákveðinna starfshópa og stjórnvalda, þannig að almenningi sé með öllu ókunnugt um, hvað er í raun og veru að gerast. Við þekkjum það í baráttu verkalýðshreyfingarinnar, að hún þarf að leggja fram ákveðnar kröfur, og eins er það með opinbera starfsmenn, og ég tel ákaflega, eins og ég segi, óviturlegt að halda samningagerð af þessu tagi á því stigi, að allur almenningur hefur ekki hugmynd um neitt, sem er að gerast.

Nú hefur hæstv. fjmrh. svipt hulunni af þessum málum, og ég tel það vel farið. Það er engum til góðs að fara með þetta eins og huldumál. Ef læknarnir telja í raun og veru, að kröfur þeirra séu sanngjarnar, þá eiga þeir óhikað að leggja þær fram fyrir hvern einstakling í þjóðfélaginu til að meta og vega, eftir því sem þeir hafa getu til og einnig hygg ég, að það sé varasamt af stjórnvöldum að ala á leynisamningsgerð við einstakar starfsstéttir. Og ég vil í þessu sambandi benda sérstaklega á, sem hv. þingheimi er auðvitað kunnugt, að læknastéttin hefur legið undir nokkrum ákúrum frá almenningi vegna hárra tekna. En ég verð að segja eins og er, að einmitt samningsgerð af þessu tagi, þar sem allt fer mjög leynt, elur að sjálfsögðu á slíkum hugsunum meðal almennings.

Ég skal ekki leggja neina dóm á kröfur lækna, til þess hef ég ekki þekkingu, en ég vil taka eindregið undir síðustu orð hæstv. fjmrh., þar sem hann mælir m. a. þau viturlegu orð til læknastéttarinnar, að hún verður að sjálfsögðu að taka tillit til þess, að hún býr í þessu landi og verður að taka laun miðað við íslenzkar launastéttir.