25.10.1971
Neðri deild: 5. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 2412 í B-deild Alþingistíðinda. (2574)

Herstöðva- og varnarmál

Utanrrh. (Einar Ágústsson):

Herra forseti. Hv. 1. þm. Reykv, hefur beint til mín tveimur fsp., sem ég skal leyfa mér að svara í stuttu máli.

Fyrri spurningin var sú, hvort í skipun þeirrar samstarfsnefndar, sem hann ræddi um, felist breyting á verkaskiptingu ráðherra frá því, sem áður hafði verið tilkynnt. Svarið við þessari spurningu er nei. Það er ekki fyrirhuguð nein breyting á starfssviði ráðherra. Utanríkismál og þar með talin varnarmál heyra samkv. stjórnarsamningnum og skiptingu verkefna þar undir utanrrh., og svo verður áfram.

Önnur spurningin var, ef ég hef numið rétt. sú, hvers vegna þessi samstarfsnefnd hefði verið skipuð. Svarið við því er það, að með vaxandi umsvifum í stjórnarráði og því, að þrír flokkar hafa nú samstöðu um forstöðu ríkisstj„ þá hefur í vaxandi mæli verið tekin upp sú vinnutilhögun, að svona samstarfsnefndir fjölluðu um einstaka málaflokka. Hvort fyrrv. ríkisstj. hefur haft það fyrirkomulag á sínum verkum eða ekki, skal ég ósagt látið, en erlendis þekkist þetta mjög víða, að ráðherranefndir, undirnefndir eða hvað á að kalla það, samstarfshópar, séu kvaddir til þess að skoða tiltekna málaflokka, og sú er eina ástæðan fyrir þessum samstarfshóp, sem þarna hefur verið settur á laggirnar.