11.12.1971
Sameinað þing: 22. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 2415 í B-deild Alþingistíðinda. (2580)

Herstöðva- og varnarmál

Forsrh. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Ég verð nú að segja, að mér finnst þessar umr. dálítið á eftir tímanum. Ég hélt satt að segja, að það væri nú svo komið með þessa bombu alveg eins og Kínamálið á sínum tíma, að hún væri úr sögunni. En það er sjálfsagt að rifja þetta upp einu sinni enn. Og það gladdi mig að sjá hv. 3. þm. Sunnl. hafa í hendi sér málefnasamninginn: Ég vona, að hann lesi hann kvölds og morgna sér til sálubótar. (Gripið fram í: Hann skilur hann ekki.) Skilningurinn kemur með tímanum, ef hv. þm. leggur sig nóg fram. Það er sagt í þessum málefnasamningi, alveg eins og hann réttilega las upp, hann er búinn að læra þá grein, að það sé ágreiningur á milli stjórnarflokkanna um afstöðuna til NATO. Ég hélt nú satt að segja, að það vissu allir hv. þm., í hverju þessi ágreiningur er fólginn, og það hefur ekki verið farið leynt með hann að sjálfsögðu hér á Alþ. Framsfl. hefur verið og er fylgjandi aðild Íslands að NATO. Það er hins vegar og hefur verið yfirlýst stefna Alþb., að það vildi, að Ísland gengi úr NATO. En það er um að gera að lesa og læra málefnasamninginn í samhengi. Á eftir þessu segir, að það sé sammæli stjórnarflokkanna, að Ísland skuli áfram vera í NATO að óbreyttum aðstæðum. Og í samræmi við þá yfirlýsingu hefur því margoft verið yfirlýst, að á meðan Ísland er í NATO, muni það standa við allar skuldbindingar, sem á því hvíla samkvæmt réttum skýringum á Atlantshafssamningnum. Og það, sem utanrrh. sagði á þessum NATO-fundi varðandi varnarliðið, er, eins og ég áðan sagði, nákvæmlega sama efnis og þær yfirlýsingar, sem margoft hafa verið gefnar hér af honum og mér og öðrum ráðherrum.