11.12.1971
Sameinað þing: 22. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 2417 í B-deild Alþingistíðinda. (2582)

Herstöðva- og varnarmál

Gylfi Þ. Gíslason:

Herra forseti. Ég þakka hæstv. forsrh. svör hans við fsp. minni. Þau voru skýr og ljós, svo langt sem þau náðu. Ég ætla engan þátt að taka í neins konar æsingaumræðum um varnarmálin, hvorki hér á Alþ. né neins staðar annars staðar, og ég vísa því á bug, sem hv. 3. landsk. þm. sagði um það efni, að ég ætti aðild að því að magna ótta og hræðslu í sambandi við varnarmálin. Ég segi það eitt í tilefni af ræðu og frammíköllum hans, að ég harma það, að nýr þm., sem ég hef mætur á, skuli ekki sinna háttbundinni þingframkomu betur en átt hefur sér stað og vona, að á því verði breyting. Hann kvaðst krefjast þess af Alþfl., að hann vinni málefnalega að varnarmálum sem öðrum málum, og tel ég Alþfl. hafa gert það. Ég veit ekki, hvað er að vinna málefnalega að málum, líka á sviði varnarmálanna, ef það er ekki að vilja fá að vita um vinnubrögð ríkisstj. á erlendum vettvangi í jafnmikilvægu máli og varnarmálin eru og hvort ákveðin yfirlýsing, sem hæstv. utanrrh. gefur, er gefin af honum einum, án samráðs við aðra ráðh., eða hvort hún er gefin í samráði við aðra ráðh., hvort hún túlkar skoðun hans eins eða skoðun ríkisstj. allrar. Um þetta og þetta eitt spurði ég, og þetta eru algerlega málefnalegar spurningar. Spurningin var um tvennt, og við því fékkst skýrt svar hjá hæstv. forsrh., við fyrri spurningunni a. m. k. Hún var sú, hver vinnubrögðin væru í sambandi við stefnuyfirlýsingar utanrrh. erlendis á sviði utanríkismála. Hæstv. ráðh. sagði, og ég þakka honum það svar, að það væri ekki venja og þá væntanlega mundi heldur ekki verða venja að bera texta yfirlýsinga — nú eru það mín orð, jafnvel þótt mjög mikilvæg séu, — undir ríkisstj. alla. Þá vitum við, að framvegis hefur utanrrh. sjálfur samið þær yfirlýsingar, sem hann gefur um varnarmál og utanríkismál erlendis, án þess að textinn hafi verið borinn undir ríkisstj. alla.

Hitt atriði fsp. minnar laut að því, hvort skoða mætti þessa stefnuyfirlýsingu að jafnaði fyrir hönd ráðh. allra, ef svo væri, sem ég raunar bjóst við, að þeir hefðu ekki séð textann áður, og svaraði hæstv. forsrh. því játandi. Það er þetta svar, sem gefur mér tilefni — þetta seinna svar hans, sem gefur mér tilefni til örfárra viðbótarathugasemda. Forsrh. hæstv. sagði í seinni ræðu sinni, að þetta mál væri á eftir tímanum. Hér tel ég, að hann fari algerlega villur vegar. Þvert á móti hefur á fundinum í Brüssel gerzt hlutur, a. m. k. í augum erlendra fréttamanna, sem ekki hefur gerzt áður, og þess vegna voru fréttirnar í gærkvöld mikið nýmæli hér á Íslandi, eins og raunar allar fréttaskeytasendingar af fundinum bera ótvírætt vott um. Öllum Íslendingum er kunnugt um það, að ágreiningur hefur komið upp um það milli einstakra ráðh., hvernig túlka beri stjórnarsáttmálann. Ágreiningurinn er fólginn í því, — ég þarf ekki að hafa um þetta nema örfáar setningar — að hæstv. utanrrh. hefur sagt oftar en einu sinni, að ákvörðun um uppsögn varnarsáttmálans verði þá fyrst tekin, þegar endurskoðun hans eftir samninga við Bandaríkjamenn sé lokið. Þetta hefur utanrrh. sagt skýrum stöfum, þetta hefur verið prentað eftir honum og hann staðfest þessa skoðun, eins og hún hefur verið túlkuð á prenti, svo að hér fer ekkert á milli mála. Hins vegar hefur hæstv. viðskrh. lýst því yfir, að ákvörðun hafi þegar verið tekin um það, að varnarsáttmálanum skuli sagt upp og herinn fluttur burtu á kjörtímabilinu. Hver meðalgreindur maður, svo að ég vitni í landsfleyg orð, hlýtur að geta séð, að hér er um tvær skoðanir að ræða. Hér er um tvenns konar túlkun á ákvæðum stjórnarsáttmálans að ræða. M. ö. o., hver meðalgreindur maður getur séð, að það er uppi ágreiningur innan ríkisstj. um það, hvernig túlka skuli stjórnarsáttmálann. Það kemur mér ekkert á óvart og eflaust fæstum Íslendingum, sem fylgzt hafa vandlega með stjórnmálum undanfarið, að þessi ágreiningur skuli vera uppi. Ég skal enga tilraun gera til þess að hræra upp í því máli, enda gefast eflaust nóg tækifæri til þess að viðhafa almennar umr. um utanríkismál. Það er ekki mín meining að efna til þeirra hér. En það, sem nú hefur gerzt samkv. fréttum í útvarpi og sjónvarpi í gærkvöld, er, að þessi ágreiningur er kominn út fyrir landsteinana. Það er það, sem hefur gerzt. Í fyrsta skipti í fréttum erlendis frá í gærkvöld er frá því greint, að erlendir fréttamenn hver um annan þveran samkv. mörgum fréttaskeytum hafa skilið ræðu utanrrh. svo með réttu eða röngu, — ég hef ekki séð texta ræðu ráðh. og veit ekki, hvað tilefni er til þess skilnings, sem fréttamennirnir hafa lagt í hann, ég veit, að þeir leggja oft annan skilning í ræður en textinn gefur beinlínis tilefni til — en staðreynd samkv. fréttum hljóðvarps og sjónvarps er sú, að allir fréttamenn, sem á ræðu ráðh. hafa hlustað, hafa skilið ræðuna þannig, að um einhvers konar stefnubreytingu sé að ræða hjá íslenzku ríkisstj. nú frá því að hún tók við völdum. Þetta kemur greinilega fram, svo að ég endurlesi, með leyfi hæstv. forseta, eina setningu úr fréttaskeytunum, sem birt voru bæði í hljóðvarpi og sjónvarpi. Þar er sagt, að þótt íslenzka ríkisstj. hafi sagt, er hún kom til valda fyrir hálfu ári, að herinn yrði að fara úr landi, hefði utanrrh. hennar nú sagt, að Íslendingar mundu standa við allar skuldbindingar sínar gagnvart bandalaginu og endurskoðunar varnarsamningsins um dvöl varnarliðsins hefði ekki verið óskað enn þá. Málið væri í athugun hjá ríkisstj. Hver meðalgreindur maður, svo að ég noti landsfleyg orð einu sinni enn, hlýtur að geta séð, að að baki þessarar skeytasendingar liggur sú skoðun á málflutningi hæstv. utanrrh., að stefnubreyting hafi orðið eða sé að verða hjá íslenzku ríkisstj. nú frá því að hún var mynduð. Það er væntanlega enginn ágreiningur á milli hv. þm. eða nokkurra skynsamra manna um það, að öðruvísi er ekki hægt að skilja skeytin en þannig, að fréttamennirnir líta þannig á, — ég segi enn með réttu eða röngu. Og það er þetta, sem gerir það að verkum, að það er svo fjarri því, að það sé ótímabært, að þetta mál sé gert að umtalsefni hér á hinu háa Alþingi. Ég hef fylgzt vandlega með fréttum af málflutningi hæstv. utanrrh. og annarra ráðh. á erlendum vettvangi á undanförnum vikum eða mánuðum og ég fullyrði, að þetta er í fyrsta skipti, sem gefið er í skyn almennt í fréttaskeytum af ræðum utanrrh., að stefnubreyting sé orðin eða sé að verða hjá íslenzku ríkisstj. í varnarmálunum. Þetta var ástæðan til þess, að ég taldi ástæðu til þess að gera málið að umtalsefni hér, fyrst og fremst að fá upplýst: Hvernig eru vinnubrögðin í sambandi við slíkar yfirlýsingar, og má taka þessa yfirlýsingu sem yfirlýsingu af hálfu allrar ríkisstj.?

Ég endurtek þakkir til hæstv. forsrh. fyrir að hafa svarað fsp. um vinnubrögðin alveg skýrt, þannig að nú vitum við alveg framvegis, að utanrrh. semur sínar yfirlýsingar sjálfur og ber texta þeirra ekki undir ríkisstj. í heild. Ég hef ekkert við þetta að athuga, þetta er staðreynd, sem ágætt er að fá að vita og ég er þakklátur fyrir að hafa fengið upplýsta, og máli mínu vil ég ljúka með því að segja, að ég gleðst yfir því, ef það reynist rétt, ég gleðst sannarlega yfir því, ef það reynist rétt, að sú stefna, sem mörkuð var í ræðu hæstv. utanrrh. í Brüssel er raunveruleg stefna allra sjö ráðherranna.