13.12.1971
Sameinað þing: 23. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 2426 í B-deild Alþingistíðinda. (2591)

Herstöðva- og varnarmál

Jóhann Hafstein:

Herra forseti. Ég skal verða við þeim tilmælum að takmarka mig við það, sem hér hefur orðið til umr. utan dagskrár, þ. e. fréttaflutning hljóðvarps og sjónvarps. En það er ekki að ófyrirsynju, þótt það beri á góma hér í sölum Alþ., hefur gert það oft áður, eins og kunnugt er, en það er kannske ekki minni ástæða til þess nú en oft endranær, að fréttaflutningur útvarpsins sé gerður að umtalsefni hér í Alþ.

Vegna ræðu hv. 8. landsk. þm. (BGr), sem jafnframt er formaður útvarpsráðs, vil ég aðeins fá að segja nokkur orð. Hann segir, — formaður útvarpsráðs og þessi hv. þm. — að útvarpið hafi eiginlega ekki náð tökum á því enn þá að flytja málefni eða fréttir frá stjórnarandstöðu, m. a. vegna þess, að það sem stjórnarandstöðuforustumennirnir segja, sé yfirleitt sagt á lokuðum fundum, og það kann að vera nokkuð til í þessu.

En ég vil af því tilefni gera grein fyrir því, að þegar Sjálfstfl. hélt sinn flokksráðsfund hér í haust, þá efndi formaður flokksins til blaðamannafundar, og það komu blaðamenn frá stjórnarblöðunum og einnig frá hljóðvarpi og sjónvarpi. Það var sagt frá þessum fundi í öllum blöðunum, misjafnlega mikið eins og gefur að skilja, og ekkert um það að segja. Hljóðvarpið greindi skilmerkilega frá viðræðum, sem fóru fram á þessum blaðamannafundi. Sjónvarpið taldi sig ekki geta greint neitt frá því, það hefði ekki verið neitt nýtt, sem fram hefði komið í máli formannsins.

Hérna erum við komnir að dálítið athyglisverðu atriði: ef það er ekki neitt nýtt að mati einhvers fréttamanns í sjónvarpi eða hljóðvarpi, þá á ekki að flytja neinar fréttir af því. Auðvitað getur hvaða fréttamaður sem er, hvenær sem er, tekið þá ákvörðun eða fundizt það sjálfum, að það sé ekkert nýtt í málinn. Við sjáum það á þessu, að það var skilmerkilega greint frá blaðamannafundinum í hljóðvarpi, en í sjónvarpi ekkert orð. Nú spyr ég þennan hv. þm., því að því miður var ég ekki á fundinum hér á laugardaginn: Hvað var það, sem kom nýtt fram í ræðu hæstv. utanrrh., sem gaf tilefni til þess að segja frá ræðu hans, en var aftur á móti ekki nýtt í máli fyrirspyrjendanna, sem ekki var sagt frá í sjónvarpinu? Mér þætti fróðlegt að fá að heyra það.

Ég óskaði eftir því, af þessu gefna tilefni, í sambandi við þennan blaðamannafund — og sjónvarpið taldi enga ástæðu til að segja neitt frá því, sem gerðist á honum — vegna flokksráðsfundar sjálfstæðismanna að fá að sjá reglur um fréttaflutning sjónvarpsins. Framkvæmdastjóri sjónvarpsins lofaði því að gefa mér kost á að sjá þessar reglur og vildi auk heldur fá að tala við mig í sambandi við þær siðar. Af þessu hefur nú ekki orðið. Ég hef hvorki fengið að sjá reglurnar eða rætt við hann, en það er full ástæða til þess, að hann rifji þetta upp og ég reyni að fá að sjá þessar reglur, hvernig þær eru, og fá þennan umrædda viðræðufund við framkvæmdastjóra sjónvarpsins.

Ég geri mér alveg ljóst, að það er erfitt hlutverk að segja réttilega og hlutlaust frá því, sem er að gerast, þegar stjórnmálin eru annars vegar. Ef ég mætti aðeins, af því að það skiptir nokkru máli, blanda inn í þetta mál nú, af því að rætt er um fréttaflutninginn, einni spurningu til hæstv. forsrh. Hún er sú, hvort óskað hafi verið eftir endurskoðun á varnarmálasamningnum skv. ákvæðum hans sjálfs. Mig minnir, að það sé 7. gr. varnarmálasamningsins, sem kveður á um það, hvernig með skuli fara, ef hann á að endurskoðast eða að segjast upp. Þetta er næsta óljóst enn þá, því að hitt er annað mál, að endurmeta aðstöðu varnarliðsins hér á landi, eða hvort það á að óska eftir endurskoðun skv. samningnum eða ekki.

Ég skal ekki hafa þetta öllu lengra. Þegar við ræddum um þetta hér á sínum tíma, og það var það fyrsta, sem ég heyrði um það, skildist mér, að hann væri að segja þingheimi, þó að það væri nokkuð óljóst, að það hefði verið óskað eftir endurskoðun skv. ákvæðum samningsins. Ég skal að langmestu leyti láta ræðu hæstv. viðskrh. liggja á milli hluta, en það er orðinn töluvert mikill taugaóstyrkur hjá hæstv. ráðh., þegar hann er hér í ræðustólnum að tala um það, að það sé ekki hægt að ætlast til þess, að hann og álíka fínir menn séu að tyggja einhverja hluti í þm., sem ekki skilja mælt mál. Hér er um það að ræða, að það hefur komið fram mikill ágreiningur, mikið mismunandi túlkun á stefnu ríkisstj. í jafnalvarlegu máli eins og varnarmálinu, annars vegar hjá hæstv. utanrrh. og hins vegar hjá hæstv. viðskrh., og það væri ákaflega gott, ef hæstv. stjórnarherrar gætu gert sig skiljanlega í sambandi við þennan ágreining, því að það er nefnilega ekki nóg að lesa stjórnarsamninginn, þó að menn geri það bæði kvölds og morgna, eins og hæstv. forsrh. lagði nú til að menn gerðu, því að það er ekki aðeins, að það sé mismunandi túlkun á samningnum á milli hæstv. utanrrh. og hæstv. viðskrh., heldur hefur hæstv. utanrrh. því miður gert sig sekan um það að túlka sjálfur með mjög mismunandi hætti, hvað í stjórnarsamningnum felist í sambandi við varnarmálin.

Þess vegna hefur komið upp ágreiningur innan Framsfl., og einn af þm. flokksins hefur leyft sér að viðhafa þá túlkun, hv. þm. Jón Skaftason, að það fari eftir endurskoðun á samningnum, hvort varnarlið verði hér eða verði ekki og fyrir þetta hefur hann fengið ákúrur af stjórn Sambands ungra framsóknarmanna, vegna þess að þeir vilja líta svo á, eins og hæstv. viðskrh., að það sé alveg sama, að hvaða niðurstöðum menn komist við endurskoðunina, herinn eigi að fara. Þetta er ágreiningurinn, sem er á milli þessara manna.

Ég skal svo verða við tilmælum forseta um það að lengja ekki þessar umr. nú, m. a. vegna þess, að það er auðvitað ekki full-útrætt þetta mál túlkunin á stjórnarsamningnum í jafnviðurhlutamiklu máli eins og varnarmálin eru, og við eigum það eftir á dagskrá hér.