13.12.1971
Sameinað þing: 23. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 2428 í B-deild Alþingistíðinda. (2593)

Herstöðva- og varnarmál

Benedikt Gröndal:

Herra forseti. Það var rétt hjá hæstv. forseta, að fréttir Ríkisútvarpsins af störfum á Alþ., eins og allar aðrar fréttir, eru fluttar á þess ábyrgð. En það var ekki rétt hjá forseta, að svo hefði þetta alltaf verið.

Fyrstu 30 árin, sem Ríkisútvarpið starfaði, var aldrei sagt frá umr. á Alþ. í almennum fréttum. Þá voru þingfréttir fluttar sem sérstakur liður, og það var launaður starfsmaður Alþ., sem flutti fréttirnar. Þessar þingfréttir eru enn þá fluttar, útvarpað á morgnana, og er það starfsmaður Alþ., sem þar er að verki. Hann skýrir aðeins frá þskj. og dagskrá, en aldrei frá umr.

Það eru ekki nema 7 ár eða svo, síðan útvarpið ákvað upp á sitt eindæmi, án þess að tala við Alþ., að senda hingað fréttamenn og segja frá umr. Það hefur því satt að segja ekki gefizt langur tími til að læra þetta verk og finna lausn á öllum vandamálum, sem fram koma.

Hv. 1. þm. Reykv., formaður Sjálfstfl.. skýrði frá blaðamannafundi sínum, sem, eins og hann sagði, var ekki sagt frá í sjónvarpinu. Þarna er um að ræða fréttamat, þar sem hljóðvarpið lagði annað mat á þennan blaðamannafund en sjónvarpið. Ég hef persónulega tilhneigingu til að vera sammála háttv. þm. um, að þetta hafi ekki verið rétt metið hjá sjónvarpinu, og þeir hefðu átt að segja frá nokkrum atriðum frá þessum fundi.

Kjarni málsins er sá, að hér er um fréttastarfsemi að ræða, en hvað er frétt? Frétt er eitthvað, sem er nýtt, eitthvað, sem er afbrigðilegt. Ef hundur bítur mann, þá er það ekki frétt, en ef maður bítur hund, þá er það frétt, segja þeir í blaðaheiminum. Það er ómögulegt að komast hjá því, að einhver starfsmaður verður að meta hlutina og velja og hafna. Það er að sjálfsögðu eðlilegt, að það komi upp deilur um, hvort það mat er á hverjum tíma rétt eða ekki. Og sjálfsagt er að gagnrýna, ef það mat er ekki talið rétt.

Ef við komum aftur að fréttinni frá laugardeginum, þá tel ég, eins og fréttamaður sjónvarpsins virtist telja, að spurningin um túlkun blaðanna í Evrópu á ræðu utanrrh. hafi verið nýtt innlegg í málið, því að við höfum ekki séð þessa ræðu enn þá. Og verður þá að hafa það, ef menn eru ekki sammála því.