13.12.1971
Sameinað þing: 23. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 2429 í B-deild Alþingistíðinda. (2594)

Herstöðva- og varnarmál

Sjútvrh. (Lúðvík Jósepsson):

Herra forseti. Mér þykir nú skörin vera farin að færast upp í bekkinn, þegar þeir sjálfstæðismenn koma og kvarta undan fréttaflutningi útvarps og sjónvarps frá fundinum hér s. l. laugardag. Það er sem sé greinilegt, að þeir sætta sig ekki við neitt minna en það, að þeir ráði fullkomlega yfir þessum tækjum, bara sem áróðurstækjum sínum, rétt eins og þeir ráða yfir Morgunblaðinu.

Hér gerðist nefnilega sá óvenjulegi atburður, að útvarpið sagði frá því, sem hér gerðist á fundi, með þeim hætti, sem aldrei hefur verið gert áður í fréttum héðan frá Alþ. Hér komu fram fsp., ekki eftir löglegum og venjulegum þingskapaleiðum, heldur fsp., sem fram komu í ræðum manna. Það var greint sérstaklega frá þessum fsp. og því bætt við, að ráðherrar hefðu ekki svarað. (Gripið fram í.) Ja, ég skal ekki alveg segja um orðalagið, en það kom skýrt fram. Ég ætla aðeins að segja það af þessu tilefni, að ég hef komið fram með ótal fsp. til ráðh. á undanförnum árum í sambandi við umr. hér á Alþ., og það hefur aldrei verið minnzt á það, þó að ég hafi ekki fengið svör frá ráðh. við þeim spurningum, aldrei. Það er óhætt að lesa í gegnum allar þær fréttasendingar. En nú, þegar menn komu hér fram með fsp., sem búið var að margsvara hér áður, fund eftir fund, dag eftir dag, og menn sáu ekki ástæðu til þess að vera að lengja laugardagsfund til þess að tyggja í þá menn, sem ekki skilja mælt mál, þau svör, sem var búið að láta þá hafa áður, þá kemur útvarpið með fréttir um það, að ráðh. hafi verið spurðir af Eyjólfi K. Jónssyni um þetta og þetta og það hafi ekkert svar fengizt. Og svo koma sjálfstæðismenn hér upp á eftir og kvarta undan því, að það sé hallað á þá í fréttaflutningi þessara fjölmiðla. Ja, það er eins og ég segi, mér þykir skörin vera farin að færast upp í bekkinn.

Auðvitað var þessi frásögn útvarpsins af fundinum hér á laugardaginn greinilega vilhöll. Það hefur kannske stafað af því, að sá fréttamaður, sem þetta flutti, hefur lagt trúnað á þær röngu staðhæfingar, sem hér komu fram á þessum fundi og hafa auðvitað komið fram hvað eftir annað, m. a. í Morgunblaðinu, um þau efni, sem hér var verið að ræða um. Það var fullyrt hér, að það hefði verið um tvær mismunandi túlkanir að ræða, utanrrh. og mína, á stjórnarsáttmálanum um tiltekið efni. Þetta vita þessir hv. þm. að hefur verið marghrakið hér í umr. á Alþ. Það, sem ég hef sagt um þetta atriði hér á Alþ. og liggur fyrir skriflega í þingtíðindum er það, að ég las upp stjórnarsáttmálann í þessum efnum, ég las hann nákvæmlega upp og get gert það enn. Ég sagði, að í stjórnarsáttmálanum stæði alveg skýrum orðum þetta: „Varnarsamningurinn við Bandaríkin skal tekinn til endurskoðunar eða uppsagnar í því skyni, að varnarliðið hverfi frá Íslandi í áföngum.“ (Gripið fram í.) Það væri óskandi, að þetta væri lesið upp og þessar leiðréttingar af þeim, sem nú skrifa hér fréttir útvarpsins. Og ég sagði í framhaldi af þessu, að það væri alveg augljóst, að það ætti að fara fram endurskoðun eða síðar uppsögn á samningnum í því skyni, að varnarliðið yrði látið fara úr landi, svo að það lægi alveg ljóst fyrir, að hverju væri stefnt. Ekki sagði utanrrh. neitt annað. Síðan bætti ég við til frekari skýringar, — en það þarf eflaust að taka það fram nokkrum sinnum, ef það á að koma rétt eða óbrenglað í Morgunblaðið — það liggur alveg ljóst fyrir frá hálfu ríkisstj., að nú stendur yfir undirbúningur að endurskoðun, þessari, sem hér um fjallar. Sjálf hin formlega endurskoðun hefur ekki hafizt, og það er gert ráð fyrir því — eins og ég hef hér minnzt á áður í umr. um þetta efni — í varnarsamningnum sjálfum, að endurskoðun geti farið fram og ef hún ekki beri árangur, geti hvor aðili fyrir sig sagt samningnum upp. Það er auðvitað fyrst þegar þessi endurskoðun hefur farið fram, sem formleg ákvörðun verður tekin um það, hvort samningnum verður sagt upp eða ekki. Svo koma sjálfstæðismenn hér einn af öðrum og fullyrða það alltaf, að ég hafi sagt: það er búið að ákveða, að herinn fari, en utanrrh. segi: það er ekki búið að ákveða, að hann fari. Þetta eru þeirra eigin orð og ranglega með farin.

Menn geta svo auðvitað haft sínar meiningar á því, eins og þeir vilja, hvort við eigum að standa upp og hlaupa í ræðustólinn í hvert skipti, sem hinir einstöku þm. Sjálfstfl. koma hér með sömu spurninguna og sömu rangtúlkunina, skipti eftir skipti, og hvort við eigum að lemja þetta inn í þá alltaf jafnóðum. En a. m. k. þegar þannig er ástatt, að ekki er mikill tími afgangs í sambandi við nytsamleg störf hér á Alþ., þolir maður það nú vel, að þm. Sjálfstfl. komi hér upp og geri sig hlægilega með því að endurtaka þessar fullyrðingar sinar. En það hefði vissulega verið ástæða til þess að finna að því, að fréttamenn útvarpsins flyttu fréttir af slíkum vinnubrögðum á þann hátt, sem þeir hafa gert. Ég segi svo aðeins það, að ég lýsi undrun minni á þessu háttalagi þeirra sjálfstæðismanna, sem hér koma upp svo að segja á hverjum fundi utan dagskrár, að mestu að tilefnislausu, sýnilega til þess að tefja þingstörf, til þess að margendurtaka mál sem eru hér full-útrædd. Auðvitað játa ég það, að fréttamenn, sem skrifa niður fréttir, meta fréttir á misjafnan hátt. Það höfum við auðvitað fengið að finna á undanförnum árum. En ég trúi því ekki, að þeir, sem hér hafa yfirleitt hlýtt á, hvað fram hefur farið um þessi mál öll hér á Alþ., geti haft ástæðu til þess, á þann hátt sem sjálfstæðismenn telja sig hafa, að vera hér sífellt með glósur um það, að fréttamenn útvarps og sjónvarps séu undir einhverjum þrýstingi frá stjórnarvöldum, sem láti þá segja hitt eða þetta. Það er eins og hér hefur verið sagt áður, það gefst eflaust tími til þess að tala bæði um þessi mál og önnur, sem ágreiningur er um, við stjórnarandstöðuna á öðrum tíma en hér utan dagskrár á Alþ. Ég skal því ekki hafa þessi orð fleiri. Ég get tekið undir það, sem hefur komið hér fram, að það er vitanlega sjálfsagt, að forsetar þingsins hafi auga með því, að fréttir héðan af þinginu, sem birtar eru í fjölmiðlum, séu með eðlilegum hætti og túlki eðlilega það, sem fram fer, og að ekki sé verið að breyta út af þeim almennu reglum, sem gilt hafa um þessi efni.