28.02.1972
Sameinað þing: 42. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 2433 í B-deild Alþingistíðinda. (2598)

Fiskveiðilandhelgismál

Gylfi Þ. Gíslason:

Herra forseti. Ég hafði rætt um það við hæstv. utanrrh. í morgun og við hæstv. forseta nú rétt í fundarbyrjun, að ég hefði hug á því að bera fram í fundarbyrjun stutta fsp. til hæstv. utanrrh. Forseti gat þess við mig, að hann teldi eðlilegt, að áður en fsp. mín yrði borin upp, væru samþykktir þeir nýju varamenn, sem hér taka sæti. En fsp. mín er þannig:

Eins og kunnugt er af blaðafréttum og myndum, er Jónas Árnason alþm. nýfarinn til Bretlands til þess að kynna málstað Íslands í landhelgismálinu. Það hefur vakið mikla athygli, að ferð þessi er að ýmsu leyti óvenjuleg. Hún hefst með myndatökum á hafnarbakkanum í Reykjavík, síðan ætlar alþm. að gera hvort tveggja, ræða við verkamenn og sjómenn á hafnarbökkunum í Grimsby og Hull og við lávarða í lávarðadeild brezka þingsins. Það er eflaust jafnauðvelt að láta ljósmynda sig á brezkum hafnarbökkum og íslenzkum, en Íslendingar munu ekki geta vænzt myndar af þm. í lávarðadeildinni, því að þar mun bannað að taka myndir.

Nú er það alkunna, að það er í verkahring utanrrh. að kynna málstað Íslendinga í landhelgismálinu erlendis. Þess vegna er spurning mín til hæstv. utanrrh. þessi: Tók hann ákvörðun um þessa sendiferð? Ef svo er ekki, hver gerði það þá? Hafi hæstv. utanrrh. ekki tekið ákvörðun um ferðina, spyr ég, hvort hann hafi vitað um hana, áður en ákvörðun um hana var tekin. Ég vil í þessu sambandi taka skýrt fram, að ég er ekki með þessum orðum að kasta nokkurri rýrð á Jónas Árnason alþm. persónulega. Ég hef aldrei dregið dul á og geri ekki enn, að ég hef hinar mestu mætur á honum sem afbragðs rithöfundi og skáldi og met hann einnig mikils sem einstakling. Það er í engu ósamræmi við þessar skoðanir, þótt ég telji, að hann hafi tæplega til að bera þá þekkingu á landhelgismálinu, að hann sé æskilegur sem einn aðalkynnir þess á erlendum vettvangi. A. m. k. tel ég, að auðvelt sé að finna marga aðra, sem betur væru til þess fallnir.

Mér er einnig mjög til efs, að þetta ferðalag verði til þess að styrkja íslenzkan málstað í Bretlandi og annars staðar. Það minnir of mikið á amerískan „show-business“ til þess að svo geti orðið. En flestir Íslendingar munu telja, að jafnmikilvægan málstað og hér er um að ræða eigi að kynna með öðrum,og alvarlegri hætti.