28.02.1972
Sameinað þing: 42. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 2434 í B-deild Alþingistíðinda. (2599)

Fiskveiðilandhelgismál

Utanrrh. (Einar Ágústsson):

Herra forseti. Hv. 7. þm. Reykv. hafði sagt mér frá því, að hann mundi óska vitneskju um ferðalög Jónasar Árnasonar, sem hér hafa verið gerð að umtalsefni. Mér er mjög ljúft að veita bæði honum og hv. 1. þm. Reykv., svo og öllum hv. alþm. öðrum, upplýsingar um það, að þessi ferð Jónasar Árnasonar margumtöluð er farin til að kynna málstað okkar í landhelgismálinu og er farin með fullri vitund og samþykki mínu sem utanrrh. Málið var hins vegar ekki, að ég taldi, þannig vaxið, að ástæða væri til að ræða það á fundi ríkisstj. í heild. Má vera, að þeim hv. þm., sem hér hafa tekið til máls, finnist það óviðeigandi, að einn ráðh. geti ákveðið svona viðamikið ferðalag til útlanda, án þess að bera það undir ríkisstj. alla. En það verður þá því að taka.

Ég hef engu við þetta að bæta öðru en því, að Jónas Árnason hefur áður farið til Bretlands svipaðra erinda. Það var þegar hann tók þátt í sjónvarpsþætti Magnúsar Magnússonar í Aberdeen, og ég hef beztu trú á því, að honum takist einnig núna að halda þannig á okkar spilum, að það verði málstað Íslands í landhelgismálinu til ávinnings.