28.02.1972
Sameinað þing: 42. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 2434 í B-deild Alþingistíðinda. (2600)

Fiskveiðilandhelgismál

Jóhann Hafstein:

Herra forseti. Ég hef ekki mörgu við að bæta öðru heldur en því, að mér sýnist vera farinn að verða nokkuð til málamynda sá þáttur stjórnarsamnings hæstv. ríkisstj., sem segir, að haft skuli samráð við stjórnarandstöðuna. En eins og kunnugt er, var sett á laggirnar nefnd, landhelgismálanefnd, þannig að í henni gæti ríkisstj. haft samráð bæði við þm. úr stjórnarliðinu og stjórnarandstöðunni. Og mér fyndist nú, að það mætti ekki minna vera, þegar til slíkrar farar sem þessarar er stofnað, en að þá væri rætt um það í þessari sérstöku nefnd, sem átti að vera til ráðuneytis, með hverjum hætti málstaður Íslands verði bezt kynntur. Hæstv. utanrrh. getur haft sína skoðun á því, að það verði bezt gert með slíkum aðferðum sem þessum, en það má vel vera, að aðrir hafi aðra skoðun á því, og ég tel, að hér sé mjög illa að farið af hálfu stjórnarinnar og hún sé búin að gleyma því samráði, sem hún ætlaði að hafa við stjórnarandstöðuna um landhelgismálið, því að ég veit ekki, hvað er langt síðan fundir hafa verið haldnir, og það er sjaldan talað við hana um það, hvað gera skuli.