28.10.1971
Neðri deild: 7. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 2442 í B-deild Alþingistíðinda. (2616)

Ástandið í Bangla Desh

Sigurður E. Guðmundsson:

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. utanrrh. fyrir þær upplýsingar, sem hann gaf hér um aðgerðir af hálfu ríkisstj. og ríkissjóðs í þessu máli. Ég óska þess, að ríkisstj. verði vel á verði í þessu mikla vandamáli, því að það er ljóst, m. a. af orðum Henriks Ber, framkvæmdastjóra Rauða krossins, er ég las hér áðan, að því miður getur það farið svo, að fólkið, þær milljónir manna, sem búa á þessu landssvæði svo fjarri okkur, á Indlandi, mæti mikilli neyð nú á haust- og vetrarmánuðunum og það getur vel farið svo, að á nýjan leik verði óhjákvæmilegt, að ríkissjóður leggi fram stórmikið fé til aðstoðar við þetta fólk. Ég vænti þess, að ríkisstj. sjái sér fært að verða við því, ef eftir því verður leitað.