20.01.1972
Sameinað þing: 29. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 2444 í B-deild Alþingistíðinda. (2619)

Ástandið í Bangla Desh

Bjarni Guðnason:

Herra forseti. Ég vil færa hæstv. utanrrh. þakkir fyrir greið svör og ekki sízt fyrir það, hversu jákvætt hann tók undir hugsanlega viðurkenningu á Bangla Desh. Ég hygg, að einmitt viðurkenning á Bangla Desh sé beint framhald af þeim atriðum í málefnasamningi ríkisstj., þar sem talað er um, að utanríkispólitíkin eigi að vera sjálfstæðari og einbeittari en áður. Ríkisstj. hefur þegar sýnt það, a. m. k. í tveimur málum, að hún hefur fylgt eða hyggst fylgja einmitt þessum atriðum. Bæði hefur hún mótað nýja stefnu í varnarmálum og einnig hefur hún haldið þannig á Kínamálinu hjá Sameinuðu þjóðunum, að það er augljóst, að þarna fylgir hugur máli, og ég tel einmitt, að þetta mál viðurkenning á Bangla Desh, sé framhald af þeirri stjórnmálastefnu í utanríkismálum, sem stjórnarflokkarnir gerðu samning um.

Áður en ég hverf frá þessu, vil ég aðeins segja eitt. Ég vil vekja athygli þingheims á einu atriði og það er þetta. Það er dálítið merkilegt, að Bandaríkin, fulltrúi kapítalismans, og Maó-Kína, fulltrúi kommúnismans, skuli leggjast á eitt með ofbeldinu, með einræðisstjórninni gegn frelsinu. Er þetta ekki nokkuð athyglisvert fyrir smáþjóð eins og Íslendinga?