10.05.1972
Sameinað þing: 66. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 2445 í B-deild Alþingistíðinda. (2621)

Styrjöldin í Víetnam

Utanrrh. (Einar Ágústsson):

Herra forseti. Í tilefni af þessum orðum og fsp. hv. 4. landsk. þm. vil ég leyfa mér að upplýsa, að á utanríkisráðherrafundi Norðurlandanna, sem haldinn var hér í Reykjavík hinn 25. f. m., var eftirfarandi samþykkt gerð einróma:

„Það hefur ávallt verið álit Norðurlandanna, að deilan í Vietnam, sem rekja má til nýlendutímanna, verði ekki leyst með hervaldi. Varanlegum friði í Vietnam og annars staðar í Indó-Kína verði aðeins náð á stjórnmálalegum grundvelli, sem tryggi viðkomandi þjóðum rétt til að taka ákvarðanir um framtíð sína án íhlutunar utanaðkomandi ríkja. Það er einnig hætta á því, að aukinn stríðsrekstur í Vietnam geti haft neikvæð áhrif á samband stórveldanna og tilraunir til að draga úr spennu. Norðurlöndin hvetja því viðkomandi aðila eindregið til þess að taka hið fyrsta upp aftur friðarviðræður.“

Þessi ályktun sem er hluti af meira máli var send til allra fjölmiðla sama dag, svo og til sendiráða Íslands erlendis. Á fundi með William Rogers, utanrrh. Bandaríkjanna, í ráðherrabústaðnum hér í Reykjavík hinn 3. þ. m. eða fyrir réttri viku lét ég í tilefni af þessu í ljósi við hann áhyggjur íslenzku ríkisstj. út af gangi mála í Vietnam. Í gær átti ég svo samtal við sendiherra Bandaríkjanna hér og ég gerði honum í ljósi síðustu atburða grein fyrir því, hversu íslenzka ríkisstj. hlyti að harma þá óheillaþróun, sem þessi mál hafa nú tekið. Þannig hefur að mínum dómi allt of fljótt komið fram það, sem fyrrnefndur utanríkisráðherrafundur óttaðist og vakti athygli á, þ. e. að aukinn stríðsrekstur í Vietnam hafi neikvæð áhrif á samband stórveldanna og tilraunir til að draga úr spennu. Því miður hefur umrædd samþykkt utanríkisráðherrafundar Norðurlandanna, sem kannske var heldur varla að vænta, ekki megnað að draga úr þeim stríðsrekstri, sem háður er í Vietnam, en ég hygg, að enginn þurfi að vera í vafa um það, hvaða skoðanir íslenzka ríkisstj. hefur á þeim styrjaldarrekstri, sem þar er nú háður, þegar þessar upplýsingar hafa verið gefnar.

Ég vona svo, að hv. þm. þyki þetta næg svör að svo stöddu.