10.05.1972
Sameinað þing: 66. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 2446 í B-deild Alþingistíðinda. (2623)

Styrjöldin í Víetnam

Bjarni Guðnason:

Herra forseti. Ég fagna því, að þessi fsp. skuli hafa komið fram af hálfu hv. 4. landsk. þm., því að það eru vissulega alvarlegir atburðir, sem eru að gerast þarna austur frá, og ég vil líka benda hv. þingheimi á, að þetta gæti vakið kannske suma þm. til dýpri skilnings á því, sem ég og margir aðrir höfum talað um, þ. e. stórveldapólitíkina, hversu hernaðarblokkirnar eru rígbundnar til, skiptis, ýmist í þágu kommúnismans eða kapítalismans, þegar beitt er misrétti og ofbeldi gagnvart smáþjóðum. Þess vegna teldi ég það í anda hinnar nýju vinstri stjórnar, að hún beitti sér fyrir því að gera álíka samþykkt eins og danska þingið gerði, með því að beita sér fyrir því að mótmæla þessum atburðum við Bandaríkjastjórn. Ég hygg, að það fari ekki á milli mála, að samúð þessarar þjóðar hlýtur að vera með þjóðfrelsisbaráttunni í Vietnam.