19.10.1971
Sameinað þing: 4. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 2449 í B-deild Alþingistíðinda. (2626)

Aðild Kína að Sameinuðu þjóðunum

Utanrrh. (Einar Ágústsson):

Herra forseti. Hv. 9. landsk. þm. (EBS) hefur kvatt sér hér hljóðs utan dagskrár, að því er ég taldi í gær, þegar hann ræddi þetta við mig, til þess að fá upplýsingar um afstöðu ríkisstj. til Peking-málsins. Ég hef nú komizt að því, að ástæða hans til þess að kveðja sér hljóðs hér utan dagskrár hafi ekki verið sú ein að fá upplýsingar um afstöðu ríkisstj., heldur hefur honum legið á að halda hér ræðu. Nú er hann búinn að fá þá ósk sína uppfyllta.

En ég ætla að reyna að leyfa mér að svara þessari fsp. hans í örstuttu máli, en ekki að hefja hér utan dagskrár umr. um heimskommúnismann og þær afleiðingar, sem hann kann að hafa á sambúð þjóðanna.

Hv. þm. rifjaði upp fréttatilkynningu ríkisstj. frá 14. sept. s. l., en niðurstaða þeirrar tilkynningar er, eins og hann rakti, sú, að ríkisstj. Íslands mun að svo stöddu hvorki gerast flm. né meðflm. að till. um aðild Kína að Sameinuðu þjóðunum, heldur meta stöðuna í ljósi staðreynda eins og þær verða, þegar til atkvgr. kemur, með það markmið að leiðarljósi, eins og þar segir, að Kínverska alþýðulýðveldið taki sæti Kína hjá Sameinuðu þjóðunum með öllum réttindum og skyldum, enda er það í samræmi við stefnuyfirlýsingu ríkisstj. Íslands frá 14. júlí s. l. Hv. þm. óskar nú upplýsinga um það eða skýrslu, eins og hann kallar svo, hvort umrætt stöðumat hafi farið fram og hvernig niðurstaða þess sé, og þetta skal ég reyna að skýra.

Á þessu stigi málsins get ég ekki sagt um það með fullri vissu, hvernig atkvgr. um Kínamálið muni bera að á þingi Sameinuðu þjóðanna. Málið kom þar til umr. fyrst í gær og enn hefur, eftir því sem ég bezt veit, ekki verið tekin ákvörðun um fyrirkomulag á atkvgr. þar. Fyrir þinginu liggja nú þrjár till. um aðild Kína. Það eru þessar:

a. Till. Bandaríkjanna og fleiri ríkja um aðild tveggja Kína að Sameinuðu þjóðunum.

b. Till. sömu um, að brottvikning Taivan skuli skoðast sem mikilvægt mál, sbr. 18. gr. í sáttmála Sameinuðu þjóðanna, þ. e. það þurfi aukinn meiri hluta til þess að slík aðgerð nái fram að ganga.

c. Till. Albaníu og fleiri ríkja um það, að Alþýðulýðveldið verði eini fulltrúi Kína hjá Sameinuðu þjóðunum. Ríkisstj. Íslands hefur nú fyrir skömmu gefið sendinefnd Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum þau fyrirmæli að greiða atkv. gegn fyrri tveim till., en með þeirri síðastnefndu. Rökin fyrir þessari afstöðu er sú skoðun ríkisstj., að aðalatriði þessa máls sé, að Alþýðulýðveldið taki sem fyrst sæti Kína í samtökum Sameinuðu þjóðanna og að það muni ekki gerast samkv. tveggja Kína-leiðinni, þar sem fyrir liggi alveg ótvíræð yfirlýsing Peking-stjórnarinnar í því efni. Þessari skoðun, sem ég var hér að lýsa, hefur stöðugt verið að aukast fylgi á undanförnum árum, eins og atkvgr. hjá Sameinuðu þjóðunum sýna. Og í fyrra var svo komið, að till. Albaníu hafði meirihlutafylgi, en náði ekki fram að ganga, vegna þess að jafnframt var samþykkt till. um, að aukinn meiri hl. þyrfti til þess að breyta svo forsvari Kína hjá Sameinuðu þjóðunum. Nýjar upplýsingar frá New York greina frá því, að a. m. k. 10 ríki, sem í fyrra greiddu atkv. með eða sátu hjá um till. um mikilvægt mál samkv. 18. gr. sáttmálans, hafi nú lýst yfir, að þau muni ekki gera það á ný. Þessi ríki eru Argentína, Austurríki, Bretland, Kanada, Ecuador, Íran, Ísrael, Ítalía, Mexikó, Holland og Sierra Leone. Þannig eru talsverðar horfur á því nú, að aðild Peking-stjórnarinnar að Sameinuðu þjóðunum geti orðið að veruleika, sem þýðir í reynd, að 700–800 millj. manna bætast í þann hóp, sem mynda Sameinuðu þjóðirnar, og ég hygg, að það þurfi ekki að ræða það í löngu máli, hver breyting það yrði á samtökunum í þá átt, sem upphaflegt markmið þeirra er, þ. e. að verða samtök mannkynsins alls.

Ég hef út af fyrir sig fulla samúð með þeim, sem hafa áhuga fyrir áframhaldandi aðild Taivan-stjórnarinnar að samtökunum og vilja komast hjá því að reka, eins og svo er kallað, nokkra þjóð úr þeim. Ef myndað yrði sjálfstætt ríki á Taivan eða Formósu og það ríki sækti um aðild að Sameinuðu þjóðunum, mundi slík umsókn auðvitað verða metin, og ég tel alveg víst, a. m. k. tala ég þar fyrir mitt leyti, að ríkisstj. sú sem nú fer með völd á Íslandi, mundi greiða atkv. með upptöku slíks ríkis í samtökin. Málið liggur bara ekki svona fyrir, heldur er um það að tefla, að Formósu-stjórnin gerir kröfu til að vera fulltrúi Kína í samtökum Sameinuðu þjóðanna. Á þetta hefur meiri hluti þjóða heims ekki viljað fallast, enda hefur þessi afstaða Formósu-stjórnar hindrað aðild um það bil fimmtungs allra manna í heiminum að samtökunum og beiting fundarskapa hefur valdið því, að meirihlutasamþykkt hefur ekki náð fram að ganga. Ísland hefur, eins og hv. 9. landsk. þm. réttilega benti á, haft sérstöðu meðal Norðurlandaþjóðanna varðandi afstöðuna til Kínamálsins. Svo sem kunnugt er, hefur Ísland fram að þessu ekki greitt atkv. með till. Albaníu og fleiri ríkja um, að Peking-stjórnin taki sæti Kína hjá Sameinuðu þjóðunum, en fulltrúar Formósu víki sæti. Till. þessa hefur Albanía og fleiri ríki borið fram á fjölmörgum þingum Sameinuðu þjóðanna, en hún hefur aldrei fengið meiri hl. fyrr en í fyrra á 25. þinginu, þá fékk hún 51 atkv., en 49 voru á móti og 25 sátu hjá. En til viðbótar við till. þær frá Albaníu og Bandaríkjunum, sem áður greinir, kom fram — og um það gat hv. 9. landsk. þm. einnig — árin 1966, 1967 og 1968 málamiðlunartillaga, sem Ítalía og fleiri ríki fluttu. Hún fjallaði um skipun nefndar, sem átti að hafa það hlutverk að reyna að finna viðunandi lausn á þessu máli, hvernig farið skyldi með sæti Kína hjá Sameinuðu þjóðunum. Ísland greiddi atkv. á móti till. Albaníu allt fram að árinu 1967, en á síðustu árum hefur sendinefnd Íslands setið hjá við atkvgr. um till. Albaníu. Hins vegar hefur íslenzka sendinefndin frá upphafi greitt atkv. með till. Bandaríkjanna og fleiri ríkja um. að skipan sætis Kína hjá Sameinuðu þjóðunum sé mikilvægt mál og þurfi 15 meiri hl. atkv. til þess að útkljá það. Sendinefnd Íslands greiddi hins vegar atkv. með till. Ítalíu um skipun nefndar til þess að reyna að finna lausn á málinu á árinu 1966–1967 og var meðflm. ríkja að till. 1968. Till. náði aldrei fram að ganga og hefur ekki verið flutt síðan 1968. Eins og ég áðan sagði, hafa stjórnir hinna Norðurlandanna lengi fylgt aðild Peking-stjórnarinnar að Sameinuðu þjóðunum og það alveg án tillits til þess, hvaða flokkar hafa farið þar með völdin. Það hafa orðið stjórnarskipti þar í nokkrum löndum og nú hefur Ísland bætzt í þeirra hóp og það er vegna þess, að við teljum afstöðu þeirra raunhæfustu leiðina að því marki, sem allir telja sig stefna að, hv. 9. landsk. þm. eins og við hinir, það er aðild Alþýðulýðveldisins Kína að Sameinuðu þjóðunum.

Með þessu vona ég, að afstaða ríkisstj. til þessa máls sé upplýst.