19.10.1971
Sameinað þing: 4. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 2453 í B-deild Alþingistíðinda. (2628)

Aðild Kína að Sameinuðu þjóðunum

Ragnar Arnalds:

Herra forseti. Hæstv. utanrrh. hefur gefið skýr og auðskilin svör við þeirri spurningu, sem fyrir hann var lögð, og mér þykir vægast sagt býsna einkennilegt, að hv. 9. landsk. þm. (EBS) skuli svo hér á eftir koma í annað sinn upp í ræðustólinn til þess að rangtúlka kjarna þessa máls á jafnherfilegan hátt og hann gerir. Kjarni þessa máls er, eins og allir vita, spurningin um það, hver á að fara með umboð Kína hjá Sameinuðu þjóðunum, Peking-Kína eða Formósa. Það er um þetta og ekkert annað, sem þessi spurning snýst. Að segja hér aftur og aftur, að það sé verið að reka Formósu úr Sameinuðu þjóðunum, er ekkert annað en vísvitandi áróðursblekking, vísvitandi áróðursblekking. Formósu-stjórn er með afstöðu sinni og þrákelkni í þessu máli að reka sig sjálf úr samtökunum. Það, sem verið er að gera við afgreiðslu þessa máls hjá Sameinuðu þjóðunum, er ekkert annað en það, að það er verið að meina henni, þ. e. Formósu-stjórn, að fara lengur með umboð 700 milljóna manna. Ef, eins og hæstv. utanrrh. tók hér fram áðan, ef Formósustjórn hefði beðið og óskað eftir aðild sem sjálfstætt ríki, þá hefði það mál sjálfsagt fyrir löngu verið leyst, en málið er einfaldlega ekki þannig, eins og hér hefur greinilega komið fram og ástæðulaust er að endurtaka. Það er rétt, hárrétt, sem fram kom hjá hæstv. forsrh. hér í gær, að afstaða fyrri ríkisstj. í utanríkismálum einkenndist um of af undirlægjuhætti gagnvart ákveðnum voldugum vinum. Og einmitt í þessu máli kom sérlega fram, hvernig Ísland var langtímum saman og fram að þessu taglhnýtingur Bandaríkjastjórnar. Þessu er núna verið að breyta. Það er verið að taka upp sjálfstæða og heilbrigða afstöðu í þessu máli, eins og t. d. Norðurlandaþjóðirnar hafa fyrir langa löngu gert, og það er vel.