19.10.1971
Sameinað þing: 4. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 2454 í B-deild Alþingistíðinda. (2629)

Aðild Kína að Sameinuðu þjóðunum

Benedikt Gröndal:

Herra forseti. Það mun hafa verið upp úr árinu 1950, sem fyrst kom til tals, hvort núverandi ríkisstjórn í Peking, sem þá hafði náð fullum yfirráðum yfir meginlandshluta Kína, fengi aðild að Sameinuðu þjóðunum eða ekki. Í hálfan annan áratug beittu allar ríkisstj., sem sátu á Íslandi, ásamt yfirgnæfandi meiri hluta þeirra, sem áttu sæti hjá Sameinuðu þjóðunum, sér gegn því, að Peking-stjórnin fengi þessa aðild.

Á síðustu árum hefur um allan heim orðið veruleg breyting á viðhorfum manna í þessum efnum. Fleiri og fleiri hafa talið það óhjákvæmilegt og rétt að láta ná til Peking-stjórnarinnar það sjónarmið, að Sameinuðu þjóðirnar skuli skipa eftir þeirri raunhæfu reglu, að þar sitji fulltrúar þeirra ríkisstjórna, sem raunverulega ráða yfir hverju landi. Nú hefur farið svo, að fyrst í stað mátti Peking-stjórnin ekki heyra það nefnt að verða aðili án þess að Taivan færi úr samtökunum, og Taivan-stjórnin mátti ekki heyra nefnt, að Peking-stjórnin yrði aðili að Sameinuðu þjóðunum. Þó hygg ég, að nokkur breyting hafi orðið á þessu. Taivan-stjórnin hefur látið undan, og mér skilst, að hún sé reiðubúin til að vera áfram í samtökunum, jafnvel þó að Peking-stjórnin fái þar inngöngu.

Ekki er deilt um það, að Peking-stjórnin eigi að fá sæti Kína með öllum rétti, sem fylgir því, og þá fyrst og fremst sæti í Öryggisráðinu. Þetta er ekki deilumál. Spurningin er, hvort nokkuð er því til fyrirstöðu, að ríkið á Taivan með 15 millj. manna, sem hefur verið í samtökunum, verði þar áfram. Það ríki mun ekki fara með sæti eða aðstöðu Kína hjá Sameinuðu þjóðunum. Það geta alveg eins verið tvö Kína eins og verið hafa í mörg ár tvö Kongó í Sameinuðu þjóðunum, tvö sjálfstæð ríki hlið við hlið, sem bæði eru hluti af hinu eiginlega Kongó.

Ég vil láta þess getið, að Alþfl. hefur um árabil, eða síðan fyrrv. ríkisstj. breytti afstöðu í þessu máli alveg án tillits til afstöðu annarra ríkja, verið fylgjandi því, að Peking-stjórnin eigi að fá inngöngu í Sameinuðu þjóðirnar og að hún eigi að fá sæti Kína þar. En ég vil lýsa því yfir, að Alþfl. harmar það, ef þetta þarf að gerast á þennan hátt, að Taivan verði rekið burtu.

Það er hættulegt fordæmi fyrir Íslendinga að standa að því að hefja aðgerðir, sem leiða til þess að hrekja ríki úr Sameinuðu þjóðunum. Þar eru ýmsar blikur á lofti, m. a. mikil hreyfing um það, að lítið vit sé í því að láta smáþjóðir með 200 þús. manns fara sem heilt atkv. á Allsherjarþinginu við hliðina á þjóðum með 200–600 millj. Og við ættum því að gæta okkar í þessum efnum og stuðla ekki að því, að stórveldi geti fengið inngöngu eða setið í Sameinuðu þjóðunum með skilyrðum um það, hvaða smáríki fái að vera þar og hvaða smáríki fái það ekki.

Núverandi ríkisstj. segir í stefnuyfirlýsingu sinni, að ef til komi, muni hún vera hlynnt því, að bæði Austur- og Vestur-Þýzkaland fái inngöngu í Sameinuðu þjóðirnar, en þessi ríki eru þar hvorugt í dag. Mér finnst þetta ekki vera óeðlileg hugsun. Mér finnst, að það væri raunhæft að athuga alveg eins Suður- og Norður-Kóreu og jafnvel — við skulum vona, að styrjöldinni í Vietnam ljúki fljótlega — að Suður- og Norður-Vietnam fái líka inngöngu. Þetta eru raunhæfar ráðstafanir til þess, að sem flest ríki séu innan samtakanna. Mér finnst ekki vera samræmi í því að lýsa yfir, fyrstir allra þjóða í Evrópu, að ég hygg, opinberlega í stefnuskrá ríkisstjórnar, að Austur- og Vestur-Þýzkaland eigi bæði að fá að vera í Sameinuðu þjóðunum, en taka svo upp þá stefnu, að meginlands-Kína og eyjan Taivan geti ekki setið þar áfram, þótt meginlands-Kína taki við sæti Kína. Það er verið að láta undan kröfum Pekingstjórnarinnar og það er í raun og veru óþolandi, að nokkur stjórn, stór eða smá, fái inngöngu í Sameinuðu þjóðirnar með skilyrðum gagnvart öðrum þjóðum, sem þar eru.

Það hefur verið mikil þrákelkni af hálfu þessara tveggja ríkja, eins og við vitum öll. Það hefur verið von þeirra manna, sem hafa mælt fyrir tveggja-Kína-stefnunni, eins og hún er kölluð, að þegar kæmi að raunverulegri inngöngu, mundu þessi ríki hverfa frá þessari þrákelkni. Er erfitt að sjá, hvaða tjón það gerir hinu volduga og stóra meginlands-Kína, þegar það er búið að fá öll réttindi Kína hjá Sameinuðu þjóðunum, þó að Taivan fái að sitja þar áfram.

Hæstv. ríkisstj. vitnar mjög til þess, að hún fylgi nú Norðurlöndunum í þessum efnum. Viðhorf ríkja í Evrópu og annars staðar hafa verið ákaflega mismunandi, og þetta mál hefur verið okkur fjarlægara heldur en stærri ríkjum á meginlandi Evrópu, sem hafa mikil viðskipti í austurveg. Samt sem áður vil ég að lokum, herra forseti, minna á ályktun um þessi mál, þar sem Alþfl. lýsti því yfir fyrir skömmu, að hann styddi aðild meginlands-Kína og vildi, að það fengi öll réttindi Kínverja hjá Sameinuðu þjóðunum og teldi rétt, að Taivan væri þar áfram. Þá benti Alþfl. á það, hvort ekki væri athugandi, sérstaklega eftir að þetta mál hefur verið til lykta leitt, hver sem meiri hl. verður á Allsherjarþinginu, að Íslendingar taki upp stjórnmálasamband við stjórnina í Peking. Það mundi vera að feta í fótspor hinna Norðurlandanna. Viðskipti milli þessara ríkja eru ekki mjög mikil í dag, en það er enginn vafi á því, að þau geta orðið meiri í framtíðinni. Þetta gætum við vel gert, án þess að valda okkur miklum kostnaði og ég vil koma þessari hugsun á framfæri.