19.10.1971
Sameinað þing: 4. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 2457 í B-deild Alþingistíðinda. (2631)

Aðild Kína að Sameinuðu þjóðunum

Jóhann Hafstein:

Herra forseti. Mér þykir vænt um það, að einn yngsti þm. hefur vakið máls á þessu máli á þann skilmerkilega hátt, sem hv. 9. landsk. þm. gerði, Ellert Schram.

Það er skárri rembingurinn, sem kominn er í hæstv. iðnrh. Hann kemur hér bara í pontuna og segir: Hvað er þessi strákur að tala hér? Það er bara skömm, að ungir menn skuli láta til sín heyra á Alþ. Ég held, að hæstv. iðnrh. ætti að gera sér grein fyrir því, að enn er ekki kominn tími til að hann gerist siðapostuli þm.

Hæstv. utanrrh. á hins vegar góða bakstoppara eins og kom fram í þessum umr. Fyrst kemur nú fram gerviformaður kommúnismans hér á landi, sem Alþb. er búið að flagga með sem formann sinn, án þess að hann nokkurn tíma hafi verið nokkur formaður þeirra samtaka í raun og veru. Aðalformaðurinn kom líka fram á eftir. Hvort sá þriðji kemur og bætir um betur, það veit ég ekki. (Gripið fram í.) Ég held nú, að hæstv. sjútvrh. sé of skynsamur til þess. En það er eitt, sem ég vil vekja athygli á í sambandi við þetta mál. Hæstv. ríkisstj. lítur ekki á þetta sem neitt stórt mál, hvort Kína fái aðild að Sameinuðu þjóðunum, eða hvort Formósa er rekin úr Sameinuðu þjóðunum. Það má fara í alls konar orðaleik um þetta. Það er vandamál, hvernig á að samrýma þessi sjónarmið að halda báðum ríkjunum í Sameinuðu þjóðunum, og því hefur verið lýst hér yfir af einlægni af hv. 9. landsk. þm., að hann styddi fulla aðild Kínaveldis eða meginlands-Kína að Sameinuðu þjóðunum. En þetta er ekki meira áhugamál en það, að hæstv. ríkisstj., ef henni er þetta áhugamál, er þá þegar byrjuð að brjóta sinn stjórnarsáttmála. Það segir í stjórnarsáttmálanum, með leyfi hæstv. forseta:

„Haft skal fullt samráð við utanrmn. Alþ. um öll meiri háttar utanríkismál.“

Mér er ekki kunnugt um, að það hafi verið haft neitt samráð við utanrmn. um þessa afstöðu Íslands, sem hæstv. utanrrh. lýsti á þingi Sameinuðu þjóðanna. Ég skal ekki að öðru leyti blanda mér inn í þessar umr., en þetta er meira vandamál en svo, að það þurfi að furða sig á því, þó að ungir þm. komi hér og láti í ljósi áhyggjur yfir því, þegar við stöndum að afgreiðslu mála, sem leiða til þess óhjákvæmilega eins og hv. 9. landsk. þm. vék að, að 15 millj. manna þjóð verður vísað úr Sameinuðu þjóðunum, ef sá málstaður, sem sendinefnd Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum styður nú samkv. upplýsingum hæstv. utanrrh., verður ofan á.