19.10.1971
Sameinað þing: 4. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 2458 í B-deild Alþingistíðinda. (2633)

Aðild Kína að Sameinuðu þjóðunum

Heilbr.- og trmrh. (Magnús Kjartansson):

Herra forseti. Ég skal nú ekki lengja þetta mikið. Hv. þm. Benedikt Gröndal sagði, að í málflutningi mínum hefði komið fram gaddfreðin hugsun, ég hefði verið að segja hér sömu atriðin og ég hef sagt á nokkrum undanförnum þingum. Þetta er alveg rétt. Ég er að flytja mál, sem ég hef flutt hér á nokkrum undanförnum þingum: En það hefur gerzt það á meðan, hv. m., að þetta er orðin opinber stefna íslenzku ríkisstj. Á fyrri þingum var ég að gagnrýna fyrri ríkisstj. fyrir ranga stefnu í þessu máli og ég flutti þau rök, sem ég flyt nú. Sú ríkisstj., sem nú hefur meiri hluta þjóðarinnar á bak við sig, hefur fallizt á þessi rök. Þetta er ekki gaddfreðin hugsun. Þetta er skapandi hugsun.

Það er alveg rétt, að þegar Sameinuðu þjóðirnar voru stofnaðar, þá komu sigurvegararnir úr síðustu styrjöld sér niður á ýmsa undarlega hluti, m. a. þessi atriði um aðild Sovétríkjanna, sem hv. þm. minntist hér á. En um það vorum við Íslendingar ekki spurðir. Hins vegar erum við aðilar að Sameinuðu þjóðunum núna, og það er hlutverk okkar að rækja þær reglur, sem Sameinuðu þjóðirnar setja sér, m. a. það, að hvert ríki getur aðeins haft einn fulltrúa. Auðvitað erum við að skipta Kína, þegar við tölum hér um tvö kínversk ríki, án þess að Kínverjar sjálfir, hvort sem þeir eru á meginlandinu sjálfu eða á Formósu, hafi óskað eftir því. Þetta er alveg sameiginleg afstaða bæði hjá ríkisstj. í Peking og Chiang Kai-chek, að það sé aðeins eitt kínverskt ríki. Þessir aðilar gera báðir tilkall til þess að vera skoðaðir sem fulltrúar Kínverja. Okkar er að meta, hvorir eru eðlilegri fulltrúar Kínaveldis, þeir, sem ráða fyrir meginhluta Kínverja, eða útlagarnir á Formósu. Svona einfalt er þetta. Ég segi eins og hæstv. utanrrh., ef sú staða kemur upp einhvern tíma síðar, að Formósumenn ákveði að stofna sjálfstætt ríki og það sjálfstæða ríki sækir um aðild að Sameinuðu þjóðunum, þá ber að vega það og meta. En við stöndum ekki hér á Alþingi Íslendinga og ákveðum að skipta Kínaveldi í sundur.