19.10.1971
Sameinað þing: 4. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 2459 í B-deild Alþingistíðinda. (2634)

Aðild Kína að Sameinuðu þjóðunum

Utanrrh. (Einar Ágústsson):

Herra forseti. Ég ætla nú ekki að lengja þessar umr. mikið, enda geri ég ekki ráð fyrir, að margt nýtt komi fram í þeim úr þessu. En mér sýnist í raun og veru, að þeir, sem hér hafa talað, séu í aðalatriðum sammála um efni þessa máls. Það er það, að allir, sem hér hafa talað, hafa lýst sig fylgjandi því, að Peking-stjórnin gerist aðili að Sameinuðu þjóðunum. Og þá er aðeins deilan eftir um það, með hvaða aðferð því marki verði náð.

Það er skoðun meiri hluta ríkja nú, að því marki verði náð á þann hátt að samþykkja till., sem Albanía og fleiri ríki hafa flutt. Og þessari skoðun er að vaxa fylgi. Og það er a. m. k. mitt mat á þessari stöðu, að eina leiðin til þess, að aðild Peking-stjórnarinnar geti gerzt nú, sé þessi. Ég endurtek það, sem ég sagði hér áðan, að ég tel sjálfsagt, að allar þjóðir heims, sem vilja vera stjórnir yfir sínu landssvæði og gera ekki kröfur til þess að vera annað, fái aðild að Sameinuðu þjóðunum. Hv. þm. Benedikt Gröndal sagði það sem sína skoðun hér, eða honum skildist það, að Formósa sé nú reiðubúin til að vera í samtökunum, þó að Peking-stjórnin komi inn. E. t. v. veit hann þetta. En sá talsmaður Bandaríkjastjórnar, sem ég ræddi við um þetta mál í New York um daginn, vissi þetta ekki. Hann vildi ekki fullyrða það, að Taivan-stjórnin yrði áfram í samtökunum, ef Pekingstjórnin kæmi inn, þannig að það er alls ekki víst, að sú till., sem Bandaríkjamenn beita sér fyrir, sé raunhæf, þannig að ef hún yrði samþykkt, yrðu báðar þessar stjórnir aðilar að Sameinuðu þjóðunum. Ég a. m. k. veit það ekki. Hv. þm. Benedikt Gröndal veit það kannske, en sá talsmaður Bandaríkjastjórnar, sem ég ætla ekki að nafngreina að svo stöddu, vissi það ekki og vildi ekki fullyrða það.

Um það, hvaða stefnu sósíaldemókratar bæði á Íslandi og annars staðar hafa haft gagnvart þessu máli, þá skal ég ekkert hafa á móti því, sem hv. þm. Benedikt Gröndal sagði um það. Þeir hafa sjálfsagt alltaf viljað það, að Peking-stjórnin yrði aðili að Sameinuðu þjóðunum, en ég sá það í Alþýðublaðinu um daginn, að einum manni, sem skrifar í það blað undir nafni, þótt ekki hafa verið skelegglega unnið að því markmiði fram að þessu.

Hv. þm. Ellert Schram taldi það vera fráhvarf frá vestrænni lýðræðisstefnu að greiða atkv. með till. Albaníu. Hans orð um fráhvarf frá vestrænni lýðræðisstefnu eru þá það að bætast í hóp Dana og Norðmanna og líklega Breta og Kanadamanna nú, og eru þá þessir félagar okkar í NATO orðnir andvígir vestrænu lýðræði? Svo bregðast krosstré sem önnur. Nei, nei. Við erum ekki að brjóta neitt vestrænt lýðræði, þó að við reynum að fara þá leið, sem samkv. meirihlutaáliti þjóðanna er sú færasta til þess að ná því markmiði, sem allir hér hafa lýst sig sammála um, þ. e. að Pekingstjórnin verði aðili að Sameinuðu þjóðunum.