28.10.1971
Neðri deild: 7. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 2462 í B-deild Alþingistíðinda. (2637)

Lánasjóður íslenskra námsmanna

Ellert B. Schram:

Herra forseti. Tilefni þess, að ég hef kvatt mér hljóðs hér utan dagskrár eru málefni Lánasjóðs ísl. námsmanna og fjárveitingar ríkissjóðs þar að lútandi. Í þeim málum ríkir slík óvissa og ringulreið, að brýna nauðsyn ber til, að fram komi, ekki aðeins vilji, heldur sömuleiðis staðfesting ríkisstj. á því, hvernig þau mál verða til lykta leidd. Samkvæmt því fjárlagafrv., sem nú liggur fyrir, er gert ráð fyrir 104 millj. kr. fjárveitingu til lánasjóðsins og þá vantar enn upp á — sem gera verður þó ráð fyrir, að ríkissjóður eða rn. ábyrgist eða sjái um, að útvegað verði — 60 millj. kr. fjárveitingu til viðbótar annars staðar frá. M. ö. o., það liggur fyrir samkvæmt þeim upplýsingum, sem nú eru til staðar, að 90 millj. skortir á, að mætt sé þörfum og till. Lánasjóðs ísl. námsmanna, eins og þær hafa komið fram frá hálfu sjóðsstjórnar. Ég hafði hug á því að bera fram hér á hinu háa Alþ. þáltill., sem mundi fela í sér, að Alþ. samþykkti, að till. Lánasjóðs ísl. námsmanna yrðu að fullu teknar til greina við afgreiðslu fjárlaga fyrir árið 1972. En með tilliti til þess, hversu alvarlegt ástand hefur skapazt af þeirri óvissu, að áætlanir lánasjóðsins eru ekki teknar til greina í fjárlagafrv. ríkisstj., þykir mér tilefni til þess að spyrjast fyrir um það hér utan dagskrár, hvort fjmrh. fyrir hönd ríkisstj. geti gefið um það ótvíræða yfirlýsingu nú þegar á þessu stigi málsins, hvort ríkisstj. muni beita sér fyrir hækkaðri fjárveitingu, sem verði í fullu samræmi við áætlanir lánasjóðsins. Með slíkri yfirlýsingu vinnst það tvennt, að tillöguflutningur minn reyndist óþarfur og létt yrði af námsmönnum mikilli óvissu og áhyggjum, sem vissulega hefur valdið miklum ugg og ólgu í þeirra hópi. Ummæli og yfirlýsingar nokkurra ráðherra ríkisstj. hafa verið þess eðlis, að ástæða er til að ætla, að ráðherra geti gefið slíka yfirlýsingu hér á Alþ. nú. Um þetta vildi ég leyfa mér að fara örfáum orðum.

Lánamál íslenzkra námsmanna hafa áður og oft verið hér á dagskrá í þinginu, og það er kunnara en frá þurfi að segja, að ítarlegar umr. fóru fram meðal námsmanna, meðal þm. og hjá þjóðinni allri á s. l. vetri, þar sem fjárveitingar hins opinbera til námslána voru ræddar af miklum ákafa. Þær umr. fjölluðu öðrum þræði um frambúðarlausn þessara mála, en stöfuðu þó af vaxandi kröfum og vaxandi þörfum námsmanna til slíkrar aðstoðar í langskólanámi. Fram kom almennur skilningur og ákveðinn vilji yfirvalda og stjórnmálamanna til að mæta þeim kröfum, sem fram voru settar af námsmönnum í nafni lánasjóðsins og fyrir lágu í þeim áætlunum, sem sjóðurinn hafði látið gera. Í þeim áætlunum var miðað að því, að ríkissjóður legði sitt fram og/eða ábyrgðist, að lánveitingar hins opinbera hefðu náð því marki á fjárhagsárinu 1974–1975 að geta þá mætt umframfjárþörf námsmanna að fullu eða 100%. Þessi áætlun var sett fram á síðasta ári og þáverandi ríkisstj. greip á því máli með mjög myndarlegum hætti. Hún tók óskir lánasjóðsins um fjárveitingu fyrir árið 1971 að öllu leyti til greina og gaf út þær ótvíræðu yfirlýsingar, skýlausu yfirlýsingar, að hún fyrir sitt leyti hefði þar með viðurkennt að fullu áætlun Lánasjóðs ísl. námsmanna og hún liti svo á, að mörkuð væri stefna fyrir þær ríkisstj., sem við tækju, að halda áfram á þeirri braut, þannig að markmiði áætlunarinnar yrði náð á 3–5 árum, eins og óskað var eftir. Í síðustu fjárlögum voru veittar 126 millj. kr. til lánasjóðsins, eða sú upphæð, sem um var beðið. Með tilliti til þessarar stefnumótandi ákvörðunar, sem mjög var fagnað af öllum námsmönnum, og með hliðsjón af þeim undirtektum, sem þessi ákvörðun hlaut hjá þáverandi stjórnarandstöðuflokkum, mátti álita, að þessi mál væru komin í höfn, námsmenn hefðu hlotið viðurkenningu og staðfestingu fjárveitingavaldsins. Í trausti þessa og í góðri trú mun stjórn Lánasjóðs ísl. námsmanna hafa gengið út frá hækkun á núverandi fjárlögum í samræmi við áætlun sína, en hún gerir ráð fyrir, að fjárveiting til sjóðsins nemi nú 254 millj. kr. fyrir árið 1972. Stjórn sjóðsins hafði þegar hafið úthlutun námslána með þá upphæð í huga, og reyndar hafa nú þegar átt sér stað greiðslur í samræmi við áætlunarfjárhæðina. Það kom því mjög á óvart, svo að ekki sé meira sagt, þegar fjárlagafrv. var lagt fram og í ljós kom, að gert var ráð fyrir mjög skertri fjárveitingu til lánasjóðsins, svo skertri, að þar skortir hvorki meira né minna en 90 millj. kr. til þess, að mætt sé áætlun og þörfum sjóðsins. Í fyrsta skipti í sögu lánasjóðsins hafa till. sjóðsstjórnar ekki verið teknar inn óbreyttar og þó er þess að geta, að nú er farið fram á minni hlutfallslega hækkun en Alþ. samþykkti 1970. Eins og öllum má vera ljóst, hefur till. ríkisstj. í fjárlagafrv. skapað mikla óvissu um endanlega afgreiðslu, sem aftur hefur veruleg og bagaleg áhrif á úthlutun lána. Þessi óvissa kemur að sjálfsögðu einkum niður á þeim stúdentum og námsmönnum, sem verst eru settir fjárhagslega.

Úthlutun lána til námsmanna erlendis, sem undir venjulegum kringumstæðum væri komin til framkvæmda og, eins og fyrr segir, er að nokkru leyti hafin, hefur nú dregizt og bakað námsmönnum óþægindi og áhyggjur. Lán til námsmanna erlendis eru áætluð tæpar 120 millj. kr. samkvæmt áætlun sjóðsstjórnarinnar. Þá hefur lánasjóðurinn sett fram þá ósk, að unnt yrði að úthluta nú þegar í haust lánum til þeirra námsmanna, sem taka áfangapróf á haustmisseri, svo og til þeirra námsmanna, sem eigi gátu stundað sumarvinnu vegna skyldunámskeiða. Ekkert svar hefur borizt við þeirri ósk og úthlutun stöðvast af þeim sökum. En gert var ráð fyrir, að þessi lán yrðu samtals 6–7 millj. Hvað snertir kandídatastyrki, þá rann umsóknarfrestur út um s. l. mánaðamót, en ekki hefur verið hægt að taka afstöðu til umsókna, þar sem ekki liggur fyrir, hver fjárveiting endanlega verður. Úthlutun kandídatastyrkja ætti því að vera lokið og hin almenna úthlutun námslána ætti því að vera hafin af fullum krafti. Áætlað var að úthluta til kandídata um 6 millj. kr.

Herra forseti. Enda þótt till. ríkisstj., sem birt er í fjárlagafrv., hafi komið mjög á óvart og lýsi viðbrögðum, sem menn áttu ekki von á, þá tel ég fullvíst, að íslenzkir námsmenn og stjórn lánasjóðsins fyrir þeirra hönd hafi vonað, að einhver mistök hafi verið hér á ferðinni og þessum málum yrði kippt í lag, þegar ljóst yrði, hversu mikið hagsmunamál er hér um að ræða. Í fjárlagaræðu sinni lét fjmrh., sem er fulltrúi Framsfl., þau orð falla, að lagfæring mundi eiga sér stað, og í yfirlýsingu í einu dagblaðanna í Reykjavík fyrir nokkrum dögum kvaðst menntmrh., sem er fulltrúi SF, taka till. lánasjóðsins upp sem sína í ríkisstj. Á síðasta Alþ. gekk hæstv. núv. iðnrh., sem er fulltrúi Alþb., þriðja stjórnarflokksins, þó lengst í stuðningi sínum við þetta mál með því að bera fram till. um, að tillögur lánasjóðsins yrðu beinlínis lögfestar. Full ástæða er því til að halda, að till. ríkisstj. í fjárlagafrv. hafi verið yfirsjón, sem stafað hafi af fljótfærni frekar en skilningsleysi, og sem ríkisstj. mundi leiðrétta við allra fyrsta tækifæri. Við slíka leiðréttingu mun vart standa á stjórnarandstöðuflokkunum, sem veittu fordæmi á síðasta þingi með tillögugerð og yfirlýsingum við afgreiðslu fjárlaga, og ekki er því sjáanleg nein andstaða gegn því, að Alþ., og þá ríkisstj., láti þann vilja sinn í ljós, að haldið sé áfram á þeirri braut, sem þegar hefur verið mörkuð af fráfarandi ríkisstj., og áætlun stjórnar lánasjóðsins að fullu tekin inn í fjárlög.

Með hliðsjón af þeirri óvissu, sem nú ríkir meðal námsmanna, eins og ég hef nú greint frá, með hliðsjón af þeim almenna stuðningi, sem mál þetta nýtur hér á þingi, og með hliðsjón af þeirri nauðsyn, að námsmönnum sé tryggt viðunandi fjárhagsöryggi, þá er nú spurzt fyrir um og þess raunar óskað, að fjmrh. lýsi því nú yfir ákveðið, að hann og ríkisstj. muni sjá til þess, að tillögur lánasjóðsins verði teknar óbreyttar inn í fjárlög fyrir árið 1972. Ég leyfi mér að fullyrða, að til þess njóti hann stuðnings a. m. k. sjálfstæðismanna hér á þingi, og slíkri yfirlýsingu yrði vel fagnað meðal allra íslenzkra námsmanna bæði hérlendis og erlendis.