28.10.1971
Neðri deild: 7. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 2466 í B-deild Alþingistíðinda. (2639)

Lánasjóður íslenskra námsmanna

Menntmrh. (Magnús T. Ólafsson):

Herra forseti. Ég ætla ekki að lengja úr hófi fram þessar umr. hér utan dagskrár, en tel þó rétt að skýra frá nokkrum staðreyndum málsins, sérstaklega vegna þess, að mér þótti gæta verulegs misskilnings í ræðu hv. 9. landsk. þm. Það er alger misskilningur, að stjórn Lánasjóðs ísl. námsmanna hafi þurft að koma á óvart, að önnur till. kom fram í fjárlagafrv. heldur en sú, sem hún gerði um fjárveitingu til lánasjóðsins á næsta ári. Stjórnin vissi auðvitað fullt eins vel og hver annar, sem fylgdist með málum, hvernig á því stóð, að tillaga stjórnarinnar var svo seint á ferðinni, að ekki reyndist unnt að taka til hennar afstöðu, áður en ganga varð frá fjárlagafrv. Það var hvorki um að ræða nein mistök né neitt skilningsleysi eða viljaleysi, heldur aðeins það, að þetta mál bar það seint að, að nauðsyn bar til, vegna tímans, að setja fjárlagafrv. í prentun, áður en unnt var að taka afstöðu til þessarar tillögu. En það hefur verið eindreginn vilji þessarar ríkisstj. frá upphafi að taka fullt tillit til þarfa námsmanna og fyrir því var grein gerð fyrir mánuði, þegar ég ræddi við hóp bankastjóra og bar fram við þá tilmæli um stuðning í lánsformi við lánasjóðinn á sama hátt og tíðkazt hefur undanfarin ár. Þá var bankastjórunum gerð rækileg grein fyrir því, að till. í fjárlagafrv. væri áætlunartala, sem alls ekki væri raunhæf, og þeim var gerð grein fyrir því, að óskað væri eftir, að framlag bankanna miðaðist við fulla fjárveitingu af ríkisins hálfu eins og stjórn lánasjóðsins fór fram á.

Þá er það að segja, að núna eftir hádegið, þegar ég kom í rn., var þar bréf frá stjórn lánasjóðsins, dags. 26. okt., þar sem ámálgað er, að frá þessu máli sé gengið hið skjótasta, og þá gat ég hringt í formann stjórnarinnar og skýrt honum frá því, að það hefði þegar verið gert.