28.10.1971
Neðri deild: 7. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 2467 í B-deild Alþingistíðinda. (2641)

Lánasjóður íslenskra námsmanna

Fjmrh. (Halldór E. Sigurðsson):

Herra forseti. Ég skal nú ekki fara að þreyta hér neinar kappræður, en út af áhyggjum þeim, sem hv. 9. landsk. þm. hafði af því, hvernig ætti að brúa þetta bil í fjárlögum, þá verð ég nú að segja það, að það verður létt að vera fjmrh., ef ekki þarf að velta þyngra hlassi en að útvega einhverjum 40 millj. Og ég verð að segja það líka, að það er ekki í fyrsta sinni, sem fjárlagafrv. hefur verið lagt fram hér á hv. Alþ. og hefur hækkað allmiklu meira en greiðsluafgangurinn gerði ráð fyrir. Á síðasta Alþ. hækkaði fjárlagafrv. um tæpan milljarð í meðförum Alþ. Þá var að vísu greiðsluafgangur upp á 300 millj., en það skorti bara annan milljarð til þess að fjárlögin væru í samræmi við raunveruleikann. Ég vil líka segja frá því, að 1969 var gert ráð fyrir greiðsluafgangi upp á 51 millj., en hækkun á fjárlagafrv. var yfir 500 millj., svo að ég held, að þessar áhyggjur séu ástæðulausar, því að það verður við meira að fást en þetta, en við þetta verður staðið.