29.02.1972
Sameinað þing: 43. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 2475 í B-deild Alþingistíðinda. (2649)

Húsnæðismál menntaskóla o.fl.

Menntmrh. (Magnús T. Ólafsson):

Herra forseti. Ég lái ekki hv. 7. þm. Reykv., þó að hann hlakki til að ræða þessi mál nánar, eftir að hann hefur stjórnað þeim hálfan annan áratug með þeim glæsilega árangri, sem fram kom í ræðum hv. 12. þm. Reykv. og hans sjálfs. En það, sem fær mig til að stíga hér í stólinn á ný, er það, að ég mótmæli því gersamlega, að þessi reyndi þm. komi hér og leggi mér orð í munn, sem ég aldrei hef talað, rétt eftir að ég er kominn niður úr stólnum. Hann sagði í sinni ræðu, að ég hefði haldið því fram, að ekki hefði unnizt nægur tími til að endurskoða bráðabirgðareglugerðina, sem sett var í ársbyrjun 1971. Það vill svo til að ég er hér með skrifað það, sem ég sagði um þetta mál, og ég verð að leyfa mér að endurtaka það, með leyfi hæstv. forseta:

„Í reglugerðinni er ráð gert fyrir endurskoðun hennar þegar á sama ári, árinu 1971. Samkv. því ákvæði voru breytingar á reglugerðinni ræddar í samstarfsnefnd menntaskólastigsins, en þeirri nefnd var komið á fót samkv. ákvæði í menntaskólalögunum. Nefndin varð sammála um, að ekki væri fengin nægileg reynsla af framkvæmd þeirrar reglugerðar á þessum stutta tíma, síðan hún var sett, til þess að ástæða væri til að gefa hana út að nýju í heild. En hins vegar lagði nefndin til að gerðar yrðu á reglugerðinni vissar breytingar, og var reglugerðinni breytt í samræmi við þessar tillögur 7. jan. 1972 og breytingarnar sendar Stjórnartíðindum til birtingar 10. sama mánaðar.“

Þetta er það, sem ég las áðan, og þetta hef ég nú lesið aftur. Af því kemur skýrt fram, að það var vegna þess, að samstarfsnefnd menntaskólastigsins taldi ekki næga reynslu komna á framkvæmd reglugerðarinnar, sem hún lagðist blátt áfram gegn því, að farið væri að umsteypa hana í heild að svo skömmum tíma liðnum, ekki vegna þess að tíma eða starfslið skorti til þess verks.

Þá er aðeins eitt atriði af mörgum, sem mig langar til að víkja að í ræðu hv. 7. þm. Reykv. Hann skýrði þar frá aukningu byggingarframlaga til menntaskóla á áratugnum 1961–1971, en sagði síðan, að á yfirstandandi fjárhagsári, 1972, væri byggingarframlagið aðeins 12 millj. kr. Ef hv. þm. lítur í fjárlög, getur hann séð, að framlög til byggingar á Laugarvatni eru 18 millj. 250 þús. kr., við Hamrahlíð 20 millj. kr., á Ísafirði 21 millj., til menntaskóla á Austurlandi 5 millj. og á Akureyri er stofnkostnaður ½ millj. Þetta er til samans 64 millj. 780 þús. kr. Þessar 12 millj., sem hv. þm. talar um, gæti verið hækkunin á framlögunum á þessu ári frá síðasta ári. Þar eru 12 milljónirnar.