29.02.1972
Sameinað þing: 43. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 2477 í B-deild Alþingistíðinda. (2653)

Húsnæðismál menntaskóla o.fl.

Ragnhildur Helgadóttir:

Herra forseti. Ég vona, að hæstv. forseti virði okkur til vorkunnar, að þetta dregst nokkuð á langinn, en það leit út fyrir, að hér væri gerð virðingarverð tilraun til að flýta umr., þar sem við ætluðum tvö samtímis í ræðustólinn, hv. 4. þm. Reykv. og ég. Það var e. t. v. nokkuð táknrænt, því að ummæli þau, sem hans fangamark stóð undir í dagblaðinu Tímanum í morgun, voru einmitt þess eðlis, að þau féllu að ýmsu leyti í sama farveg og mínar athugasemdir. Þar kom fram yfirlýsing um eindreginn vilja til þess að ráða fram úr þeim vandamálum, sem við er að etja í málefnum menntaskólanna í dag. Hæstv. menntmrh. sagði hér áðan, að hans rn. vildi fyrir sitt leyti stuðla að mjög skjótri lausn þess vanda, sem ég ræddi um í lok minnar ræðu hér áðan, deilunnar vegna heimavinnu kennara. Nú liggur fyrir yfirlýsing hæstv. menntmrh. um, að hann muni stuðla að því, að hún verði leyst hið allra skjótasta, og ég vona, að dagblaðið Tíminn mæli fyrir munn sinna flokksmanna, er hann segir, að þeir muni einnig að þessu stuðla, og hygg ég, að aðrir þeir, sem í ríkisstj. sitja, muni eftir fylgja.

Ég vil þakka hæstv, menntmrh. fyrir hans svör við mínum spurningum. Það er rétt, að ég ræddi við hann í morgun, en ekki fyrr, um, að ég mundi gera þessi málefni hér að umræðuefni utan dagskrár og hafði satt að segja vænzt þess, að svör við þessum spurningum lægju fyrir í menntmrn. einmitt þá, þar eð ég er ekki fyrsti aðilinn eða fyrsta manneskjan, sem lætur sér detta í hug að spyrja um þessi mál Þessi mál hafa verið í brennipunkti vikum saman. Hæstv. ráðh. nefndi, að ekki væri nægileg reynsla komin á, hvernig reglugerðin, sem sett hafði verið eftir menntaskólalögunum, yrði í framkvæmd og því þætti ekki taka því nú strax að setja aðra heildarreglugerð, en hins vegar hefðu nokkrar breytingar verið gerðar 8. jan. og þær hefðu verið afhentar Stjórnartíðindum til birtingar 10. jan. Ég hef hér í höndum eina heftið af Stjórnartíðindum, sem út hefur komið á þessu ári, og þar er ekki að finna neina reglugerð, er varðar málefni menntaskóla. Þar eru reglugerðir um tekjuskatt og eignarskatt og ýmsar reglugerðir um skipulagsuppdrætti og sitthvað fleira, en reglugerð um menntaskóla fyrirfinnst þar engin.

Nú vil ég engan veginn rengja það, sem hæstv. ráðh. sagði hér áðan, en vil óska þess, að hann leiti vandlega undir borðum og stólum í hæstv. menntmrn. og athugi, hvort nefnd reglugerð finnist þar ekki.

Hæstv. ráðh. sagði, að stefna menntmrn. væri, að til allra starfa eftir hinum nýju menntaskólalögum væru ráðnir starfsmenn, en sums staðar væru störf þessi einnig á höndum kennara, eins og lögin raunar ætluðust til. Það á við um sum þessara starfa. Ég legg áherzlu á, að hæstv. ráðh. athugi vandlega, að skipað verði í starf námsráðunauta. Ég dreg enga dul á það, að af þessum störfum auk aðstoðarskólastjórans tel ég það starf geta haft langmesta þýðingu fyrir bæði námsárangur og alla velferð nemenda og árangur kennaranna einnig. Hæstv. ráðh. nefndi, að í Menntaskólanum í Reykjavík hefðu verið gerðar ýmsar bráðabirgðaráðstafanir vegna húsnæðis. Ég tel að þær ráðstafanir séu engan veginn fullnægjandi, og það hryggir mig mjög að heyra, að ekki hafi verið hugsað enn lengra í þeim efnum nú þegar og vonast til, að svo verði hið fyrsta, að gerðar verði ráðstafanir, sem nemendur og kennarar átti sig á, að komi að raunverulegu gagni.

Þá nefndi hæstv. ráðh., að Menntaskólanum við Hamrahlíð yrði lokið að fullu haustið 1972 að öðru leyti en því, er til leikfimihúss tekur, en um það mál ætla ég ekki að ræða, því að ég hef flutt sérstaka till. í þingi um það efni, þar sem lagt er til, að neytt verði sérstaks tækifæris, sem nú stendur fyrir dyrum, til að gera lausn á því máli ódýrari og einfaldari en ella hefði orðið.

Ég vil svo ítreka það, að ég þakka hæstv. ráðh. fyrir að hafa komið hér fyrir þingheim og flutt sín svör við þeim spurningum, sem hér hafa verið fluttar og eru í raun og veru ekki mínar spurningar, heldur fyrst og fremst brennandi spurningar allra þeirra, sem stunda menntaskólanám á Íslandi, og þeirra, sem sjá um fræðslu menntaskólanema á Íslandi, og foreldra menntaskólanema á Íslandi.