16.02.1972
Neðri deild: 42. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 2481 í B-deild Alþingistíðinda. (2658)

Afgreiðsla mála úr nefndum

Forseti (GilsG):

Áður en gengið er til dagskrár vil ég leyfa mér að vekja athygli á því, að mál koma helzt til dræmt frá þn. Það vill að vísu oft verða svo um þennan árstíma, þegar þinghald er hálfnað eða liðlega það, þá er helzt til lítið af málum, sem komið hafa frá n., en svo hefur það brunnið við, að undir lok þinghalds hefur verið óeðlilega mikið að gera og málin hafa hrúgazt upp til afgreiðslu. Ég vildi þess vegna eindregið mælast til þess við hv. þn. þessarar d. og þá sérstaklega við formenn þeirra, að þeir leitist við að hraða afgreiðslu mála, eftir því sem eðlilegt og fært þykir, þannig að hægt yrði að komast hjá því, að óeðlilega mikið verði að gera við málaafgreiðslu undir þinglok, þ. e. afgreiðslu þeirra mála, sem ætti að vera hægt að afgreiða fyrr.