22.11.1971
Efri deild: 14. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 192 í B-deild Alþingistíðinda. (267)

86. mál, Framkvæmdastofnun ríkisins

Eggert G. Þorsteinsson:

Herra forseti. Hæstv. forsrh. hefur nú skýrt málið allmiklu ljósar en frv. sjálft, sem hér er til umr., um Framkvæmdastofnun ríkisins, ber með sér, en þó er enn allmargt óupplýst, sem væntanlega fæst upplýst við meðferð málsins í n., þegar þar að kemur, væntanlega fjhn. Þar sem ég á ekki sæti í þeirri n., sem væntanlega fjallar um málið, leyfi ég mér hér að leggja nokkur orð í belg.

Það frv., sem hér er til umr., er allviðamikið, en aðeins fram komið fyrir þremur dögum, eins og hv. þdm. er kunnugt, þannig að tiltölulega lítill tími hefur gefizt til að athuga það til hlítar, svo sem vert væri, svo víðtækt sem málið er. Við fyrstu yfirsýn virðist áreiðanlega mörgum, að verið sé að feta sig til hins gamalkunna Fjárhagsráðs, sem siðan hét innflutningsnefnd og innflutningsskrifstofa o.s.frv. Hæstv. forsrh. undirstrikaði það sérstaklega, að hér væri ekki um slíkt að ræða, en slíkar hugmyndir virðast nú fá byr undir báða vængi. En til fyrrgreindra ráðstafana var þó á sínum tíma gripið vegna neyðarástands og þáverandi gjaldeyriskreppu, vegna þess að gjaldeyristekjur þjóðarinnar önnuðu ekki þeirri eftirspurn, sem fyrir hendi var í þjóðfélaginu. Nú verður ekki með nokkru móti hægt að beita þeirri sömu forsendu. Aflamagn er í hámarki, og fiskverð hefur á árinu hækkað yfir 63%, og allt frá miðju árinu 1970 hafa ýmist opinberir aðilar eða einstaklingar staðið í samningum innanlands og utan um endurnýjun veiðiflotans og þá sérstaklega þeim tegundum, sem enginn hafði um margra ára skeið sýnt áhuga á. Hér á ég við smærri fiskibáta og togara. Á erfiðleikaárunum 1967 til og með árinu 1969, þegar aflabrögð og verðmæti afurðanna voru í algjöru lágmarki, var þáv. ríkisstj. legið mjög á hálsi fyrir að kaupa ekki nokkra tugi togara, sem var áætlað, að kostuðu 80–160 millj. kr. hver, ásamt tilheyrandi fjölda báta. Þessum fullyrðingum var veifað framan í almenning, þótt enginn fyndist til að kaupa og því síður að reka slíkt skip vegna ríkjandi neyðarástands, sem með engu móti var hægt að saka innienda aðila um.

Í árslok 1969 fór hins vegar að birta til í efnahagsmálum þjóðarinnar, m.a. vegna aðgerða innanlands með lagasetningu og stjórnarathöfnum, ásamt auknum afla m.a. vegna nýrra veiðiaðferða, sem voru afleiðingar langra og kostnaðarsamra veiðitilrauna. Má í því sambandi nefna skelfisk-, humar- og rækjuveiðar ásamt mjög gjöfulli grálúðuveiði, sem voru algjörar nýjungar á þessu árabili. Siðast en ekki sízt varð umtalsverð hækkun á verðlagi fiskafurða erlendis á þessu tímabili, þótt það væri ekki innlendum aðilum að þakka. Innlendu aðgerðirnar til að gera útgerð og sjósókn eftirsóknarverða á ný voru ekki líklegar til vinsælda og komu óneitanlega harkalega niður á öllum almenningi. Fyrst og fremst bitnuðu þær þó á sjómönnum, sem næstu árin á undan höfðu átt því láni að fagna að hafa allgóðar tekjur og uppgripaafla á síldveiðum. Þar urðu hin snöggu viðbrigði mest og sárust. Á þessa strengi léku þáv. stjórnarandstæðingar vel og dyggilega utan þings og innan, að ekki sé minnzt á kosningabaráttuna fyrir bæjarstjórnarkosningarnar 1970 og svo aftur fyrir alþingiskosningarnar s.l. vor. Þetta gerðu þeir, þótt þeir hefðu undir höndum haldgóðar upplýsingar um ríkjandi ástand og fulla vissu um, að ef ekkert yrði að gert, boðaði það enn meiri þrengingar alls almennings og meira atvinnuleysi, sem flestum þótti þó þungbært þá. Þáv. ríkisstj. hélt þó ótrauð sinni stefnu í fullvissu um, að hún segði þjóðinni sannleikann um ástandið og hvert stefndi. Það væri svo þess virði nú, ef einhver hlutlaus aðili mundi reikna það út, þegar reynslan hefur sjálf talað, hvað gerzt hefði og hvert ástandið væri nú í atvinnumálum landsmanna og efnahagsmálunum almennt, ef fyrrv. ríkisstj. hefði ekki þorað að gera þær ráðstafanir, sem hún gerði á þessu erfiðleikatímabili. Úr hvaða sjóðum hefði núv. ríkisstj. þá ausið nú? Hvaða ný skip hefðu verið keypt eða samið um smíði á nú?

Í umr. um till. fyrrv. ríkisstj. hér á hv. Alþ. voru hv. stjórnarandstæðingar, sem nú skipa stjórnarlið, oft að því spurðir, hvort þeir hefðu aðrar till. að gera til lausnar vandanum og þá hverjar. Svör þeirra voru nokkuð mismunandi, og til voru raddir, sem sögðu, að vandinn væri mun minni en ríkisstj. vildi vera láta og e.t.v. nánast enginn. Þeir, sem vildu þó vera raunsæir, sögðu efnislega á þessa leið: Í fyrsta lagi er það ekki í okkar verkahring, sem erum í stjórnarandstöðu, að leysa vandann, það er ykkar verk, sem eruð í stjórnarliðinu. Í öðru lagi þarf meira og betra skipulag á fjárfestingu landsmanna og að ríkisstj. hafi meiri heildarstjórn á útlánum hinna ýmsu lánastofnana, stýri fjármagninu, eins og það var orðað. Önnur svör fengust ekki úr þeim herbúðum þá. ríkisstj. þáv. hélt hins vegar að settu marki og náði því. Efist einhverjir um það, þá er hinum sömu hollt að muna, að strax á árunum 1969 og 1970 hófst á ný vakning fyrir endurnýjun veiðiflotans, og fjörkippur kom í velflesta þjóðþrifafjárfestingu, og var í því efni veitt aðstoð og fyrirgreiðsla af hálfu hins opinbera. Þannig höfðu ýmist verið keyptir eða samið um smiði á allmörgum nýjum skuttogurum og fjölda hinna minni fiskibáta á árinu 1970 og fram á mítt þetta ár, þegar hæstv. núv. ríkisstj. settist í valdastólana 14. júlí s.l.

Alþfl. lýsti yfir því við valdatöku hæstv. núv. ríkisstj., að þrátt fyrir stjórnarandstöðu sína mundi hann ekki bregðast þinglegum skyldum sínum með því einu að segja, að sér komi ekki við vandamál, sem að þjóðinni kunni að steðja. Þvert á móti mun hann meta einstakar stjórnarathafnir eftir málefnunum sjálfum, þ.e. fylgja góðum málefnum, er til heilla horfa, hverjir sem þau kunna að flytja. Þetta eitt er í samræmi við rúmlega hálfrar aldar starf flokksins innan þings og utan.

Frv. um Framkvæmdastofnun ríkisins mun af stjórnarflokkunum eiga að teljast efndir á fyrri yfirlýsingum um nauðsyn þess að stjórna betur fjárfestingu landsmanna og gjaldeyriseyðslu undir einni heildarstjórn. Um þetta frv. um Framkvæmdastofnun ríkisins verður að sjálfsögðu fjallað í fjhn., og þar munu vonandi fást á því nánari skýringar en hér hafa þegar verið fluttar. Þó kunna einhverjar að slæðast fram við frekari umr. málsins.

Það er eitt meginatriði efnahagsmálanna, hvernig fjár er aflað til framkvæmda og hvernig því er varið. Enda þótt fáar þjóðir noti stærri hlut af þjóðartekjum til fjárfestingar en við Íslendingar höfum gert, er sífellt skortur á fé til þeirra hluta, því að viljinn til að byggja upp, framtak fólksins, er og verður vafalaust um langa framtíð meiri en það fé, sem við höfum undir höndum. Af þessum sökum er mjög mikilvægt, hvernig fjármunum til framkvæmda er deilt niður, hvernig verkefnum er raðað. Það er eitt af meginatriðum í stefnu jafnaðarntanna, að ríkisvaldið eigi að gegna miklu og víðtæku hlutverki í efnahagslífinu og ráða þeirri stefnu, sem þar ríkir. Þetta á að gera fyrst og fremst með víðtækri áætlanagerð og beitingu þeirra hagstjórnartækja, sem ríkisvaldið aflar sér. Athyglisvert er að gera sér grein fyrir, hver þróunin hefur verið í þessum málum undanfarinn áratug eða í tíð fyrrv. ríkisstj., og þegar að er gáð, kemur í ljós, að á þessu tímabili var komið upp veigamestu hagstjórnartækjunum, sem ríkisvaldið hefur nú á að skipa, og þáttur þess í öflun lánsfjár og hagnýtingu þess varð sífellt meiri. Þýðingarmesta skrefið á þessari braut var áreiðanlega stofnun Seðlabanka Íslands með lögum frá 1961, fyrir liðlega 10 árum. Þessi banki annarra banka og banki íslenzka ríkisins er nú ein af áhrifamestu stofnunum efnahagslífsins, sem framfylgir stefnu ríkisstj. hverju sinni á sviði gjaldeyris- og peningamála og fylgir henni eftir. Engum dettur nú í hug að leggja Seðlabankann niður. Hins vegar heyrast raddir um, að hann sé of stór og valdamikill. Hvað um það, með stofnun og uppbyggingu Seðlabankans fékk fyrrv. ríkisstj. hinu opinbera í hendur áhrifamesta hagstjórnartækið, sem hefur víðtæk afskipti af öllu efnahagslífi þjóðarinnar.

Þá er rétt að rifja upp, að á síðastliðnum áratug var mikið gert til að fjölga fjárfestingarsjóðum og efla þá, eins og fram hefur komið í þessum umr. nú þegar. Samkv. grein í nýlegu hefti Fjármálatíðinda eru nú í landinu 14 fjárfestingarsjóðir, sem hafa það að aðalverkefni að lána til fjárfestingar og framkvæmda, enda þótt til séu miklu fleiri sjóðir, sem að einhverju leyti lána í þeim tilgangi, en hafa þó annað aðalhlutverk. Af þessum 14 fjárfestingarlánasjóðum voru 7 eða helmingurinn af þeim stofnaðir í tíð síðustu ríkisstj. Það eru Ferðamálasjóður, Framkvæmdasjóður, Iðnþróunarsjóður, Lánasjóður sveitarfélaga, Stofnlánadeild landbúnaðarins og Verzlunarlánasjóður. Hinir 7 voru allir stofnaðir fyrr, en á síðustu 10 árum hefur verið sett ný löggjöf um flesta þeirra og starfsemi þeirra styrkt og endurbætt. Tekjur sínar hafa þessir sjóðir af margvíslegum framlögum ríkis og sveitarfélaga, sérstaklega í skattlagningu ýmiss konar og að sjálfsögðu vöxtum. Er hér um að ræða mjög veigamikinn þátt í íslenzku efnahagslífi og verulegan hluta allrar fjárfestingar í landinu. Það má helzt færa fram sem gagnrýni á þetta kerfi, að sjóðirnir séu of margir og of oft verði, eins og kom fram í ræðu hæstv. forsrh., þeir, sem standa fyrir framkvæmdum, að ganga frá einum sjóði til annars og reyna að fá eitthvað frá tveimur eða þremur mismunandi stofnunum. Má þá einnig gera ráð fyrir, að samræming á starfsemi sjóðanna sé of lítil miðað við stjórn þeirra. Það frv., sem hér liggur fyrir, gerir aðeins ráð fyrir sameiningu tveggja þessara sjóða, Atvinnujöfnunarsjóðs og Framkvæmdasjóðs, en þeir eiga meira en þriðjung allra eigna hinna fyrrnefndu 14 sjóða. Þá tel ég einnig rétt að nefna hina miklu aukningu í áætlanagerð á tímabili síðustu ríkisstj. Tilraunir til að gera heildaráætlanir um þjóðarbúið allt til nokkurra ára voru gerðar, en gáfu ekki nógu góða raun, það ber að játa. Hins vegar var tekið upp það fasta kerfi að gera framkvæmdaáætlun fyrir hvert ár, og var það mikil framför. Þar eru valin þau fjárvana verkefni, sem ríkisstj. og Alþ. telja að verði að ganga fyrir öðru, og er aflað til þeirra nauðsynlegs fjármagns á einni hendi. Þá var hafin gerð landshlutaáætlana og reyndar valin Vestfjarðaáætlun. Þarf ekki að efa, að þessi stefna var rétt og hefur þegar gefið góða raun, enda má nú heyra till. um slíkar áætlanir fyrir alla landshluta. Þessi þróun hefur verið stórt skref í áttina til meiri áætlanagerðar á Íslandi, enda þótt gerð og framkvæmd þessarar áætlunar hafi verið helzt til laus í reipunum. Þá hefur verið tekin upp áætlanagerð á ýmsum sviðum opinberra framkvæmda, svo sem með lögskipaðri gerð vegaáætlunar og hafnaáætlun. Hefur reynslan á þessum sviðum orðið mjög góð, og kemur nú engum til hugar að hverfa aftur til fyrri vinnubragða.

Af því, sem ég nú hef sagt, má marka, að víðtæk áætlanagerð á sviði opinberra framkvæmda varð að veruleika á Íslandi í tíð fyrrv. ríkisstj. Alþfl. telur það eitt af því mikilvægasta, sem síðasta ríkisstj. gerði, enda þótt þessari staðreynd sé ekki veitt athygli eins og skyldi af mörgum. Það er að sjálfsögðu enn þá stefna Alþfl. að halda áfram á þessari braut og hagnýta í framtíðinni á enn viðtækari hátt áætlanagerð og áætlunarbúskap.

Með því frv., sem hæstv. ríkisstj. hefur nú lagt hér fram og til umr. er, er gert ráð fyrir að koma upp Framkvæmdastofnun ríkisins. Hér verður þó ekki um algera nýjung að ræða, því að sameina á aðeins tvo sjóði, Framkvæmdasjóð og Atvinnujöfnunarsjóð, svo og Efnahagsstofnunina. Ein yfirstjórn kemur, þar sem nú eru þrjár, en þriggja manna framkvæmdaráð er nýtt.

Það ætti að vera vinningur og leiða til hagnýtari starfsemi að sameina sjóðina tvo, þó að skrefið sé stutt. Þannig mun fást betra yfirlit um framkvæmdir og skipulegri vinnubrögð, a.m.k. við það. Efnahagsstofnunin, sem hefur sannað tilverurétt sinn á undanförnum árum, svo að fáir munu nú efast um hann, á að starfa í stórum dráttum eins og deild í hinni nýju stofnun. Efnahagsstofnun hefur einna ótvíræðast sannað gildi sitt við gerð kjarasamninga og hvers konar verðlagsákvarðana, sem eru nú margar í voru þjóðfélagi. Sérstök áætlanadeild verður hins vegar að teljast greinilegur ávinningur. Gerð og framkvæmd hvers konar almennra áætlana, svo sem birgðaáætlana, hefur verið of laus í reipunum, og er nauðsynlegt að taka það mál fastarí tökum, ef þjóðin vill hagnýta sér áætlanagerð í vaxandi mæli á komandi árum. Lánadeild hinnar nýju stofnunar er með frv. fengið allmikið vald til að samræma útlán allra opinberra stofnlánasjóða, eins og í frv. segir, og setja reglur um, hvaða framkvæmdir skuli hafa forgang umfram aðrar. Ég legg áherslu á, að það er skoðun okkar Alþfl: manna, að hér velti algerlega á framkvæmdinni, og verður að ætla a.m.k. að óreyndu, að þeim verði ekki beitt til að koma á óeðlilegum höftum, heldur til þess að samræma framkvæmdir í landinu, greiða fyrir fjármögnun þeirra, sem augljóslega þurfa að ganga fyrir, og gera þeim, sem leita eftir lánum til fjárveitinga, betur Ljóst, hvers þeir mega vænta, án þess að þeir þurfi að ganga á milli margra banka og sjóða, þar sem um of hefur virzt, að hver starfi í sínu horni án samráðs við aðra. Það er tvímælalaust til bóta, ef unnt reynist að tengja saman betur en áður öflun fjármagns til framkvæmda og gerð áætlana, enda hefur þegar verið að því unnið, svo sem fyrr er sagt í þessari ræðu, og það er einnig til bóta að tryggja samstarf margvíslegra aðila, svo sem ríkisvalds og sveitarfélaga, að áætlanagerð.

Herra forseti. Það skulu svo verða lokaorð mín nú, að Alþfl. telur frv. þetta það athyglisvert, að hann mun taka jákvæðan þátt í að athuga það í þeirri n., sem það fær til meðferðar. Alþfl. er því samþykkur yfirlýstri meginstefnu frv. í trausti þess, að framkvæmd laganna og setning nauðsynlegrar reglugerðar verði í reynd í samræmi við þann vilja og stefnu, sem í frv. felst og fram kom í ræðu hæstv. forsrh. hér áðan.