22.11.1971
Efri deild: 14. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 196 í B-deild Alþingistíðinda. (268)

86. mál, Framkvæmdastofnun ríkisins

Ragnar Arnalds:

Herra forseti. Ekki er vafi á, að það frv., sem hér liggur fyrir og hefur verið lagt fram af hæstv. ríkisstj., er eitt mikilvægasta málið, sem Alþ. hefur til meðferðar nú á þessu hausti. Samþykkt frv. mun vafalaust hafa í för með sér mjög verulega og afdrifaríka stefnubreytingu í efnahags- og atvinnumálum. Með þessu frv. er hafizt handa um að vinna að verkefnum, er hafa verið vanrækt, sum að miklu leyti og önnur að öllu leyti. Þar verður fyrst og fremst um að ræða, að tekin verður upp víðtæk áætlanagerð á fjölmörgum sviðum og meiri stjórn á fjárfestingarmálum en verið hefur.

Hv. 2. þm. Norðurl. e., Magnús Jónsson, hefur rætt hér nokkuð um afstöðu flokks sins til þessa máls, og í ræðu sinni í öndverðu lagði hann áherzlu á það, að í þessu frv. fælist í rauninni fátt nýtt. Hann lagði á það sérstaka áherzlu, að þó svo ætti að heita, að hér væri um víðtæka áætlanagerð að ræða, þá væri það nú svo, að til væru þegar áætlanir á fjöldamörgum sviðum. Ekki ætla ég að neita því, að í störfum fyrrv. ríkisstj. hafi verið gert ráð fyrir áætlanagerð, en ég leyfi mér að fullyrða, að það, sem unnið hefur verið á þessu sviði, hefur verið á mjög frumstæðu stigi, og áætlanagerð er öll mjög skammt á veg komin hér á Íslandi. Svo lítið sé á einstakar hliðar áætlanagerðar, þá er fyrst til að taka opinberar áætlanir, sem vissulega eru til í dag á örfáum sviðum, m.a. á sviði vegamála, en segja má, að þetta frv. breyti þar minnstu, þótt þar sé ein grein, sem fjalli um þetta atriði, sem er 9. gr. frv.

Ef aftur á móti er litið á 8. gr. frv., þar sem fjallað er um þróun byggðar og atvinnulífs og hinar svo kölluðu byggðaáætlanir, þá er rétt að undirstrika það, að þó að rétt sé, að inn á þá braut hafi verið farið nú á seinasta áratug, þá hefur þar verið um mjög frumstæða áætlanagerð að ræða, sem er mjög skammt á veg komin. Það eru líklega ein 6 ár síðan ríkisstj. fyrrv. gaf yfirlýsingu um það til verkalýðssamtaka á Norðurlandi vestra og eystra, að hafizt yrði handa um gerð framkvæmdaáætlunar fyrir Norðurland, þar sem séð yrði fyrir því, að útrýmt yrði atvinnuleysi á Norðurlandi með öllu. Allmörg ár liðu, þar til þetta loforð kom til framkvæmda eða byrjað var á því að reyna að framkvæma það, og þó var farið í það að lokum að hefja starf, sem hét því nafni Norðurlandsáætlun, en skemmst er að segja af því starfi, að þar hefur raunverulega aldrei verið um raunverulega áætlun að ræða enn sem komið er, þótt liðin séu 6 ár frá því það loforð var gefið. Þar hefur nær eingöngu verið um talnalega spásögn að ræða um þróun atvinnulífs í viðkomandi landsfjórðungi og um væntanlega þróun mannafla og aðrar hagfræðilegar staðreyndir, sem dregnar voru saman, en um raunverulega áætlun um tilteknar framkvæmdir, sem koma skyldi fram, hefur aldrei verið að ræða, nema þá að mjög takmörkuðu leyti. Það hafa verið gerðar fjöldamargar skýrslur, sem nefndar hafa verið þessu ágæta nafni, Norðurlandsáætlun, og það hefur verið útvegað fé, sem veitt hefur verið í gegnum Atvinnujöfnunarsjóð, til ýmiss konar framkvæmda og nefnt því nafni, að það væri á Norðurlandsáætlun, en það hefur þó enginn fengið að sjá neina raunverulega afmarkaða áætlun til nokkurra ára um það, hvað gera skyldi. Þess vegna vil ég undirstrika það, að á þessu sviði hefur verið um mjög frumstæða áætlanagerð að ræða, og þarna þarf að verða mjög veruleg breyting, ekki aðeins að áætlanagerðin verði miklu fullkomnari en áður hefur verið, heldur einnig að hún nái til miklu fleiri landshluta en verið hefur.

Varðandi þriðju tegund áætlanagerðarinnar, sem fjallað er um í 7. gr. frv., vil ég undirstrika það hér, að fram að þessu hafa engar áætlanir verið gerðar um uppbyggingu og þróun mikilvægustu atvinnugreinanna. Það hafa hreinlega engar áætlanir verið gerðar á þessu sviði, og segja má, að einmitt þessi þátturinn sé kannske hvað mikilvægastur, þegar um verður að ræða hina stórauknu áætlanagerð, sem hefjast á með störfum þessarar stofnunar.

Eins er það með áætlanagerð um heildarþróun atvinnulífsins. Hún hefur aldrei verið gerð, og eiginlega má segja hið sama um áætlanir til langs tíma um þróun þjóðarbúsins. Það var að vísu nokkur viðleitni uppi fyrir allmörgum árum til að gera slíkar áætlanir um þróun þjóðarbúsins til nokkurra ára, en ég geri ráð fyrir því, að hv. þm. geti verið mér sammála um það, að ekki hefur borið mikið á slíkri áætlanagerð seinasta hálfa áratuginn.

Hv. 2. þm. Norðurl. e. taldi, að frv. það, sem hér liggur fyrir, væri mikil vansmið og að einstakar frumvarpsgreinar stönguðust á við núgildandi lög að einhverju leyti. Hann vildi fá að vita, hverjir hefðu átt sæti í nefnd þeirri, sem ríkisstj. hefði fengið til að undirbúa frv., og ég skal ekki leyna því, þar sem ég stend hér í ræðustól, að ég átti sæti í þessari nefnd meðal annarra. En ég vil uppiýsa það í þessu sambandi vegna þess, sem hv. þm. var að nefna, um fjárlaga- og hagsýslustofnun, að að sjálfsögðu var nefndinni vel kunnugt um starfsemi hennar og gerði fyllilega ráð fyrir því, að hún héldi störfum sínum áfram, þótt þannig sé tekið til orða í 9. gr. frv., að deildin geri áætlanir fyrir rn. og opinberar stofnanir um framkvæmdir ríkisins og aðrar opinberar framkvæmdir, eftir því sem um semst. Það segir sig sjálft, að áfram munu einstök rn. hafa áætlanagerð með höndum, ef það þykir henta, og að sjálfsögðu mun fjárlaga- og hagsýslustofnunin halda áfram starfi sínu. En staðreyndin er bara sú, að áætlanagerð á þessu sviði er enn sem komið er ákaflega ófullkomin, og vafalaust er það, að rn. telja sig vanta starfskrafta oft og tíðum til þess að geta unnið slík verkefni, og þá er hér gert ráð fyrir því, að sé opin leið fyrir viðkomandi rn. að snúa sér til stofnunarinnar og biðja hana að vinna slík verkefni, ef ástæða þykir til. Það er rétt að undirstrika þau orð, sem hér standa í 9. gr. frv., að slíkt má gera, eftir því sem um semst. (MJ: Má ég grípa fram í fyrir hv. þm. til þess að spara tíma?) Ef forsetinn leyfir, þá er það velkomið af minni hálfu. (MJ: Hv. þm. þarf að lesa aths. við 9. gr., það er það, sem ég átti við.) „Hér er gert ráð fyrir áætlanagerð um opinberar framkvæmdir af svipuðu tagi og Efnahagsstofnunin hefur haft með höndum undanfarin ár.“ Ég sé ekki, að aths. við 9. gr. stangist á nokkurn hátt á við það, sem ég hef hér sagt. Það er laukrétt, sem hér er bent á í þessari viðkomandi aths., að Efnahagsstofnunin hefur að nokkru leyti haft með slíka áætlanagerð áð gera. Ég er hræddur um, að ef hv. þm. vill ekki kannast við það, þá sé auðvelt að benda honum á það, að Efnahagsstofnunin hefur t.d. haft með höndum núna seinustu mánuðina og veitt aðstoð í sambandi við samgöngumál á Norðurlandi. Ég býst við því, að hv. þm., sem er fulltrúi byggðanna á Norðurlandi, hljóti að kannast við það, að sendimenn frá Efnahagsstofnuninni hafa verið á ferðalagi um Norðurland núna á seinustu mánuðum, og starfsmaður á vegum þeirrar stofnunar hefur einmitt verið að fjalla um þau mál. Þannig að ég held, að það nægi að nefna það eina dæmi til þess að sýna fram á, að þessi aths. á fyllsta rétt á sér.

Hv. þm. spurði, hvaða aðili ætti að undirbúa fjáröflun til að framkvæma þær áætlanir, sem gerðar verða, og ég álit, að 12. gr. frv. svari þessu mjög skilmerkilega, svo ég vitni til hennar, með leyfi forseta:

„Lánadeild vinnur að því að samræma útlán allra opinberra stofnlánasjóða og að skipuleggja fjármagnsöflun til framkvæmda með sérstöku tillíti til þeirra framkvæmda, sem forgang þurfa að hafa samkv. áætlun stofnunarinnar.“

Þarna er það greinilega á verksviði lánadeildar að vinna að þessum málum. Hún fylgist með fjárhag allra opinberra fjárfestingarsjóða og gerir tillögur um fjáröflun til þeirra, eftir því sem þörf krefur. Hér er sjálfsagt um náskyld verkefni að ræða. Fjáröflun til einstakra fjárfestingarsjóða annars vegar og fjáröflun til einstakra áætlana eru að sjálfsögðu náskyld verkefni, sem ekki verða skilin að. Það er einmitt gallinn á því kerfi, sem í gildi hefur verið fram að þessu, að þarna hefur ekki verið um nægilega samræmingu að ræða, og þar hefur ekki verið neinn einn aðili, sem hefur unnið að því samtímis að útvega fjármagn til fjárfestingarsjóðanna annars vegar og svo hins vegar til hinna fáu áætlana, sem fráfarandi ríkisstj. hefur verið að vinna að.

Hv. þm. spurði að því, hvort það væri þá þetta margumtalaða framkvæmdaráð eða stjórn stofnunarinnar, sem ætti að taka ákvarðanir, sem að þessu lytu, og ég vil aðeins benda á það, sem stendur í 3. gr. frv., 4., 5. og 6. tölul., en þar segir í fyrsta lagi, að stjórn Framkvæmdastofnunarinnar fjallí um og samþykki allar áætlanir, sem stofnunin gerir, áður en þær eru sendar ríkisstj. Í öðru lagi fari hún með stjórn Framkvæmdasjóðs Íslands og í þriðja lagi með stjórn Byggðasjóðs, og að sjálfsögðu annast hún úthlutun úr þessum sjóðum öllum. Það leiðir því af líkum, að enda þótt framkvæmdaráðið fjalli allítarlega um þessi mál öll, þá hlýtur stjórnin að setja þar sinn lokastimpil á, vegna þess að það verður ekki aðskilið að útvega fjármagn til hinna einstöku framkvæmdaáætlana og svo hins vegar hitt að annast lánveitingar úr þessum tveimur sjóðum.

Hv. þm. gerði mikið veður út af því, að það væru þrír menn, sem ættu sæti í viðkomandi framkvæmdaráði, og spurði, að því er virtist í fullri alvöru, af hverju þeir hefðu ekki verið tveir eða fjórir. Ég efast nú um, að svona einkennileg spurning hafi um langan tíma verið borin upp hér á Alþ. Hvers vegna fjöldi ráðsmanna sé ekki tveir eða fjórir. Skyldi það ekki tíðkast hjá okkur Íslendingum að skipa við stofnanir ráð og nefndir, þar sem fjöldinn stendur á jafnri tölu. Ég er hræddur um, að það sé æði sjaldgæft og það sé yfirleitt talið heldur heppilegra að láta standa á stakri tölu.

Hv. þm. spurði um Atvinnuleysistryggingasjóð og spurði, hvort ekki væri ætlunin að setja einhverjar reglur um Atvinnuleysistryggingasjóð annars vegar og svo hins vegar lífeyrissjóðina almennt, og í því sambandi nægir að nefna 17. gr. frv. Þar segir, með leyfi forseta:

„Stjórn Framkvæmdastofnunar ríkisins skal leita eftir samningum við stjórnir Iðnþróunarsjóðs, Atvinnuleysistryggingasjóðs, lífeyrissjóða og tryggingarfélaga um samvinnu þessara sjóða og félaga við stofnunina varðandi lánveitingar.“

Það liggur nokkuð í hlutarins eðli, að eðlilegra er að hafa þennan háttinn á, að leita eftir samvinnu og frjálsu samkomulagi við viðkomandi sjóði, þar sem um er að ræða stofnanir, sem settar hafa verið á fót með frjálsum samningum einstakra aðila í þjóðfélaginu, og sé ekki rétt að grípa þar inn í nema að undangengnu samkomulagi og því ekki tímabært á þessu stigi málsins að fara að setja neinar reglur hér í þetta frv. um það, hvernig þessu verði háttað.

Hv. 2. þm. Norðurl. e. lagði á það býsna mikla áherzlu í upphafi sins máls og lengi fram eftir sinni ræðu, eins og ég tók hér fram áðan, að það væri í sjálfu sér ekkert nýtt í frv. En hann var nú ekki kominn nema svona eiginlega rétt fram í miðja ræðu, þegar hann venti sínu kvæði í kross allverulega, og þá var það hreint ekki það, að það væri ekkert nýtt í frv. Það mátti skilja, að þar væri eiginlega hrollvekjan sjálf, holdi klædd, komin. Og hann undirstrikaði það, að þarna væri sem sagt um þrennt að ræða, geysilegt skriffinnskubákn, sem ætti að byggja upp, ískyggilega samþjöppun valds og svo stórfellda aukningu ríkisafskipta. Ég þarf auðvitað ekki að taka það fram, að í sjálfu sér skiptir það minnstu í sambandi við þetta mál, hvort hrollur fer um hv. 2. þm. Norðurl. e., þegar hann horfir á þetta frv., en hitt er laukrétt, sem hann tekur hér fram, að í frv. er fólgin mjög veruleg og veigamikil breyting á því kerfi, sem í gildi er í dag. Ef við tökum tilfinningahitann úr þessum einkunnum, sem hann gaf frv., þá má segja, að nokkur sannleiksneisti felist á bak við orð hans. Hann nefndi það, að þarna yrði um geysilegt skriffinnskubákn að ræða. Ég vil ekki samþykkja það. Hitt er rétt, að þarna verður um að ræða mjög víðtæka starfsemi, sem ekki er fyrir hendi nú. Þarna verður unnið að mjög nauðsynlegum og mikilvægum störfum, sem enginn aðili vinnur að nú, og þar af leiðir, að þar koma nýir starfskraftar til sögunnar, en þarna verður þó frekar um einföldun að ræða á því kerfi, sem fyrir er, þar sem eftirtaldar fjórar stofnanir, Hagráð, Efnahagsstofnun, Atvinnujöfnunarsjóður og Framkvæmdasjóður, hverfa úr sögunni sem sjálfstæðir aðilar og falla inn í þessa nýju stofnun. Þegar hann ræðir um þá ískyggilegu samþjöppun valds, sem þarna verði um að ræða, þá er það að því leyti rétt, þegar tilfinningahitanum er sleppt, að þarna er um að ræða að sameina í einni stofnun náskyld verkefni, sem að dómi stjórnarflokkanna verður að fjalla um með nauðsynlegri heildaryfirsýn og því óhjákvæmilegt að fella inn í eina stofnun. Þegar hv. þm. leggur á það áherslu, að þarna verði um að ræða stórfellda aukningu ríkisafskipta, þá er það vafalaust ofmælt, en hitt er aftur á móti rétt, að með þessu frv. má ætla, að ríkið fari að sinna forustuskyldu sinni í atvinnumálum, óhjákvæmilegri og nauðsynlegri forustuskyldu sinni í atvinnumálum.

Hv. þm. Magnús Jónsson lýsti andstöðu sinni og flokks síns við frv., og það kemur mér ekki á óvart, vegna þess að mér er kunnugt um, hver er afstaða flokks hans til efnahagsmála almennt, og í sjálfu sér tel ég það frekar meðmæli með frv., að svo íhaldssamur flokkur sem hann fylgir skuli ekki telja það til mikilla bóta, því að þetta frv. táknar mjög verulega stefnubreytingu í efnahags- og atvinnumálum, og á því var vissulega ekki vanþörf.

Hv. 1. landsk. þm. fjallaði einnig um það frv., sem hér liggur fyrir, og var ræða hans hófsamleg. Hann fjallaði aðallega um verk fráfarandi stjórnar, minnti á uppbyggingu Seðlabankans og stofnun hinna ýmsu fjárfestingarsjóða, sem hann nefndi að væru 14 starfandi nú, og hefðu þar af 7 verið stofnaðir í tíð fráfarandi stjórnar. Þær athugasemdir, sem hann gerði í því sambandi, voru vafalaust skynsamlegar, en hann virtist samþykkur meginstefnu frv. og þeim nýmælum, sem í frv. eru, en tók það fram, að miklu máli skipti, hvernig framkvæmdin yrði, og það er vissulega hverju orði sannara. Ég undirstrika það hér að lokum, að það ber að fagna því sérstaklega, að Alþfl. skuli reynast svo jákvæður til þessa mikilvæga máls.