11.11.1971
Sameinað þing: 12. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 27 í B-deild Alþingistíðinda. (27)

71. mál, innlent lán

Matthías Á. Mathiesen:

Herra forseti. Ég vil þakka ráðh. svar hans við því, að það er gert ráð fyrir, að sala á þessum spariskírteinum fari fram á þessu ári. Það vekur aðra spurningu í mínum huga um þá afbrigðilegu meðferð, sem mér sýnist að sé nú á þessu máli, miðað við það, með hvaða hætti þessi mál hafa fengið afgreiðslu á undanförnum þingum. Er ætlun ríkisstj. að leggja fyrir Alþ. það, sem nú situr, á framhaldsþingi eftir áramót, annað frv. um sölu á spariskírteinum á næsta ári? Og ef svo er, hversu háa upphæð er hér um að ræða? Mér sýnist, að með þessu frv., og ef fer sem horfir, að hæstv. ríkisstj. leggur fyrir þetta sama þing heimild til að selja spariskírteini á næsta ári, þá sé mjög höggvið í möguleika viðskiptabankanna til þess að annast um þá fyrirgreiðslu, sem þeir þurfa að sjálfsögðu að gera við sína viðskiptamenn, og þar með sé stefnt að því að þrengja lánamarkaðinn fyrir einstaklinga og aðra þá, sem þurfa að sækja til viðskiptabankanna.

Ég vil svo ítreka það, að fjhn. d. verði gerð grein fyrir, til hvers eigi að nota þetta fjármagn, því að ég fæ ekki séð, hvers vegna þessarar aðferðar er þörf við að afla fjár til geymslu, nema gert sé ráð fyrir því, að það þurfi með sama hætti að afla fjár á næsta ári og að á framhaldsfundum þingsins á næsta ári verði því ætlað að samþykkja nýtt frv.