22.11.1971
Efri deild: 14. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 210 í B-deild Alþingistíðinda. (272)

86. mál, Framkvæmdastofnun ríkisins

Forsrh. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Ég skal nú ekki tefja tímann með því að fara að fást við þá gagnrýni, sem hér hefur komið fram á frv. Mér virðist, að hún hafi verið sett fram fremur af vilja en mætti, og það verður tækifæri til þess síðar að taka þau atriði til athugunar, og enn fremur hefur þeim verið svarað að nokkru af öðrum þátttakendum í þessum umr. En það eru aðeins nokkur atriði hér, sem um hefur verið spurt, sem ég vildi koma á framfæri upplýsingum um.

Það hefur verið bent á það, að í 3. mgr. 12. gr. stæði „Framkvæmdastofnunin“, en slíkt orð væri yfirleitt ekki haft annars staðar, heldur talað um stjórn eða þá framkvæmdaráð. Þarna er vafalaust, að átt er við stjórn Framkvæmdastofnunarinnar, og má segja, að út af fyrir sig séu það pennaglöp að tala ekki þarna hreint um stjórn Framkvæmdastofnunarinnar, og ef n. sýnist rétt að breyta þessu í þá átt, þá hef ég vitaskuld ekki neitt við það að athuga.

Um þetta spurði bæði hv. 2. þm. Norðurl. e. og eins hv. 5. þm. Reykn. Hv. 5. þm. Reykn. spurðist fyrir um það, hvort einhver skilyrði væru sett um menntun framkvæmdaráðsmanna og hver væri ráðningartími þeirra, og að hinu sama vék hv. 2. þm. Norðurl. e. nokkuð. Það eru ekki gerðar neinar sérkunnáttukröfur til framkvæmdaráðsmanna, enda er það náttúrlega svo, að það gæti nú kannske vafizt fyrir mönnum að koma sér þá saman um, hvers konar sérkunnáttukröfur ætti að gera. En varðandi sérfræðikunnáttu, sem hér þarf til að koma, þá er gert ráð fyrir henni sérstaklega hjá þeim sérfræðingum, sem eiga að vinna hjá þessari stofnun og væntanlega einnig hjá forstöðumönnum deildanna. Það eru ekki nein ákvæði í lögum um, til hve langs tíma framkvæmdaráðsmenn séu skipaðir. Ég lít svo á og hef lítið svo á, að það væri eðlilegt, að þeir væru skipaðir tímabundið, þannig að ný ríkisstj. hefði tök á því að breyta um í þessum stöðum, og það giltu að því leyti til sömu reglur um þá eins og um stjórn Framkvæmdastofnunarinnar. Tækifæri væru til að skipta um menn, eftir því sem afstaða breytist á Alþ.

Hv. 5. þm. Reykn. benti á, að honum fannst eitthvert ósamræmi á milli 15. og 17. gr., þar sem í 17. gr. er talað um stjórn Framkvæmdastofnunarinnar, en í 15. gr. um framkvæmdaráð. Ég vona nú, að hann komist að þeirri niðurstöðu að athuguðu máli, að hér gætir ekki ósamræmís, vegna þess að það er nokkuð um tvennt að ræða þarna. Annars vegar er í 17. gr. gert ráð fyrir sérstökum samningum við þá ákveðnu sjóði og aðila, sem þar er talað um, og það er eðlilegt að mínum dómi, að það sé í höndum stjórnar Framkvæmdastofnunarinnar. Hins vegar er í 15. gr. fremur um að ræða náið, daglegt, ef svo má segja, samband við þær stofnanir, sem þar er um að ræða, og það er auðvitað óhjákvæmilegt, að það sé í höndum þeirra, sem hafa fast starf hjá Framkvæmdastofnuninni og geta sinnt þannig daglegum störfum. Og á þessu byggist þessi munur.

Hv. þm. gerði aths. við það, að þarna er á einum tveimur stöðum sérstaklega talað um samráð við Rannsóknaráð ríkisins, og taldi, að eins mætti nefna fleiri stofnanir. Auðvitað er þetta álitamál, og það getur komið til athugunar út af fyrir sig hjá n. að bæta við nýjum aðilum, ef henni sýnist það. Ég held nú, að Rannsóknaráðið hafi þarna nokkra sérstöðu. Þetta á t.d. sérstaklega við, ef ég man rétt, þegar um er að ræða könnun á nýjum atvinnugreinum, en það er líka, og á það vil ég benda, í mörgum öðrum ákvæðum frv. gert einmitt ráð fyrir því, að haft sé samráð við ýmsa aðila, sem þar eru nafngreindir, t.d. í sambandi við áætlanagerðir.

Hv. þm. spurði um tekjur Framkvæmdasjóðs. Í þessu frv. er ekki sérstaklega gert ráð fyrir sérstökum tekjustofnum honum til handa. Þá spurði hv. þm. um það, hvort einhverjar bannlínur væru í þessu frv., þannig að byggðaaðstoð mætti ekki fara nema til ákveðinna landshluta. Það er ekki gert ráð fyrir neinni bannlínu í þessu sambandi, og geta allir landshlutar og allar byggðir komið þarna til greina, eftir því sem þörf krefur hverju sinni.

Ég held, að það hafi ekki komið fram neinar aðrar spurningar, sem ég þurfi að svara, en hins vegar ætla ég að leiða hjá mér og ekki falla í þá freistni að fara að ræða um ýmsar aðrar aths., sem hafa komið fram. Það verður þá að bíða betri tíma, af því að ég vildi gjarnan, að hægt væri að afgreiða þetta frv. til n. nú.